14.01.1952
Efri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

112. mál, öryrkjahæli

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég flutti þetta frv. á Alþ. í fyrra fyrir hönd Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Frv. var flutt af því, að telja má, að neyðarástand sé ríkjandi í þessum efnum. Málum er þannig komið, að geðsjúkt fólk og fávitar hafa valdið sveitarfélögunum úti um landsbyggðina ótrúlegum erfiðleikum. Í Reykjavík hefur minna borið á þessu, því að þeir hafa séð fyrir sínum hag með því að koma upp fávitahæli. Mér er ljóst, að með frv. taka sveitarfélögin á sig þungan fjárhagslegan bagga með stofnun þessa hælis, en það er gert vegna þess, að ástandið, eins og það er nú, er óviðunandi.

Nú vil ég þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir það, hvað hún hefur tekið þetta mál alvarlegum tökum og hvað mikið hún hefur lagt að sér til þess að leita úrlausnar, sem heppileg væri fyrir bæði sveitarfélögin og ríkið.

Ef allt fer að vonum, ætti að vera unnt að leysa þetta mál að því er varðar geðsjúka menn, fávita og drykkjusjúklinga. Ég tel því rökstuddu dagskrána, ef samþ. verður, vera jákvæða afgreiðslu á málinu og tel, að frv. hafi náð tilgangi sínum með þeirri afgreiðslu og sveitarfélögin geti að minnsta kosti látið sér vel líka og beðið þá með að taka málið upp aftur að nýju, ef þær vonir bregðast, sem byggt er nú á í sambandi við þetta mál. — Þetta vildi ég taka fram sem flm. þessa frv. í upphafi.