15.11.1951
Neðri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2411)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Mál þetta er flutt af fjhn. að beiðni fjmrh. Það er hv. þdm. kunnugt, að mál þetta var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu. Málið er nú að mestu flutt í sama formi og fjhn. hafði gert till. um á síðasta þingi, en þær till. komu ekki til atkv. þá.

Samkvæmt frv. er svo ráð fyrir gert, að endurskoðað verði fasteignamatið frá árinu 1942. Gert er ráð fyrir, að sérstakar n. verði skipaðar heima í héruðunum til þess að framkvæma endurskoðun fasteignamatsins, en niðurstöður þeirra verði svo afhentar yfirmatsnefnd, sem sérstaklega sé þar til skipuð. Ætlunarverk þeirrar n. er að endurskoða og samræma mat héraðsnefndanna. Ekki er gert ráð fyrir, að þessar n. skoði hverja fasteign, en byggi till. sínar á gamla matinu frá árinu 1942.

Það nýmæli er í frv., að gert er ráð fyrir, að fasteignaskatturinn renni til bæjar- og sveitarsjóða í stað þess að hann hefur runnið til ríkisins. Í þessum efnum hefur ríkt óviðunandi ranglæti. Fasteignir hafa að undanförnu ekki verið taldar fram á skattframtölum nema með litlum hluta af því verðgildi, sem þær raunverulega hafa. Hins vegar hefur sparifé og annað lausafé verið talið fram á fullu verði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. nú, það skýrir sig sjálft. Í grg. er þess getið, að einstakir nm. hafi óbundnar hendur varðandi atkv. sín um einstök atriði frv., en það hefur verið venja, er mál er flutt af þn. af hálfu ráðuneytanna.