15.11.1951
Neðri deild: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það getur varla verið ágreiningsmál, að það er ekki vansalaust að búa við það ástand, sem er á fasteignamatinu hjá okkur. Það er orðin hreinasta háðung, hvernig þeim málum er komið, en það er ákaflega þýðingarmikið, að þessi mál séu í góðu lagi og að þeim verði komið í gott lag sem fyrst. En þá er það spursmál um aðferðir. Hv. þm. A-Húnv. stingur upp á því, að ákveðnu álagi sé bætt ofan á það fasteignamat, sem nú er í gildi. Á þessari aðferð eru þeir gallar, að hún er að mínum dómi ekki fær. Það hafa í okkar þjóðlífi orðið svo miklar breytingar á öllum sviðum, að ómögulegt er að gera þetta sómasamlega með því að leggja á núgildandi fasteignamat með hundraðshluta. Þá kom til greina að láta fara fram nýtt fasteignamat, en við höfum ekki viljað fara þá leið, heldur milliveginn eins og gert er í þessu frv. Með því móti verður verkið ekki eins viðamikið og nýtt mat og ekki heldur eins einfalt og hundraðshlutaálagning, en ég er þeirrar skoðunar, að líta beri einnig á, að niðurstaðan sé sómasamleg, og tel ég, að yrði þá að fara þessa leið.

Ef ég man rétt, þá var siðurinn hér áður, að fasteignamat færi fram á 10 ára fresti, en var svo breytt í 25 ára millibil. Ég vil því benda á, að nú munu um það bil 10 ár síðan síðasta fasteignamat fór fram, og á þeim 10 árum hafa orðið meiri breytingar á þjóðfélagsháttum okkar en nokkurn tíma áður, og væri af þeim ástæðum sízt vanþörf á endurskoðun á fasteignamatinu.