27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það er nýbúið að útbýta brtt. um endurskoðun fasteignamats. Þar sem ég er 1. flm. brtt., vil ég gera nokkra grein fyrir þeim.

Í 1. till. er kveðið nokkru skýrar á um það en í frv., hvernig haga skuli matinu, þannig, að fyrst á að leiðrétta það mat, sem þegar hefur verið gert, og bæta síðan við því, sem ekki hefur verið metið á undanförnum árum, og sömuleiðis að bætt sé við hinum breyttu aðstæðum, sem skapazt hafa að ýmsu leyti, t. d. vegagerð og rafveitum, sem verður að telja til nokkurra þæginda og hækkað hafa fasteignir í verði. Þetta verður að sjálfsögðu allt að koma fram í þessu nýja mati, því að okkar hugsun er sú, að þetta viðbótarmat verði reiknað á sama hátt og þegar aðalmat fer fram. Þetta virðist okkur að skuli vera grunnmat, sem svo skuli hækka með hliðsjón af þeim breytingum, sem orðið hafa á verðlagi á hverjum tíma.

Fjmrh. vék að 1. lið þessarar brtt., þar sem þessu eru takmörk sett. Hann sagði á þá leið, sem rétt er, að slík takmörkun hefði ekki verið sett á áður. Þar er því til að svara, að þetta mat er að nokkru leyti endurmat. Í öðru lagi lifum við á óvenjulegum tímum. Nú er hér á landi mikil verðbólga og allir hlutir í óeðlilega háu verði. Ég geri ráð fyrir því, að menn hafi ekki trú á, að þessi verðbólga haldist. Við teljum því rétt að fara varlega í þessar sakir og því frekar ástæðu til að fara varlega, þar sem heyrzt hefur frá ýmsum ábyrgum mönnum, að óhætt sé að margfalda, jafnvel 10-falda fasteignamatið, til þess að fá eitthvert samræmi. Slík hækkun mundi valda svo mikilli röskun á verðlagi, að það yrði með öllu óþolandi. Því teljum við flm. þetta vera sem nokkurs konar öryggisráðstöfun.

Ráðh. sagði, að tvenns konar tilgangur væri með frv.; það væri að fá rétt hlutföll í matið og færa ýmislegt til betra horfs. Ég er því sammála, að það sé þetta, er stefna ber að. Hitt er svo annað atriði, að okkur greinir á um, hvernig fara eigi að því. Ég fullyrði, að hægt sé að koma á réttum hlutföllum, þó að bilið verði ekki haft stærra en þetta. Það er hægt mikið til, þó að ekki sé farið hærra en þetta, að ná sæmilega réttum hlutföllum og betri en nú gilda. Með þessu mundi þetta færast í nokkru réttara lag nú í augnablikinu, því að ekki er hægt að tala um neitt normalverð nú vegna verðbólgunnar. Ég hef því ekki getað sannfærzt um ástæðuna til þess að breyta þessu.

Um 11. gr. frv. er það að segja, að þar er gert ráð fyrir, að fasteignamatsskatturinn renni til bæjar- og sveitarfélaga. Þessu erum við sammála, en teljum eðlilegt, að þessi skattur renni í sýslusjóð, þar sem sýslumenn eru framkvæmdastjórar í þessum efnum og hafa m. a. innheimtu á sýslusjóðsgjaldi. Það mundi auk þess létta töluvert störf oddvitanna að vera lausir við þessar innheimtur. Á hinn bóginn er það engin viðbót fyrir sýslumenn, þar sem þeir hafa nú á hendi innheimtu á fasteignaskatti. Á hinn bóginn teljum við, að þetta eigi ekki að vera fastbundið, að skattarnir eigi að renna í sýslusjóð, því að gert er náð fyrir, að fasteignaskatturinn geti orðið meiri en sýslusjóðsgjald það, sem hrepparnir þurfa að greiða. Vænti ég, að ekki þurfi að vera neinn ágreiningur um þetta. Sýslan fær þarna fyrr greidd nokkur gjöld og oddvitarnir losna við þessar innheimtur.

Um 3. brtt. er það að segja, að ef frv. þetta verður gert að l. og af því leiðir hækkanir, hverjar sem þær yrðu, segjum fjórfaldar, mundi það þýða það, að ýmis gjöld, sem eiga að greiðast í ákveðnu hlutfalli við þetta, segjum t. d. 5–10%, mundu fjórfaldast og það fé, sem þannig væri innheimt, yrði of há upphæð fyrir þau fyrirtæki sem þetta eiga að fá, því að það er miðað við þörf þeirra án hækkunar, því að þessi prósentutala er miðuð við þörf þeirra fyrirtækja, sem gjöldin eiga að fá. Í öðru lagi eru svo reglugerðir um þessi gjöld, t. d. eins og vatnsskatt í kaupstöðum, og þessu öllu þyrfti að breyta. Hér yrði ekki farið í breytingar á einstökum liðum, heldur yrði að reikna þau öll, ef grunnmati fasteigna væri breytt. Með því að breyta þessu, mundi þetta smám saman falla burt. En með því að gera enga breytingu á þessu væri verið að heimila stofnunum fé, sem enga þörf hefðu fyrir það.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að svo stöddu, en við flm. erum fúsir til að verða við óskum fjmrh. um að taka brtt. til baka til 3. umr.