13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. flutti ég nokkrar brtt. við það, sem prentaðar eru á þskj. 328. Voru þær allar felldar hér í þessari hv. d., og er því auðsætt, að meiri hl. þeirra þm., sem sæti eiga í þessari þd., vill stofna til þessarar endurskoðunar fasteignamatsins frá 1942 og með því móti að hafa í því allar þær nefndir, sem frv. gerir ráð fyrir, yfirnefnd með 3 mönnum og nefndir í hverju héraði. Er því sýnilega svo til ætlazt, að um algerlega nýtt fasteignamat sé að ræða, og er það því orðaleikur einn, að hér sé um endurskoðun að ræða. Hér er því um það að ræða að stofna til nýs mats. — Hins vegar, með tilliti til þess, að allar mínar brtt., sem ég flutti við 2. umr., hafa verið felldar, vildi ég nú freista að bera fram nokkrar nýjar brtt., en þær eru prentaðar á þskj. 410, tölul. 1–2.

Fyrri brtt. á þskj. 410 er um það, að yfirmatsnefndin við endurskoðun fasteignamatsins verði kosin hlutfallskosningu af sameinuðu Alþingi, en í frv. er gert ráð fyrir, að n. sé skipuð af ráðherra. Hér er um svo valdamikla nefnd að ræða, sem kemur til með að ráða yfir matsmálum hér á Íslandi, að tryggt ætti að vera. að í henni ættu menn úr fleiri en einum stjórnmálaflokki. Úr því að menn eru þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að hafa þessa n., er sjálfsagt, að Alþingi kjósi hana.

Síðari brtt. mín á þskj. 410 er við 13. gr. frv. Hún er þess efnis, að aftan við gr. bætist: Hið hækkaða fasteignamat gengur þó eigi í gildi fyrr en tryggt hefur verið með löggjöf, að eigendur fasteigna geti fengið veðlán með hæfilegum kjörum út á eignirnar, er nemi að minnsta kosti 3/5 hins nýja matsverðs. — Það er gefinn hlutur að er hækkun verður gerð á matinu, þá koma svo mikil gjöld á hendur eigenda fasteigna, að þeim verður það brýn þörf að fá veðlán, og ef matið er 10–15–faldað, þá verður þetta svo mikið, að veðlánin mega ekki vera minni en þetta. Það má ekki minna vera en hlutaðeigendur megi eiga von á þessum lánum, því að nú er verðbréfasala gersamlega eyðilögð síðan eignakönnunin fór fram.

Í þriðja lagi vil ég nokkuð minnast á þær brtt. frá hv. þm. Skagf. o. fl., sem prentaðar eru á þskj. 355. Ég talaði nokkuð um þessar brtt. við 2. umr., en taldi mig þá ekki geta greitt till. atkv., þótt sumt það, sem í till. felst, sé réttmætt, t. d. að því séu takmörk sett, hversu mikið megi hækka eignirnar. Ég tel óeðlilegt, að í fasteignamati séu vegir og rafmagnslagnir. Slíkt hefur ekki áður verið í mati. Það er nægilegt, að þær jarðir, sem ekki hafa fengið vegi, verða ekki hækkaðar eins mikið og annars. Þetta vil ég því fella niður. Í síðari hluta till. er gert ráð fyrir, að hækkunin megi ekki vera meiri en svo, að heildarmatsverð fasteignar fjórfaldist, þ. e. a. s. húsverð og landverð, en ákveðið hlutfall er sett á. Ég sé, að búið er að bæta við, að áætlað hámark sé þrefalt. Jörð að matsverði 20 þús. kr. yrði í hámarki 80 þús. og 10 þús. kr. umbætur í 30 þús. kr., eða samtals 90 þús. kr. Þetta er því ekki aðalatriði, ef hækka á matið.

Því hefur verið haldið fram, að megintilgangurinn með þessu frv. væri sá að bjarga bæjar- og sveitarfélögum með því að láta þau hafa fasteignaskattinn. Þetta er hinn mesti misskilningur, að það bjargi nokkuð bæjar- og sveitarfélögunum, þótt 700 þús. kr. sé varið til þeirra. Það er hin herfilegasta blekking.

Enn fremur er athugandi í þessu sambandi, að ef mat á fasteignum er hækkað, við skulum segja, að það yrði tífaldað, þá tífaldast öll gjöld af fasteignunum, bæði fasteignaskattur, eignarskattur, vatnsskattur o. fl. En þetta verður ekki tekjuauki fyrir bæjar- og sveitarfélögin, þar sem allir þessir skattar eru frádráttarbærir við álagningu útsvara. Hér er því um nýja hlið á málinu að ræða, og þó að ég sjái ekki annað fært fyrir mig en beygja mig undir meiri hlutann, þá vil ég þó reyna að setja þar nokkra bremsu á.

Að athuguðu máli vil ég ekki fylgja þessu frv., enda held ég, að fáir telji það til bóta.