13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Margt af því, sem ég hafði hugsað mér að segja, hafa þeir hv. þm. A-Húnv. og hv. þm. Siglf. komið inn á í ræðum sínum. Málið hefur að vissu leyti tekið nýja stefnu með dagskrártill. þeirri, sem hv. þm. Siglf. hefur lagt fram. Mér þykir þó rétt að segja nokkur orð, þar sem ekki er séð, hvaða afgreiðslu dagskrártill. fær. Auk þess hef ég í hyggju að flytja brtt. við till. á þskj. 355, og mun ég víkja að henni seinna.

Á þessu þingi hafa, að því er ég hygg, komið fram frv. frá þm. úr öllum stjórnmálaflokkum, sem sæti eiga á þingi, þar sem áherzla er lögð á það, hvernig lækka eigi skattana. Það sýnir, að skattarnir eru orðnir óhóflega háir. Hvaða afgreiðslu þessi frv. fá, skal ég engu um spá, en ég geri ráð fyrir því, að það verði erfitt að samþ. þau. Þau sýna hins vegar, að þm. í öllum flokkum er orðið það ljóst, hve nauðsynlegt það er að létta skattabyrðina. Eitt frv. hefur þó verið lagt fram, sem stefnir í öfuga átt, og það er það frv., sem hér er til umr., um endurskoðun fasteignamatsins frá 1942, og þar er gert ráð fyrir því, að þessi endurskoðun verði framkvæmd á næsta ári. Fljótt á litið virðist þetta frv. vera tiltölulega meinlaust. Það er að vísu ljóst, að það hefur í för með sér hækkun á eignarskattinum. Sá skattur er þó aðeins brot af þeim gjöldum, sem hvíla á fasteignum, en þau eru mörg, eins og hv. þm. A-Húnv. hefur bent á.

Í grg. frv. er talað um það, að í sumum byggðarlögum séu fasteignir í 12- til 15-földu verði eða meir, miðað við fasteignamat, og hefur verið talað um, að ekki væri óeðlilegt að 12-falda fasteignamatið. Ég skal ekki fara nánar út í það, en vil aðeins benda á, að í Reykjavík mundi það hafa í för með sér jafnmikla aukningu á eignaútsvörum og öll útsvörin eru nú.

Hv. þm. Hafnf. benti á það, að frv. fæli ekki í sér neina aðstoð við bæjarfélögin, þar sem þau hafa leyfi til að leggja á útsvör eftir efnahag. Það er líka kunnugt, að í Reykjavík er fasteignamatið 3-faldað við álagningu eignaútsvars. Til þess þarf því ekki neina nýja löggjöf frá Alþ.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég álít ekki, að fasteignamatið eigi að vera óbreytt. Ég tel eðlilegt, að það breytist í samræmi við verðlagið, en ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel ekki rétt, að það sé miðað við gangverð, er breytist frá ári til árs.

Ég er aðili að nokkrum brtt. við frv. með tveimur öðrum hv. þm. Þar er lögð áherzla á það, að hækkun matsins verði sett ákveðin takmörk, í stað þess að n. verði gefið vald til að ákveða, hve miklu hún skuli nema. Ég tel, að komið hafi í ljós í umr., að fráleitt sé að framkvæma þessa endurskoðun án þess að setja slík takmörk.

Hv. þm. Siglf. benti á það, og það liggur í augum uppi, að þótt fasteignir hafi hækkað í verði og segja megi, að þær séu 10.-falt verðmeiri í dag en þær voru fyrir áratug. þá er það ekki neinn mælikvarði á greiðslugetu manna. Það er margt annað, sem kemur til greina, og ég hygg, að öllum hv. þm. sé það ljóst, að útilokað væri að samþ. ákvæði um að 10-falda matið og þar með skattana. Það mundi leiða til þess, að fjöldi manna mundi þurfa að selja eignir sínar. Í þessu efni gildir hið sama um kaupstaði og sveitir. Ég geri ráð fyrir því, að flestum bændum mundi t. d. þykja það hart, ef sýsluvegasjóðsgjald og heimtaugargjald yrðu 3-falt, 7-falt eða jafnvel 8-falt hærri en þau eru nú. Í frv. hæstv. fjmrh. virðist gert ráð fyrir því, að þessi hækkun verði á öllum gjöldum.

Þá hefur líka verið bent á, að hætt sé við því. að hækkun lögveða í fasteignum muni hafa vandræði í för með sér, þar sem erfitt yrði að fá lán út á eignir, sem hlaðnar væru lögveðum. Er þetta atriði, sem nánar þyrfti að athuga.

Sannleikurinn er sá, að útkoman úr þessu virðist verða dálítið einkennileg fyrir bæjarfélögin og ríkið. Fyrir bæjarfélögin yrði þetta ekki tekjuauki, en segja mætti, að það yrði það fyrir ríkið. En þess ber að gæta, að þetta mundi hafa aukinn kostnað í för með sér. Meira yrði að draga frá fyrir skattskyldum tekjum og hækkuðum fyrningarfrádrætti. Formælendur málsins kynnu að segja. að þær ráðstafanir gerðu, að óhætt væri að framkvæma þetta, en því fer fjarri. Eftir á leiðir þessi hækkun gjaldanna til erfiðleika með að standa í skilum. Mín skoðun er sú, að gjaldahækkunum verði að setja ströng takmörk og að mæla beri svo fyrir, að gjöldin hækki ekki að krónutölu, nema svo verði ákveðið með breytingum á þar til heyrandi reglugerðum og gjaldskrám, því að sannleikurinn er sá, að ekki hafa komið fram óskir um, að þessi gjöld yrðu hækkuð. Enginn óskar t. d., að vatnsskatturinn yrði hækkaður úr 2 kr. í 20 kr., og sama er um fleiri gjöld, t. d. sýsluvegasjóðsgjald. Það liggur fyrir frv. um hækkun á því, en hún nemur aðeins broti af þeirri hækkun, sem margföldun fasteignamatsins mundi hafa í för með sér.

Ég hef þess vegna lagt til, að fari svo, að þessi hækkun fasteignamatsins verði ákveðin, þá skuli opinber gjöld, sem miðuð eru við ákveðna hundraðstölu af fasteignamati, reiknuð af sama fasteignamati og verið hefur. Þetta er þriðja brtt. á þskj. 355. Ég skal taka það fram strax, að það er önnur brtt. við þá brtt. Er verið að prenta upp það þskj., því að orði var þar ofaukið. En mér sýnist, að orðalag till. á þskj. 355 sé ekki nógu skýrt. Ætlun okkar var, að till. ætti aðeins við fasteignaskatt til ríkisins. Þess vegna höfum við fjórir viljað bera fram brtt. við hana á þá lund, að á eftir orðunum „önnur en fasteignaskatt“ komi: samkv. lögum nr. 66 1921. — Þau lög fjalla um fasteignaskatt til ríkisins, en til bæjarfélaga er fasteignaskattur miklu hærri, og er ekki ástæða til að ákveða, að hann skuli hækkaður.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, þó að ef til vill væri full ástæða til þess. Mér virðist það mestu skipta, að viðhorf margra hv. alþm. er, að með samþykkt frv. sé greiðslugetu margra manna misboðið, þar sem það hafi í för með sér stórhækkuð útgjöld fyrir fjölda manna. sem ekki hafa greiðslugetu, þó að þeir hafi eignazt íbúð eða jarðnæði, sem þeir hafa litlar tekjur af.

Ég orðlengi svo ekki frekar um þetta, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt., sem ég vona að verði samþ., ef málinu verður ekki vísað frá samkv. þeirri rökst. dagskrá, sem borin hefur verið fram.