14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég ræddi hér í gær tvær brtt., sem ég hafði lagt fram. og málið í heild. Hv. frsm. er nú farinn að draga inn, því að hann vill nú ekki kannast við það, sem hann sagði við 1. umr., að sanngjarnt væri að 10-falda matið. Þetta sama kemur og fram í ræðu hæstv. fjmrh., en þetta fer að verða dálítið skrýtið, ef allir þeir, sem flytja þetta frv., ganga úr skaftinu og geta ekki kannazt við sín fyrri orð. Það fer að verða dálítið skrýtið, ef frv. þetta verður samþ., sem ég er ekki með. Skattarnir, sem fylgja, eru margir, og verður um stórar fjárhæðir að ræða. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í gær, að það, að tilgangurinn sé sá að bjarga sveitar- og bæjarfélögum, er blekking, því að sveitar- og bæjarfélögin mega leggja á útsvör eins og þeim þóknast. Að þessu leyti er hér ekki um gagnráðstöfun að ræða, ef það á að ganga svo, að það eigi að ákveða í l., að allir aðrir skattar, sem ákveðnir eru í hlutfalli við fasteignamatið, eigi að vera samkv. því, sem matið er nú.

Varðandi það, að það sé óvenjulegt, að sá háttur verði á hafður, að Sþ. kjósi þessa n., er yfirumsjón á að hafa með matinu og ráða því, vil ég segja það, að ég vil ekki fallast á, að það verði á valdi pólitísks ráðh., hvaða menn nefnd þessa eiga að skipa, og á hans valdi, hvaða reglur verði settar um mat þetta. Ég skora því á hv. þm.samþ. mína till., og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hana. Viðvíkjandi hinni greininni, þá er hún þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Við 13. gr. Aftan við greinina bætist: Hið hækkaða fasteignamat gengur þó eigi í gildi fyrr en tryggt hefur verið með löggjöf. að eigendur fasteigna geti fengið veðlán með hæfilegum kjörum út á eignirnar, er nemi a. m. k. 3/5 hins nýja matsverðs“. Eins og nú standa sakir er áreiðanlegt, að ef þessari nýju skipun yrði komið á, yrði ýmislegt annað hækkað af þessum sköttum en fasteignagjöld, enda þótt ég játi, að þeim ákvæðum væri hægt að breyta á næsta þingi.

Hv. frsm. talaði mikið um siðleysi, sem ríkti í þessum málum nú. Ég veit ekki, hvort ég hef skilið þetta rétt hjá honum, en helzt skildist mér, að það væri mikið siðleysi, að ekki væri hægt að hækka skattinn á þessum eignum alveg ótakmarkað. Það er kunnugt, að hv. þm. V-Húnv. hefur manna mest barizt fyrir því að hækka skatt á öllum hlutum. — Það má því helzt líta þannig á, að þetta siðleysi felist í því, að ekki sé hægt að leggja á fasteignir nógu háa skatta. Þótt hann vilji fylgja till. hv. 2. þm. Skagf., þá tryði ég honum til þess að flytja till. á næsta þingi um að afnema þau ákvæði. Annars held ég, að eftir þeim umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, þá færi bezt á því að samþ. dagskrártill. hv. þm. Siglf.