11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hef áður látið í ljós álit mitt um sumt af brtt., en ekki fullkomlega um þær allar. Ég vil mæla með því, a8 brtt. frá hv. 2. þm. Skagf. á þskj. 355 verði samþ., að undanskildum síðasta málsl. 1. till.

En hinar till. sýnast mér geta verið til bóta, og þar af leiðandi koma svo þær viðaukatill., sem sumir þm. hafa gert við þessa sömu liði. En till. á þskj. 410 og 424, frá hv. þm. A-Húnv., sýnast mér vera til hins lakara, og vildi ég mælast til þess, að þær yrðu felldar.

Annars kvaddi ég mér aðallega hljóðs til þess að minnast á dagskrártill. þær tvær, sem hér liggja fyrir um að vísa málinu frá. Ég vildi eindregið mæla á móti því, að þessar dagskrártill. væru samþ. Er sama, hvor þeirra er, þar sem báðar eru um það að vísa málinu frá, nokkurn veginn með sömu aðalrökum, en aðalrökin eru þau, að með því að frv. þetta hafi í för með sér allverulega hækkun á opinberum gjöldum, sé ekki rétt að samþ. það. Þessi rök fá ekki staðizt, og er mjög auðvelt að sýna fram á það. Í frv. er ekki gert náð fyrir, að fasteignaskatturinn renni til ríkissjóðs, heldur er gert ráð fyrir, að hann renni til bæjar- og sveitarfélaga. Þess vegna mundi það verða þannig, ef fasteignaskatturinn hækkaði fyrir það, að nýtt fasteignamat færi fram, eða ef t. d. bæjar- og sveitarfélögum væri heimilað að hækka hann, — þá mundi það ekki verða til þess að hækka opinber gjöld, heldur til þess að lækka heildarupphæð útsvaranna og þar með útsvörin sjálf. Það væri m. ö. o. aðeins um tilfærslu að ræða hjá bæjar- og sveitarfélögum, og þess vegna fær þessi aðalrökstuðningur fyrir dagskrártill. alls ekki staðizt. Það liggur ekkert fyrir um það, að tekin yrði nokkuð hærri fjárhæð af landsmönnum í heild, þó að fasteignaskatturinn hækkaði, en áður, heldur mundi heildarupphæð útsvaranna og þar af leiðandi útsvörin sjálf vitanlega lækka sem því næmi.

Ég skal svo ekki fara út í að rökræða þetta öllu meira, þetta liggur svo í augum uppi. Þeir, sem eru á móti því að framkvæma nú nýtt mat, — en gamla matið er, eins og allir vita, ekki nothæft lengur, bæði gamalt og úrelt, — þeir geta ekki haft á móti því nema bara vegna þess, að þeir eru á móti því að hækka fasteignaskattinn og vilja heldur, að bæjar- og sveitarfélög taki svo að segja allar sínar tekjur með útsvörum. — Ég skal sem sagt ekki rifja hér upp aftur allar þær umr., sem um þetta mál hafa farið fram, en vildi aðeins með þessum rökum mæla á móti þessari dagskrártill., sem fram hefur komið, og rifja upp aftur, hver afstaða mín er til brtt., sem fram hafa komið.