11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það má segja, að aðalatriði þessa máls séu eiginlega tvö. Annars vegar er það að Láta framkvæma nýtt fasteignamat og færa fasteignamatsverðið meira til samræmis við núverandi verðlag en áður hefur verið gert. Í öðru lagi er hitt aðalatriði frv., að færa fasteignaskattinn, sem byggður er á þessu mati, yfir á bæjarfélögin og reyna að færa þeim þannig á einhvern hátt úrbætur, vegna þess að tekjustofnar þeirra hrökkva hvergi nærri til þess að standa undir gjöldum bæjarfélaganna.

Ég tel eðlilegt og sanngjarnt, að athugun fari fram á fasteignamatinu og það verði fært meira til núgildandi verðlags, því að eins og nú er, þá njóta eigendur fasteigna alveg sérstakra vildarkjara, ekki bara við álagningu fasteignaskattsins, heldur líka við álagningu tekju- og eignarskattsins, þar sem fasteignir eru metnar með verði, sem er langt fyrir neðan sannvirði, miðað við verðlag almennt. Allir þeir, sem hafa átt fasteignir, hafa því farið langtum betur út úr þeim verðbreytingum, sem orðið hafa á öllum sviðum í landinu. Þeir, sem áttu fasteignir og skulduðu í þeim peninga, hafa stórhagnazt á þeim verðbreytingum, sem orðið hafa í landinu. Þeir hafa hagnazt meira en nokkur önnur sérstök stétt manna. Þess vegna er það réttlátt, að fasteignamatið verði fært til réttlátara verðs en það er í dag, og þessum hluta frv. er ég fyrir mitt leyti fyllilega samþykkur.

En svo kemur hitt atriðið, á hvern hátt þetta frv. leysir úr vanda bæjar- og sveitarfélaganna, og þar er öðru máli að gegna. Fasteignaskatturinn er nú í fjárlögum fyrir þetta ár áætlaður um 700 þús. kr. Það, sem jafnað er niður á alla bæjar- og sveitarsjóði í landinu, eru þessar 700 þús. kr., sem er upphæð, sem má segja að sé einskis virði eins og gildi peninga er nú háttað, og þar með er fasteignaskatturinn einskis virði til þess að bæta úr tekjuskorti bæjar- og sveitarfélaganna, nema hann verði hækkaður og tilsvarandi hækkuð gjöld á þegnum bæjar- og sveitarfélaganna.

Ég hef við annað tækifæri, og sérstaklega í umræðunum um söluskattinn, lýst yfir, að ég tel, að bæjar- og sveitarfélög landsins séu komin á það stig fyrir atbeina ríkisvaldsins, að rekstur þeirra sé um það bil að stöðvast; þau geta ekki innheimt gjöldin af þegnum sínum til þess að reka þau á þann hátt, sem verið hefur undanfarið og ætlazt er til. Söluskatturinn, sem nú er tekinn af landsfólkinu, er eins hár og öll útsvör landsmanna til samans. Þetta gefur auga leið, hvað verður, ef þessu er haldið áfram, fyrst að ganga þannig eftir sköttunum og svo að loka fyrirtækjunum, ef þau geta ekki greitt þessa skatta upp á stundinni. Þetta hefur orðið til þess, að bæjarfélögin hafa orðið að víkja með sínar innheimtur fyrir ríkissjóði, sem hefur gengið svo hart að með sínar innheimtur, að bæjarfélögin eiga nú útistandandi skuldir svo að milljónum króna nemur, sem eru ógoldin útsvör, og geta svo ekki sjálf staðið í skilum með sínar greiðslur.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það gerði hvorki til né frá með þennan skatt, — að ekki þyrfti að vera um hækkun eða lækkun að ræða á honum, hér væri bara um tilfærslu að ræða. Þetta er ekki rétt. Skyldi ekki eignarskattur til ríkissjóðs hækka, ef fasteignamatið verður fimmfaldað? Skyldi þetta þá bara vera tilfærsla? Nei, ég held ekki. Þetta er raunveruleg hækkun á gjöldum í ríkissjóð.

Þó að allt réttlæti mæli með því, að skattar á fasteignum verði hækkaðir frá því, sem þeir eru nú, þá kemur þetta þannig út, að það hvorki hjálpar þegnum bæjarfélaganna til þess að standa straum sinna útsvara né bæjunum til þess að innkalla skuldir sínar, en verður hins vegar til þess að auka tekjur ríkissjóðs og gera bæjarfélögunum enn ómögulegra en áður að ná sínum tekjum inn. Því verður ekki á móti mælt, að þetta verkar á þennan hátt, þótt það væri ekki þetta, sem hæstv. ráðh. vildi láta í veðri vaka.

Ég held því, að þetta frv. sem ákveðið úrræði fyrir bæjar- og sveitarfélögin verði að athuga og undirbúa betur. Ég tel því rétt að samþ. rökstudda dagskrá, til þess að málið verði betur undirbúið. Ég hef trú á því, að hv. 5. þm. Reykv. hafi örugga vissu fyrir því, að till. hans um endurskoðun á skattal. verði samþ., en það sé ekki eins og hv. þm. Siglf. vill vera láta, að hann flytji sína rökst. dagskrártill. út í bláinn. Það hafa mörg önnur mál verið afgreidd hér með hliðsjón til annarra mála, og í þessu máli sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu, og mun ég því greiða atkv. með dagskrártill. hv. 5. þm. Reykv. Ég tel það ekki neitt aðalatriði, hvort málið fær afgreiðslu á þessu þingi eða síðar, heldur að þegar það verður samþ., þá greiði það eitthvað úr fyrir bæjar- og sveitarfélögunum, en eins og það nú er flutt, bætir það ekkert úr tekjuþörf þeirra. Það mál er jafnóleyst, þótt þetta mál verði samþykkt. Ég er kominn á þá skoðun, að þetta vandamál bæjar- og sveitarfélaganna um tekjuöflun þeirra verði ekki leyst með því að leggja nýjar álögur á bæjarbúana og sveitarfélögin, heldur fengist lausnin með því að losa bæjarbúana við eitthvað af þeim gjöldum, sem þeir hafa, og ríkið taki á sig eitthvað af því, sem þeir bera. Það hefur sýnt sig, að ríkissjóður hefur ekki þurft á að halda öllum þeim tekjum, sem hann hefur innheimt af bæjar- og sveitarfélögunum og þegnum landsins, og eru það a. m. k. milli 50 og 60 millj. kr. (Fjmrh.: Mér sýnist hv. þm. hafa lyst á að ráðstafa þeim.) Það er svo allt annað mál, þó að ríkissjóður endurgreiði eitthvað af þessu til þeirra á einhvern hátt, en þær greiðslur fara ekki allar á þá staði, þar sem þörfin er mest, og sýnist mér þá, að hæstv. ríkisstj., sem lætur innheimta þessar álögur, hefði getað sparað sér mikið ómak og létt mikið erfiðar byrðar bæjar- og sveitarfélaganna með því að sleppa innheimtu þessara skatta.

Ég er með því, að skattamatið verði lagfært og samræmt. En ég vil um leið gera þá kröfu, að bæjar- og sveitarfélögin njóti þess tekjuauka, sem þannig kemur inn, en þetta komi ekki fram sem hækkaður eignarskattur, sem ríkissjóður hefur e. t. v. ekkert að gera við, nema þá til þess að úthluta á næsta þingi. En ég sé hins vegar ekki, að þetta mál sé það vel undirbúið, að það sé skynsamlegt að ganga frá því á þessu þingi, núna í þinglokin. En ég tel rétt, að úrslit þess fengjust í milliþn., sem gerði till. um öll skattamál ríkisins og bæjar- og sveitarfélaganna og hvernig þessum tekjum verði skipt milli þessara aðila.

Ég mun því samkvæmt framansögðu greiða atkv. með dagskrártill. hv. 5. þm. Reykv.