11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er nú ekki af neinni feimni við að fylgja till. hv. þm. Siglf., svo sem hann áleit, að ég flyt mína brtt. við till. hans, heldur af því, að till. hans er að verulegu leyti á misskilningi byggð og það, sem hann sagði um brtt. mína, svo sem fram kom í ræðu hans, en samkvæmt málflutningi hans hefðum við getað verið sammála um aðalatriði þessa máls. Hv. þm. Siglf. rökstuddi sína dagskrártill. með því að segja, að þetta frv. leysti ekki vandræði bæjar- og sveitarfélaganna og þess vegna ætti að vísa því frá. Mér hefur aldrei komið til hugar, að þetta frv. væri flutt í þeim tilgangi að leysa fjárhagsörðugleika bæjar- og sveitarfélaganna, en til þess vísar hv. þm. í þeirri rökst. dagskrártill., sem hann flytur. En með hliðsjón af því, að fyrir Alþ. liggur nú önnur till. til þál., þar sem gert er ráð fyrir því, að endurskoðun fari fram á skattakerfinu í landinu, þar sem öll meginatriði þess komi til athugunar, þá þykir mér rétt að rökstyðja dagskrártill. með tilvísun til þeirrar þáltill., eins og gert er á þskj. 566. Það, að ég flyt rökstudda dagskrá með tilvísun til þessarar þáltill., þýðir ekki það, að ég hafi vissu fyrir því, að sú till. verði samþ. Vitanlega veit ég ekki um það, þótt ég viti um afstöðu míns flokks til hennar og hafi heyrt hér það, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt í þessu máli. Ef þetta reyndist svo rangt hjá mér, að hún eigi fylgi að fagna hér, þá er minn rökstuðningur ekki réttur. Það er af þessum ástæðum, að ég flyt mína brtt. við till. þm. Siglf., þótt báðar till. leiði til hins sama, — að málinu verði vísað frá.

Ég er alveg sammála hv. þm. Siglf. um, að endurskoðun fasteignamatsins hafi enga þýðingu, nema fundinn sé fastur gjaldstigi. Heildarendurskoðun skattakerfisins er réttlætanlegt mál, þegar tekinn er til athugunar eða ákvarðaður gjaldstigi fyrir bæjar- og sveitarfélög.

Það hefur verið leiðrétt, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. um rangan rökstuðning í till. okkar um þetta mál varðandi hækkanir á opinberum gjöldum. Þetta hefur verið leiðrétt með tilvísun til eignarskattsins og á margan annan hátt. Ég held, að að formi til sé ekki rétt að hafa fasteignaskatt í l. um fasteignamatið. Í l. um fasteignaskatt frá 1945, 1. gr., segir svo:

„Í kaupstöðum og hreppsfélögum er heimilt að leggja árlega fasteignaskatt á húseignir og önnur mannvirki, lóðir og lendur, og skal hann vera eins og hér segir:

1. Af byggingarlóðum, byggðum og óbyggðum, allt að 2%.

2. Af húseignum og öðrum mannvirkjum alit að 1%.

3. Af túnum, görðum, reitum, erfðafestulöndum og öðrum lóðum og lendum allt að 0.5%.“

Ef um það er rætt að rétta bæjarfélögunum hjálparhönd með því að leggja gjöld á þessar fasteignir, hækka þær heimildina í l. frá 1945 til að leggja fasteignaskatt á lóðir og lendur. En m. a. af þessari ástæðu og öðrum legg ég til, að málið fari til frekari athugunar við endurskoðun skattakerfisins, „til betri undirbúnings,“ eins og hv. þm. Hafnf. orðaði það. — Ég sagði, að það mundi frekar nást samkomulag um þetta mál, ef hæstv. fjmrh. hefði fengizt til samkomulagsvið þá till., sem fram kom, enda er þessi dagskrártill. ekki borin fram fyrr en vitneskja er fengin um það. Þess vegna er meginefni þessa máls, eins og nú er komið með þetta frv. eins og svo mörg önnur, að það brestur á samkomulag. Ég held, að málið ætti að fá betri undirbúning, og þá skiptir minna máli, hvort það er afgreitt ári fyrr eða síðar, heldur, að það sé afgreitt á sómasamlegan hátt.