11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

107. mál, fasteignamat frá 1942 o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hafa verið fluttar á þessu þingi þó nokkrar till. í skattamálum, sem miðuðu að því að létta skattabyrðina, og þó sérstaklega hjá þeim, sem hún hvíldi þyngst á. Við 2. umr. um eitt frv. ríkisstj. flutti ég nokkrar till. um að gera mönnum kleift að breyta persónufrádrætti og um skattskyldu giftra kvenna. Allar till., sem fluttar voru af sósíalistum um að reyna að létta undir með mönnum, voru felldar. Nú liggur fyrir till., sem yrði óhjákvæmilega til þess að þyngja skattana. Það eru vitanlega rétt rök fyrir þessu frv.; fyrst og fremst þarf að breyta fasteignamatinu, til þess að eignarskatturinn komi réttilega niður á fasteignir. Í öðru lagi er nauðsynlegt að breyta fasteignamatinu vegna þess, að það er lagt til grundvallar verðlagi í bönkum og slíkum stofnunum. Hitt er jafnómótmælanlegt, að auðvitað verður sú breyt. til að þyngja fasteignaskatta. Ég skal nefna dæmi, sem yrðu til að þyngja skattana. Fasteignamatið í Reykjavík yrði þannig að fara nærri brunabótamati. Ég held, að brunabótamatið á húsum — lóðir ekki meðtaldar — sé um 1800 millj. kr. Samkv. l. frá 1945 hefur bæjarstjórn Reykjavíkur rétt til að innheimta 1% fasteignagjald. Ef bæjarstjórnin notaði sér þetta, fengi hún 18 millj. kr. Ef þetta er svo, er þetta vissulega há upphæð miðað við fasteignagjöld, sem eru innheimt án tillits til skulda. Það er innheimt jafnt af skuldugum og skuldlausum. Það er ekki rétt að gera ráð fyrir. ef þetta er samþ., að öðrum l. verði breytt eða að bæjarstj. notfæri sér ekki heimildina.

Ef engar aðrar náðstafanir eru gerðar, er viðbúið að þetta þýði, að leigjendunum yrði íþyngt og gjaldinu yrði velt á húsaleiguna. Stefna ríkisstj. er að reyna að hindra menn í því að byggja íbúðir með því að halda strangt í það lagabann, sem hindrar menn í því að byggja yfir sig. Það er erfitt að standa undir slíku, ef menn eru ekki fasteignaeigendur. Hvað snertir þá fasteignaeigendur, sem eru í tölu verkamanna og millistéttarinnar, þá geta þeir illa borgað af sínum eignum nú og eru óðum að missa þær fyrir aðgerðir ríkisstj. Við skulum segja, að þetta sé ekki stór upphæð, 1500–2000 kr., en það getur verið nóg til þess, að menn missi íbúðir sínar. Þess eru dæmi, að millistéttin hefur misst verkfæri og dýrmætar vélar vegna innheimtu söluskattsins, vegna þess að þeir hafa ekki getað fengið lán fyrir skuldunum. Eins er það með íbúðirnar, svipuðum skatti er velt á leigjendurna. Mörgum eigendum húsa eða íbúða yrði gert erfitt að halda í eignina og mundu jafnvel missa hana.

Þó er einn stórfelldur kostur við þessi lög, ef sú brtt., sem hv. þm. A-Húnv. flytur á þskj. 410, verður samþ., og er þar gert ráð fyrir, að hækkun fasteignamatsins gangi ekki í gildi. Þetta er rétt, og ég vildi fá tóm til að flytja brtt. eða ná samkomulagi við hv. fim. um, að þetta gilti einungis um eignir undir ákveðnu fasteignamati, t. d. 100–300 þús. kr., sem samsvarar venjulegum íbúðum í Reykjavík, — sem sagt, að menn ættu rétt á að fá veðlán út á slíkar eignir. Það þýðir, ef till. um 3/5 hluta í veðlánum verður samþ., að bjarga mörgum mönnum, sem hækkun fasteignaskattsins mundi eyðileggja fyrir. Svo framarlega sem þessi breyt. verður samþ., yrði það til bóta, ekki aðeins á þessum l., heldur hvað viðvíkur möguleikum ríkisins til lána. Ég vil þess vegna leyfa mér að biðja hæstv. forseta að slíta ekki svo umr. nú, að mér gefist ekki kostur á að bera fram brtt.

Ég skal geta þess, að ég skil þetta svo, að það vaki fyrir hæstv. fjmrh. í sambandi við það kapp, sem hann leggur á að fá þessi lög samþ., að þetta muni gefa verulegar tekjur í ríkissjóð. Það hefur komið fram við þessar umr., að breyting á fasteignamatinu mundi verða til þess að breyta eignarskattinum þannig, að hann yrði auðvitað hærri en hann er nú og lenti réttilega á mörgum eignum, og eru það aðalmeðmælin með þessari breyt., en hins vegar er ekki reiknað með neinum slíkum tekjum í fjárl. núna, og gerir því lítið til, hvernig farið er með þetta mál nú. Enn fremur er hættan sú, að þau bæjarfélög, sem ættu að fá tekjurnar, fengju þær ekki fyrstu árin. Ef það er tilætlunin, að þetta komi bæjarfélögunum til góða strax, ætti að breyta því þannig, að ríkissjóður greiddi kostnaðinn við fasteignamatið, en skattarnir rynnu til bæjarfélaganna. Ef þess vegna hægt er að ná samkomulagi við hæstv. fjmrh. um að afgr. þetta þannig, að eignarskattinum verði náð af stóreignum, en hins vegar þyrfti ekki að stofna mönnum í volæði með þessu, þá mundi tilganginum vera náð að einhverju leyti. Ég álít þess vegna, að það sé ekki heppilegt, hvað mikið kapp er lagt á að sveigja ekki í neinu til hvað þetta snertir. Ég vil biðja hæstv. forseta að slíta ekki svo umr., að mér gefist ekki kostur á að flytja brtt.