15.10.1951
Efri deild: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

45. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er prentað á þskj. 59, hef ég borið fram til þess að fá breytt l. nr. 13 frá 20. okt. 1905, um rithöfundarétt og prentrétt.

1. gr. frv. þessa er um það. að lagt er til að fella niður síðustu málsgr. 11. gr. l. Hún er nú þannig: „Hafi enginn að höfundi látnum eignarrétt að riti hans, þá er hverjum sem vill heimilt að gefa ritið út eða birta það á annan hátt, ef erfðaskrárákvæði eru því eigi til fyrirstöðu.“ — Í 2. gr. frv. er lagt til, að í staðinn fyrir þessi ákvæði l. komi: Eignarréttur að sömdu máli helzt alla ævi höfundar, þá maka hans, foreldra, barna og barnabarna. Að þessum aðilum látnum fellur eignarrétturinn til Háskóla Íslands. — Ef þessi ákvæði verða samþ., er nauðsynlegt að fella niður síðustu mgr. 11. gr. l. — Skal ég nú að nokkru gera grein fyrir, hvers vegna þetta frv. er borið fram.

Eins og l. eru nú, gæti skeð, að tekjur af verkum höfundar, sem látinn er, féllu til hvers þess útgefanda, sem viljað hefur gefa út verk höfundar, og það 50 árum eftir lát hans. þótt hann ætti erfingja á lífi. Það er mögulegt, að rithöfundur falli frá á unga aldri og skilji eftir sig verk, er gefi tekjur 50 árum eftir andlát, og eigi foreldra á lífi. Í þessu sambandi má geta þess, að Indriði Einarsson samdi eitt vinsælasta leikrit sitt, Nýársnóttina, er hann var aðeins tvítugur að aldri. Eins og nú háttar, er það fyrirbyggt, að börn höfundar geti náð rétti sínum. Einnig má það teljast mjög líklegt, að svo geti verið, að maki höfundar sé á lífi. Það gæti verið, að rithöfundur giftist þrítugur tvítugri stúlku. Hugsanlegt væri, að stúlkan gæti náð að lifa í 50 ár eftir lát manns síns og hafi þó ekki rétt til þess að njóta verka hans. Vel mætti og vera, að barnsbarn höfundar væri hjálparþurfi, og ekki er óeðlilegt, að það nyti verka afa síns. Það stendur óneitanlega nær, að barnsbarn njóti verka afa síns en einhver og einhver, sem kann að hafa gefið verk hans út. Ég tel og rétt, að er höfundarréttur fellur niður, þá verði rétturinn ekki útgefandans, heldur almennings. Í núverandi l. er rétturinn þeirra, sem gefa skáld- og ritverk út, og er því í frv. þessu lagt til, að eignarrétturinn falli til Háskóla Íslands.

Það þarf ekki að deila um rétt foreldra eða maka. Að réttur þeirra sé tryggður, orkar ekki tvímælis. Hins vegar má kannske deila um, hvort rétturinn skuli ná til barnabarna eða hvort stöðva skuli við börn höfundar. Um þetta mun að sjálfsögðu fjallað, er frv. fer til n. Ef þær breyt., sem felast í frv. þessu, ná fram að ganga. fær Háskóli Íslands útgáfurétt fornverka og annarra verka, sem ýmsir aðilar hafa gefið út og grætt á mikið fé. Ég hef talið rétt, að Háskóli Íslands fengi þennan rétt að þeim aðilum látnum, sem um getur í 2. gr. frv., m. a. tekjur af sýningu leikrita. Gert er ráð fyrir í frv., að tekjum þeim, sem Háskóli Íslands fær af eignarrétti þessum, verði varið til styrktar listum og vísindum í landinu, enda verði reglur þær, sem Háskóli Íslands setur varðandi þá starfsemi. staðfestar af rn. Oft og tíðum fá margir þessara manna styrk frá ríkinu til að lifa af, á meðan þeir geta ekki lifað af tekjum sínum. og fæ ég ekki séð, að þeim tekjum, sem með þessu móti fást, verði skár eða betur varið en að styrkja menn á lista- og vísindabraut.

2. mgr. 2. gr. frv. er tekin upp óbreytt, en efni hennar er samræmt við breyt. 1. mgr.

Þær breyt. frá gildandi l., sem felast í frv. þessu, eru ekki aðrar en ég hef nú lýst. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta nánar að svo komnu. Ég vil svo óska þess, að málinu verði vísað til hv. menntmn. að þessari umr. lokinni. og vænti ég þess, að hún sýni málinu velvilja. Ég er tilbúinn að ræða við hana um breyt. á frv., ef meginefni þess er haldið, eins og ég hef lagt til.