18.01.1952
Efri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

45. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. N. ræddi þetta mál og ákvað síðan að senda það til umsagnar Háskóla Íslands, sökum þess að gert er ráð fyrir því í frv., að eignarréttur á sömdu máli skuli undir vissum kringumstæðum falla til háskólans. — Einnig var samþ. að leita umsagnar Rithöfundafélags Íslands og Félags íslenzkra rithöfunda, og fékk n. svör frá öllum þessum aðilum. Bendir háskólinn á, að í nokkur undanfarin ár hafi lögfræðinganefndir frá Norðurlöndunum flestum unnið að endurskoðun á höfundal. þessara ríkja með samræmingu fyrir augum. Er viðurkennt, að íslenzku höfundal. þurfi breyt. við í ýmsum greinum, en þó talið ráðlegt að bíða endanlegra till. norrænu n., áður en hafizt verði handa um breyt. á höfundal. okkar.

Í svari rithöfundafélaganna segir, að stjórnir beggja félaganna séu á einn máli um það, að þær vilji ekki að svo stöddu mæla með því, að vikið verði frá hinni almennu reglu um rithöfundarétt á þann hátt, sem í frv. segir, enda telja stjórnir rithöfundafélaganna. að nær mundi liggja að athuga ýmis önnur atriði í þessu sambandi, ef breyta ætti ákvæðum l. um þetta efni.

Menntmn. er því þeirrar skoðunar, að rétt sé á þessu stigi málsins að afgr. það með svofelldri rökst. dagskrá:

„Þar eð sameiginleg endurskoðun er fyrir nokkru hafin á höfundalögum flestra Norðurlandanna með samræmingu fyrir augum, telur deildin ekki rétt að afgreiða breytingar á íslenzku höfundalögunum að svo stöddu, heldur bíða þess, að kunn verði niðurstaða norrænu lögfræðinganefndanna, er að hinni sameiginlegu endurskoðun starfa, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“