18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

45. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það út af þátttöku Íslands í þessu norræna löggjafarstarfi, að tveimur íslenzkum lögfræðingum hefur verið falið sérstaklega að fylgjast með því og taka þátt í almennum ráðagerðum um það, hvað eigi að endurskoða og hvernig störfum eigi að haga. En að þeirra áliti og annarra er þetta svo mikið starf, að taka þátt í sjálfri endurskoðuninni, og við, svo langt frá, eigum svo óhægt með daglegt samstarf við þessa menn, að við höfum ekki treyst okkur til þess og höfum ekki mannafla til að vinna að þessu með sama hætti og aðrar Norðurlandaþjóðir. Við eigum þess hins vegar kost að koma að okkar aths. og ábendingum, og það er ráð fyrir því gert, að við notum okkur það af starfi þessara manna, sem við teljum okkur henta, og ég held, að það sé ákaflega erfitt að koma okkar þátttöku við í þessu endurskoðunarstarfi með öðrum hætti en eitthvað svipað þessu. Það er því engan veginn hallað á okkur í þessu samstarfi, þvert á móti hefur staðið á okkar getu, án þess að í því felist nokkur lítilsvirðingartónn. Ef rithöfundar t. d. eða einhverjir aðrir létu uppi einhverjar óskir um það, að Íslendingar tækju frekari þátt í þessari endurskoðun, þá yrði það tekið til athugunar, en ég hef ekki orðið þess var.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel þessa hugmynd, sem kemur fram í þessu frv., athugunarverða og álít, að hún eigi engan veginn að falla fyrir borð án þess að grandskoða, hvort hér sé ekki vegna framtíðarinnar um mjög mikilsverða hugmynd að ræða. Hins vegar tel ég þó, að það þurfi nokkru betri athugunar og umræðna og umhugsunar við en enn hefur verið og þess vegna sé réttast fyrir málið að samþ. þessa rökst. dagskrá að þessu sinni. Það verður líka að játa það, sem stendur í álitsgerð Ármanns Snævars prófessors, að það er dálítið hæpið, að talið yrði, að þessi regla gæti staðizt samkvæmt þeim hæstaréttardómi, sem hér er vitnað í um Íslendingasögurnar, og ég er ekki alveg viss um, að þær reglur, sem hér um ræðir, yrðu taldar í samræmi við stjskr. Ég hef alltaf talið þann dóm ákaflega hæpinn og fannst hann ekki vera sannfærandi, en hann er eigi að síður dómur og að sjálfsögðu sú réttarregla, sem verður að skýra þessi málefni út frá að svo komnu. Því er ljóst, að málið er ekki eins einfalt og tillögumaður telur, og ég held, vegna þess að hugmyndin á í sér mikið frjómagn, að það sé gott fyrir alla aðila, að hún nái nokkrum þroska, áður en menn taka afstöðu til hennar, og með þeim forsendum vil ég greiða atkv. með rökst. dagskránni.