04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

102. mál, skipun læknishéraða

Frsm., (Helgi Jónasson):

Herra forseti: Síðan þetta frv. var til 1. umr. hafa borizt tvær brtt. við frv. Er önnur á þskj. 222, frá hv. þm. V-Ísf., um það að skipta Flateyrarhéraði í Önundarfirði í tvö læknishéruð, Flateyrarhérað og Súgandafjarðarhérað, sem ætti að heita Suðureyrarhérað. Og svo er brtt. frá hv. þm. Múlasýslna um það að skipta Egilsstaðahéraði í tvennt. — N. hefur rætt um báðar þessar brtt. við landlækni, og hefur hann mælt eindregið á móti því um bæði þessi læknishéruð, að ný læknishéruð verði sett þar á stofn. En ég vil taka fram, að brtt. á þskj. 231, sem er um Egilsstaðahérað, er tekin aftur til 3. umr. En um brtt. frá hv. þm. V-Ísf. er það að segja, að þetta hérað er nú ekki fjölmennt. Í Flateyrarhéraði eru nú um 1400 manns, og er það nú dágott hérað, og hafa aldrei verið vandræði með að fá þangað lækni. En með því að skipta þessu yrði í Suðureyrarhéraði um 400 manns, og er það of smátt hérað, og hitt yrði líka í tölu fámennari héraða, það, sem þá yrði eftir af Flateyrarhéraði. N. mælir því á móti því, að þessi breyt. verði gerð, og hefur rætt það við þingmann kjördæmisins. Og mér skilst, að hann sé ásáttur um, að þessu verði hagað eins og á undanförnum árum, að hjúkrunarkona sé á Suðureyri starfandi í sambandi við héraðslækni, og hefur hún haft lyf og þess háttar, og hefur sú starfsemi gefizt vel, ef ekki næst til læknis. Hefur hún haft styrk á fjárl., nokkur hundruð kr., og er það ósk n., að þessi upphæð verði hækkuð nokkuð til hjúkrunarkonunnar. Hv. þm. V-Ísf. sættir sig við þetta, ef Alþ. fellst á hækkun á launum hjúkrunarkonu þessarar á Suðureyri, og það hygg ég góða lausn á þessu máli í bili, eins og nú standa sakir. — N. telur rétt, að þessi brtt. á þskj. 222 verði felld. En n. er velviljuð því, að lítils háttar hækkun verði gerð á launum til þessarar hjúkrunarkonu á Suðureyri og mun ég sem fjvn.-maður mæla með því, að svo geti orðið. — Ég óska, að frv. gangi áfram til 3. umr.