10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

102. mál, skipun læknishéraða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Við frv. þetta, sem hér er til umr., flytjum við þrír austfirzkir þm. brtt. á þskj. 231. Sú brtt. er um það, að Egilsstaðalæknishéraðinu á Fljótsdalshéraði verði skipt í tvö læknishéruð. Ef þessi brtt. verður samþ., sem við vonum, þá ber þess að geta, að það þarf ekki að gera ráð fyrir því, að slík samþykkt valdi ríkissjóði auknum útgjöldum, þar sem nú þegar er gert ráð fyrir því, að tveir læknar séu ætíð í Egilsstaðahéraði, þótt með öðru formi sé en brtt. fer fram á. Eins ber þess að geta, að sú læknisbygging, sem er að Egilsstöðum, er ætluð til íbúðar fyrir tvo lækna.

Eins og ég gat um, flytjum við þrír austfirzkir þm. þessa brtt., þ. e. hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hv. 2. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, og ég. Samkvæmt þessari brtt. er gert ráð fyrir, að ef þessu læknishéraði verður skipt, verði í hvoru læknishéraði um 900 íbúar. Má það teljast sæmilegt læknishérað með tilliti til íbúatölu og líka þegar þess er gætt, að gert er ráð fyrir, að báðir læknarnir starfi að sjálfsögðu við sjúkrahúsið að Egilsstöðum.

Sú læknisskipun, sem nú er á Fljótsdalshéraði, hefur ekki staðið lengi, en samt nógu lengi til þess, að reynsla hefur fengizt fyrir því, að hún er óhafandi. Fram til ársloka 1944 var Fljótsdalshéraði skipt í tvö læknishéruð: Fljótsdalslæknishérað, með búsetu læknisins að Brekku í Fljótsdal og Hróarstungulæknishérað með búsetu læknis á Hjaltastað. Með l. nr. 8. frá 1944 voru þessi tvö læknishéruð sameinuð í eitt. Strax og sú breyt. kom til greina af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar, og ég hygg, að hún hafi að verulegu leyti ráðið um þá breytingu, sem gerð var á þessum l., þá voru margar raddir uppi heima á Fljótsdalshéraði um að mótmæla þessari sameiningu. Það voru margir á Fljótsdalshéraði, sem voru óánægðir með, að ekki var gert ráð fyrir, að tryggt væri með tveimur föstum læknisembættum, að tveir læknar yrðu á Fljótsdalshéraði eins og verið hefur, heldur aðeins einn fastur læknir ásamt aðstoðarlækni. Bentu margir á það, sem þegar hefur komið í ljós, að það yrði varhugavert að treysta því, að þarna yrðu alltaf tveir læknar til staðar, a. m. k. að vetrarlagi, því að þá stendur í raun og veru einn héraðslæknir uppi með öll störf héraðsins. Þetta töldu íbúar Fljótsdalshéraðs því varhugaverðara sem þeir voru öðrum kunnugri og vissu betur um þá erfiðleika, sem fyrir hendi eru um allar samgöngur héraðsins að vetrarlagi, þegar mikla snjóa leggur. Það er kunnugt, að í. ýmsum sveitum og hlutum Fljótsdalshéraðs er oft ófært að vetrarlagi. Ófært er þar öllum venjulegum farartækjum og jafnvel hestum. Það var einnig á það bent, að það að hafa eitt læknishérað á Fljótsdal væri alveg ótækt vegna þess, að Fljótsdalshérað væri svo víðlent, að t. d. eru frá yzta bænum við sjó og til innsta bæjar í héraðsdölunum um 200 km. Hins vegar taldi heilbrigðisstjórnin með landlækni í fararbroddi, að það mundi ekki koma fyrir, að þetta hérað þyrfti að annast einn læknir. Mundi vera séð fyrir því, að alltaf yrði til staðar aðstoðarlæknir með héraðslækninum.

Þessi lög frá 1944 hlutu svo samþykki á Alþingi og tóku gildi í ársbyrjun 1945. Héraðslæknirinn, sem hafði gegnt störfum á Fljótsdalshéraði og setið að Brekku í Fljótsdal, fluttist þá að Egilsstöðum. Var þá strax ráðizt í að reisa læknisbústað með tveimur íbúðum, eins og ég gat um áðan, og auk þess allmyndarlegt sjúkrahús. En það fór sem margur óttaðist, að aðstoðarlækni vildi vanta. Reynslan varð sem sagt sú, að sendir voru læknakandídatar, sem voru tíma og tíma og þá helzt yfir sumartímann, og það kom nokkrum sinnum fyrir, að læknirinn sat einn uppi með öll læknisstörfin að vetrarlagi. Var það enn fremur svo, að snjóar hömluðu því, að hægt væri að leita til nágrannalæknanna niðri í fjörðum, þó að með þyrfti. Undir þessum kringumstæðum þarf ekki að lýsa því, hvernig fer um sjúklingana, þegar læknirinn kemst ekki yfir að sinna venjulegum læknisstörfum.

Íbúar Fljótsdalshéraðs biðu í lengstu lög með að bera fram kvartanir yfir þessu ástandi. Gerðu þeir það í þeirri von, að það mundi rætast, sem landlæknir hafði haldið fram, að það mundi takast að hafa ávallt aðstoðarlækni með lækninum á Egilsstöðum. Átti þetta nokkurn þátt í því, að menn biðu og vildu sjá, hverju fram yndi í þessum efnum. Óneitanlega væri það nokkurs virði að sameina læknishéruðin með búsetu læknanna að Egilsstöðum. Með því væri hugsanlegt, að hægt væri að reka sjúkrahús að Egilsstöðum, sem væri við hæfi héraðsbúa. Það er erfið aðstaða, sem þeir hafa búið við, þegar þeir hafa þurft að koma sjúklingum Fljótsdalshéraðs undir læknishendur og á sjúkrahús, svo að þeir gætu fengið nauðsynlega læknishjálp. Einnig sáu þeir fram á, að ef þetta fyrirkomulag reyndist viðunandi, þá væri mikill vinningur í því að hafa athvarf í læknishúsi héraðsins fyrir þá sjúklinga, sem væru þannig settir, að ekki væri hægt að veita þeim nægilega hjúkrun og aðhlynningu í heimahúsum. En árið 1948 var svo komið, að íbúar Fljótsdalshéraðs voru búnir að missa alla trú á það, að þetta fyrirkomulag gæti lánazt. Þá sendu allir oddvitar í hinum 10 hreppum Fljótsdalshéraðs mjög eindregnar óskir til heilbrigðisstjórnarinnar um, að hún sæi um, að skipaðir yrðu tveir fastir læknar að Egilsstöðum. En þessi málaleitun bar engan árangur, og var hún ítrekuð árið 1950 og lögð mjög mikil áherzla á, að það yrði orðið við þeirri beiðni framvegis, að tveir læknar sætu að Egilsstöðum. Þessi ósk bar ekki tilætlaðan árangur. En ég vil nú leyfa mér að lesa hér upp fáein orð úr rökstuðningi oddvitanna og þeirra, sem beittu sér fyrir þessu máli, þegar brtt. var borin fram árið 1950. Þetta hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan hefur sýnt, að það er aðeins yfir hásumarið sem fást í embættið nýútskrifaðir kandídatar, réttindalausir og kunnáttulitlir, en venjulega engir læknar yfir veturinn, einmitt þegar nauðsynin er mest. Fólkið skelfist af þeirri áhættu og öryggisleysi, sem það býr við, sérstaklega að vetrinum, með einn lækni í svo víðáttumiklu héraði.“ Enn fremur segja oddvitarnir: „Þá sitjum við með sjúkrahúshald í starfrækslu, sem ekki notast nema að litlu leyti með þeim eina lækni, sem fyrir er. Er það tilfinnanlegt fyrir héraðið að geta ekki fullnotað slíka aðstöðu, sem það er búið að koma sér upp með ærnum kostnaði. Einnig situr héraðið með læknisbústað ónotaðan tímunum saman.“

Eins og ég gat um, bar þessi áskorun engan árangur, nema þá ef til vill þann, að síðan 1950 hefur starf aðstoðarlæknanna, þ. e. kandídatanna, verið úrtökuminna en það var oft áður, og ég held það sé rétt, að frá síðasta vori hafi sami maður gegnt þessu aðstoðarlæknisstarfi, og mun það vera sá langlengsti tími, sem starfið hefur verið rækt af einum og sama manni. En nú hef ég það fyrir satt, — mér hefur verið frá því skýrt heima á Héraði, að þessi lækniskandídat telji sig orðinn það þjálfaðan í starfinu, að hann hugsi til þess að fá sér sjálfstætt starf, og bíður nú að sögn aðeins eftir því einu, að nýbakaður kandídat komi til að leysa hann frá störfum. Það má gera náð fyrir, að sama sagan endurtaki sig og sá kandídat vilji ekki vera lengur í starfinu en hann telur sér nauðsynlegt til þess að fá æfingu og þjálfun, og svona mun sagan endurtaka sig koll af kolli, menn koma og fara, óreyndir menn, sem una ekki aðstöðunni nema þann tíma, sem þeim er nauðsynlegt að vera undir handleiðslu annarra lækna til þess að fá æfingu og þjálfun.

Staðreyndir í þessum læknamálum Fljótsdalshéraðs eru m. a. þær, að ég tel, í stuttu máli: Það er með öllu ófært og óverjandi að hafa aðeins einn fastan lækni í þessu stóra og erfiða héraði, enda sýnt, að þar er um mikla afturför að ræða frá því, sem áður var. Aðstoðarlæknisfyrirkomulagið hefur á allan hátt reynzt óviðunandi, enda ekki reynzt kleift tímunum saman að hafa nokkurn mann í starfinu og yfirleitt engan nema stuttan tíma, eða svo lengi sem hlutaðeigandi kandídat telur sér henta með tilliti til þess að þjálfast sem læknir. — Að viðunandi rekstur sjúkrahússins á Egilsstöðum geti komið til greina, á meðan þetta ástand ríkir, tel ég alveg útilokað. Og að hugsa sér að sitja uppi með einn héraðslækni til allra vitjana í þessu víðlenda og erfiða héraði og ætlast jafnframt til þess, að hann starfræki sjúkrahúsið á Egilsstöðum, er auðsjáanlega fráleitt. Með tilliti til þessara ástæðna og samkvæmt einróma kröfum allra íbúa Fljótsdalshéraðs höfum við fyrrnefndir flm. borið fram þá till., að héraðinu verði skipt í tvö læknishéruð með tveimur sjálfstæðum og fullgildum læknum. Við væntum þess, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að verða við þessum óskum okkar og allt fram undir 1800 íbúa læknishéraðsins, og við teljum ástæðu til þess að ætla, að verði þessi breyt. samþ., þá megi vænta þess, að þessu ófremdarástandi, sem hefur ríkt í læknamálum þessa héraðs nú um 6 ára skeið, verði aflétt.