10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

102. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Helgi Jónasson):

Það eru aðeins örfá orð. Heilbr.- og félmn. hefur haft þessa till. til athugunar og rætt um hana við landlækni og einnig brtt. hv. þm. V-Ísf., og mælti hann mjög eindregið á móti þessum till. — Ég hygg, að n. sé mjög skipt í málinu, og hafa nm. alveg óbundnar hendur um það, hvernig þeir greiða atkv. Ég býst kannske við, að sumir nm. séu með og aðrir hlutlausir, en mig langar til að segja örfá orð sem mína persónulegu skoðun. en vil taka fram, að ég mæli ekki fyrir hönd nefndarinnar.

Árið 1945 var sú breyt. gerð á læknaskipun í Fljótsdalshéraði, að hin tvö læknishéruð, sem þá voru þar, voru sameinuð í eitt læknishérað. Þá var Alþ. þeirrar skoðunar, að það væri hentugri ráðstöfun að hafa læknishéruðin stærri, þ. e. fjölmennari, og að það mundi koma að meiri notum að hafa héruðin í dreifbýlinu stór, vegna þess að frekar fengjust þá hæfir menn, en eins og kunnugt er, var þá erfitt að fá lækna í sveitir landsins og er enn að vissu leyti. En það má geta þess, að Alþ. hefur breytt um skoðun síðan í þessu efni, því að síðan 1945 hafa ýmis læknishéruð landsins verið bútuð niður í tvo og jafnvel fleiri parta. Nægir í því sambandi að minna á Eyrarbakkalæknishérað, sem nú er orðið 3 héruð, sem ég fyrir mitt leyti tel hið mesta óráð. Og nú liggur fyrir till. um að skipta Blönduóshéraði í tvö héruð, og mælir n. með því, þar sem hún taldi þær till., sem fram komu, þess eðlis, að ekki væri hægt að standa á móti því. En það má benda á það, að þegar héruð eru orðin mjög fámenn, verða þau ekki mjög eftirsótt af læknum. Og nú liggur fyrir till. um að skipta Egilsstaðahéraði í tvö héruð, sem þá yrðu smáhéruð, annað með rúmlega 900 manns og hitt með rúmlega 800 manns og allt dreifbýlið. Þetta verða frekar lítil héruð, en auk þess er nýtt að hafa tvo fasta, jafnréttháa lækna á sama stað, það hefur aldrei verið reynt hér fram að þessu. Ég fyrir mitt leyti er frekar hræddur um, að sú ráðstöfun yrði ekki að því liði, sem íbúar þeirra héraða gera sér vonir um, og kemur þar margt til greina. Eins og ég sagði, eru bæði héruðin smá, lítið að gera, og læknar vilja, eins og aðrir ungir menn, hafa nóg verkefni, en það gæti kannske orðið örðug samkeppni milli þessara tveggja lækna um fólkið. Auk þess held ég líka, að að því er snertir sjúkrahúsíð væri ekki góð ráðstöfun að hafa þar tvo jafnréttháa lækna með mjög takmarkað starfssvið; gæti ég trúað, að af því gætu hlotizt alls konar árekstrar.

Nú veit ég, að fólkið í þessu héraði heldur mjög fast við að fá þessa ósk sína uppfyllta, en þó held ég, að ekki sé eins mikið úr þessu gerandi og hv. 2. þm. N-M. vildi vera láta, því að ég held, að í seinni tíð hafi oftast nær að minnsta kosti verið aðstoðarlæknir til aðstoðar héraðslækninum á þessum stað. Fólkið kann illa við að fá alltaf nýja og nýja menn, en mér finnst það gera miklu minna til, þar sem alltaf er sami héraðslæknirinn og hann ber fulla ábyrgð á störfum undirmanna sinna. Það ætti því ekki að vera svo mjög slæmt, þó að þarna komi nýir, ungir menn, því að það veit ég af eigin reynslu. að þeir hafa flestir gefizt alveg prýðilega, og það er engin vorkunn fyrir neitt hérað að fá unga menn, því að ég hef reynslu af því að hafa þá í starfi og get því borið um það af eigin raun, þeir hafa reynzt þar vera prýðilega menntaðir menn og hafa orðið mikla reynslu í sínu starfi og miklu meiri en fyrir nokkrum áratugum. Ég held því, að það sé nú ekki svo mjög lítandi á það, en ég veit ekki vel, af hverju þessi reynsla hv. 2. þm. N-M. er svona slæm, en ég veit, að þetta er mjög mikið áhugamál fólksins, sem þarna býr. Eins og ég hef getið hér, hefur Alþ. nú á seinni árum farið mjög að vilja fólksins hvað það snertir að búa til ný læknishéruð, og hér er það eindregin krafa þessa svæðis að fá tvo sjálfstæða lækna. Ég fyrir mitt leyti mun ekki greiða atkvæði á móti því, að svo verði, þó að ég vilji ekki ljá því fylgi mitt, og mun ég því sitja hjá við atkvgr. Og ég óttast, að þótt Alþ. verði við þessum tilmælum, verði þess ekki langt að bíða, að viðkomandi menn komi aftur til Alþ. og vilji fá þessu breytt. Það er náttúrlega alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. N-M., að þegar þessum héruðum var steypt saman í eitt hérað 1944–45, var meira en helmingur héraðsbúa á móti því, og kann vel að vera, að það hafi alltaf setið í vissum hluta héraðsbúa og þeir viljað hafa tvö sjálfstæð héruð, og þeir hafi sigrað þar nú, sem 1944–45 vildu hafa á þessu aðra skipun. En ég tek það fram persónulega og þykist þekkja það nokkuð vel, að ég held það yrði ofraun tveimur jafnréttháum læknum að sitja í fámennum og litlum héraðshlutum á sama hlaðinu, og það gæti orðið nokkuð örðugt samkomulag þar á milli, sem héraðinu yrði ekki til bóta. Ég býst alveg við að fari um þetta eins og áður í hliðstæðum tilfellum, að orðið verði við vilja fólksins og Alþ. telji sér skylt að verða við þessum tilmælum og samþykkja þetta, ég skal ekki spilla fyrir því.