11.10.1951
Neðri deild: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

10. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið flutt á undanförnum þingum, og er hv. þm. kunnugt efni þess. En aldrei hefur það þó náð að komast úr n. á Alþingi. Mér og verkamönnum, — en frv. er flutt að tilhlutun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, finnst það þess virði, að n. fjalli um það og skili áliti. Það er tekið fram í grg. frv., að atvinna hefur farið minnkandi og atvinnuleysi vaxandi. Það er athugandi viðvíkjandi þessu máli, að áður fyrr var alltaf í fjárlögum upphæð til styrktar atvinnuleysingjum. Er það nú hætt, þegar á því þarf að halda.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þar, sem verkalýðsfélög eru starfandi á landinu, sé ákveðin upphæð lögð til hliðar til að mæta atvinnuleysinu á hverjum tíma og sjóðurinn falinn verkalýðsfélögunum. Þá eru sterkar líkur til, að ekkert af fjármununum lendi í eigu skrifstofumanna, og það er ekki lítils virði. Hugsið ykkur, hve heimilin væru miklu betur stödd, ef frv. hefði verið samþ., þegar það var hér fyrst á ferðinni, en nú er, þegar menn neyðast til að flytja sig til staða eins og t. d. Keflavíkurflugvallar, þar sem enga vinnu er að fá heima fyrir. Það er ekki að undra, þótt fólkið safnist á einn stað, þegar ekkert er gert til að halda fólkinu heima. Yrði það mikil trygging fyrir fólkið, ef þessi sjóður yrði stofnaður. Ég er sannfærður um, að ef þetta á að koma að fullum notum, verður að leyfa þeim mönnum, sem vinna verkin, að hafa einhver áhrif í þessum málum. Þau verða betur geymd í höndum þeirra manna en annarra.

Mér finnst ekki þörf á að útskýra þetta nánar, það eru sömu rök sem styðja þetta mál og fyrr. Vænti ég þess, að n. líti á málið og athugi. hvort það er ekki þess vert að taka það til athugunar. Ég er reiðubúinn að koma með breytingar, ef það kynni að þykja heppilegra. En aðalatriðið er, að sjóðurinn sé falinn mönnum sem trygginganna eiga að njóta, og vaxandi fjárhagslega öryggi haldi fólkinu á sínum stað. — Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.