22.01.1952
Neðri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2514)

10. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. samhljóða því, sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir þingið s. l. ár, og heilbr.- og félmn. þessarar deildar fékk þá málið til athugunar og enn fremur þetta frv., sem flutt var á þessu þingi. N. hefur leitað álits þriggja aðila um málið: Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Efni frv. er, að félögum verkamanna og kvenna sé heimilt að stofna atvinnuleysissjóði og setja þeim samþykktir og skuli hafa rétt á. að ráðh. staðfesti slíkar samþykktir. Tekjur þær, sem atvinnuleysissjóðirnir fá samkvæmt frv. þessu, eru í fyrsta lagi, að atvinnurekendur, sem hafa sjóðþega í vinnu, skulu greiða tillag til atvinnuleysissjóðsins, er nemi 4% af þeim launum, sem atvinnurekandi greiðir, og á tillag þetta að verá framlag af hans hálfu, aukreitis við launagreiðslurnar. Í öðru lagi á svo ríkissjóður að greiða árlega 150 kr. á hvern sjóðfélaga að viðbættri verðlagsuppbót og bæjar- og sveitarsjóðir að greiða árlega til sjóðsins sem nemur helmingi af framlagi ríkissjóðs. Í fjórða lagi hefur sjóðurinn svo tekjur af iðgjöldum, sem sjóðfélagar kunna að greiða, en þeim er það í sjálfsvald sett og þá einnig hve há.

Það kom í ljós af umsögnum þeirra aðila, er n. leitaði til, að skoðanir þeirra voru mjög skiptar um þetta. Umsögn Alþýðusambands Íslands var jákvæð, og hvatti það til, að frv. þetta nái afgreiðslu. Umsögn Vinnuveitendasambands Íslands var aftur á móti neikvæð. Tryggingaráð ræddi málið gaumgæfilega og varð ekki á eitt sátt um afstöðuna til þessa frv. Einn tryggingaráðsmaður leggur til, að það verði samþ. óbreytt, annar leggur til, að því verði vísað til ríkisstj., en 3 aðilar telja, að málið þurfi betri og ýtarlegri undirbúning. — Eftir að n. hafði kynnt sér álit þessara aðila og rætt málið, tókst ekki að ná samkomulagi í n. um afstöðu til málsins, og skilaði því n. áliti í þrennu lagi. Meiri hl. n. telur auðsætt, að meðal þeirra manna, sem mest hafa hugleitt málið í heild, er uppi skoðanamismunur, hvernig eigi að afgreiða málið. Liggur fyrir till. um að binda atvinnuleysistryggingarnar við ákveðna stofnun, annaðhvort Tryggingastofnun ríkisins eða sérstaka stofnun, sem nefnd hefur verið atvinnustofnun, og liggur fyrir frv. hér á þingi um slíka stofnun. Að öllu þessu athuguðu telur meiri hl. n. rétt að fresta að lögfesta þetta frv. og leggur til, að því verði vísað til ríkisstj.