22.01.1952
Neðri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2518)

10. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Mér virðist á því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að hann vilji líta þannig á, að n. hafi sýnt þessu máli nokkurt tómlæti. Vildi ég mega leiðrétta það. Ég tel, að n. hafi haft eðlilegan hátt á um athugun þessa máls. Það var eðlilegt að mínum dómi að senda það til umsagnar Alþýðusambands Íslands, sem er samband verkalýðsfélaga, sem vitað er að frv. tekur til. Það var líka eðlilegt að senda það til umsagnar Vinnuveitendasambands Íslands. Það er sá aðili, sem á að bera kostnaðinn að miklu leyti af framkvæmd málsins, ef að l. verður. Þá var enn fremur eðlilegt, að leitað væri álits Tryggingastofnunar ríkisins. Það er sú stofnun, sem starfar að nokkru leyti á þessu sviði, og þegar l. um Tryggingastofnun ríkisins voru sett, voru atvinnuleysistryggingar nokkuð á dagskrá, og var um eitt skeið fyrirhugað að tengja þær við þá stofnun. Enn fremur er til þess ætlazt, að stofnfé atvinnuleysissjóðanna séu fjármunir, sem eru nú þegar í vörzlu Tryggingastofnunar ríkisins. Umsögn Tryggingastofnunarinnar barst ekki n. í hendur fyrr en seint í nóvember, en 11.–14. des. er nál. útbýtt, svo að ég get ekki talið, að nokkur óeðlilegur dráttur hafi orðið á um afgreiðslu n. á þessu máli.

Það liggur fyrir af skjölum hér í þinginu, eins og ég drap á áðan, að skoðanir eru skiptar um það, hvaða tökum eigi að taka þetta mál. Á þskj. 14 er till. um að skipa n. til þess að semja frv. um atvinnuleysistryggingar, og nú hefur verið skilað nál. um þá till., m. a. nál., sem útbýtt var hér á fundi í dag, þar sem sú n., sem um þá till. hefur fjallað, fellst á það meginefni, sem þar kemur fram. Á þskj. 117 liggur fyrir frv. um Atvinnustofnun ríkisins, sem mælir svo fyrir, að komið skuli á fót sérstakri stofnun, sem hafi með höndum skráningu allra vinnufærra manna, atvinnuleysisskráningu, vinnumiðlun, leiðbeiningar um stöðuval, öryrkjavinnu, unglingavinnu, úthlutun atvinnubótafjár o. s. frv. Í því frv. er gert ráð fyrir að tengja starfsemi atvinnuleysistrygginga við sömu stofnun og þá, sem hefði með höndum vinnumiðlun, leiðbeiningar um stöðuval o. s. frv. Það, sem fyrst og fremst verður að stefna að á hverjum tíma, er, að atvinnuleysi eigi sér ekki stað og að sem minnst þurfi að grípa til atvinnuleysistrygginga.

Af því, sem ég hef nú tekið fram, má það ljóst vera, að skoðanir eru enn þá svo mikið á reiki um þetta mál, í hvaða formi það eigi að afgreiðast og hvernig framkvæmd þess sé bezt hagað, að ekki er óeðlilegt, að frestað verði um sinn að setja l. um þetta efni. — Þessar skýringar vil ég láta koma fram, en ætla svo ekki að halda uppi umr. um málið.