15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2555)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. drap á, hef ég flutt brtt. á þskj. 331 við það frv., sem hér um ræðir. Eins og kunnugt er, fjallar þetta frv. um að stofna prófessorsembætti við Háskóla Íslands í lífeðlis- og lífefnafræði. Ég legg til, að embættin verði tvö og annað verði það, sem frv. upphaflega fjallar um, en brtt. mín er í þá átt að stofna prófessorsembætti við þennan sama háskóla í röntgenfræðum. Það segir svo í brtt. á þskj. 331, að þetta embætti skuli stofnað 1. jan. 1952, en nú er komið fram yfir þann tíma, en brtt. er flutt snemma á þingi í haust, og gat ég ekki gert ráð fyrir, að afgreiðsla málsins drægist fram yfir nýár. En það er hægt að bæta úr því.

Um nauðsyn þessa embættis eða kennslu ætla ég að leyfa mér að gefa upplýsingar.

Fyrst og fremst hefur núverandi heilbrmrh. lagt til, með bréfi 25. jan. 1951, að þetta embætti í röntgenfræðum verði stofnað. Eins og kunnugt er, hefur hæstv. forsrh. á hendi embætti heilbrmrh., og hefur hann þegar fyrir ári mælt með, að þetta embætti verði stofnað, og enn fremur, að því embætti fylgi yfirlæknisstaða röntgendeildar landsspítalans, sama og um hliðstæð embætti við landsspítalann, og er þá átt við yfirlækni lyfjadeildar og yfirlækni handlækningadeildar, sem báðir eru prófessorar ásamt sínu embætti. Háskólarektor skýrir hæstv. rn. frá því með bréfi frá 7. maí, að háskólaráð hafi mælt með að stofna embætti í röntgenfræðum. Nú er það þannig, að kennsla í röntgenfræðum fylgir starfi yfirlæknis röntgendeildar, og er gert ráð fyrir, að sú kennsla sé víðtæk, með þeim breyt., sem hér er átt við. Vitanlega er það minn tilgangur eins og hæstv. ráðh., að það yrði yfirlæknir röntgendeildar, sem fengi þetta embætti, sem um ræðir á þskj. 331 og ég hef áður minnzt á. Það, sem hefur komið nýtt fram í þessu máli, síðan hæstv. ráðh. sýndi áhuga á að stofna þetta embætti fyrir ári, er, að stjórn Krabbameinsfélagsins hefur lýst yfir áhuga sínum á stofnun þessa embættis með bréfum, dags. 10. des. og 28. des. s. l., og er það í samræmi við tilgang þess félags að stuðla að aukinni menntun lækna. Telur félagið áríðandi nauðsyn þess. að kennsla verði aukin í þessum efnum, eins og gert er ráð fyrir, ef þetta embætti verður stofnað. — Þetta mál er að því leyti dálítið eldra, að þann stutta tíma, sem ég gegndi embætti heilbrmrh., hóf ég málaleitan við læknadeild háskólans um stofnun þessa embættis, þó að það kæmi ekki til framkvæmda þá. Það, sem aðallega vakir fyrir þeim áhugamönnum, sem að þessu standa, er það, sem hér fer á eftir:

„Ráðgert hefur verið, að nýrri skipan verði komið á um kennslu í röntgenfræðum við Háskóla Íslands og heilbrmrh. gert það að till. sínum og háskólinn mælt með því, að stofnað verði prófessorsembætti í þeirri fræðigrein (sbr. bréf heilbrmrh. til menntmrn., dags. 25. jan. 1951, og bréf háskólarektors, dags. 7. maí 1951 og 28. sept. 1951). Þykir því hlýða að gera hinu hæstv. menntmrn., sem nú hefur stofnun umrædds embættis til athugunar, grein fyrir þeim kröfum, sem gerðar eru um aukna kennslu í röntgenfræðum.

Kennslunni er þann veg háttað, að fyrirlestrar eru haldnir í röntgenskoðun (diagnostik) af yfirlækni röntgendeildar landsspítalans 1 stund í viku. Stúdentum ber einnig að vera á röntgendeildinni mánaðartíma í síðasta hluta læknanáms. Fyrirlestrum í þessari sérgrein röntgenfræðanna út af fyrir sig er of þröngur stakkur skorinn.

Í nágrannalöndunum eru haldnir fyrirlestrar fyrir læknastúdenta annars vegar í röntgenskoðun, hins vegar í geislalækningum (röntgen- og radiumtherapi), auk sérstakra sjúkrarannsókna í geislalækningum, aðallega um greiningu og meðferð illkynjaðra æxla. Auk þess eiga þeir kost fyrirlestra í geislatækni og geislaeðlisfræði. Áherzla er lögð á kennslu í geislalækningum auk kennslu í röntgenskoðun, og er alls staðar stúdentafræðsla í báðum þessum greinum röntgenfræðanna, og er víða prófessorsembætti í hvorri sérgreininni fyrir sig.

Af framansögðu er ljóst, að allmikið skortir á, að stúdentum sé veitt sú fræðsla í röntgenfræðum, sem talin er nauðsynleg erlendis, þar sem í geislalækningum eru engir fyrirlestrar fyrir læknastúdenta, vegna þess að til þeirra vinnst ekki tími af þeim stundum, sem ætlaðar eru til kennslu í röntgenfræðum.“

Ég hef nóg af ýmislegum fróðleik, sem ég álit að sýni nægilega, að það er ekki að tilefnislausu, að þessi brtt. er flutt.

Ég vil svo aðeins drepa á það, sem Krabbameinsfélagið segir í bréfi til, hæstv. menntmrh. 10. des. s. l.

„Stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur leyfir sér hér með að mæla fastlega með fram kominni brtt. Jóhanns Þ. Jósefssonar alþm. um stofnun prófessorsembættis við Háskóla Íslands í röntgenfræðum.

Vér teljum þörfina á aukinni kennslu í þessum efnum mjög brýna, þar sem nú eru aðeins haldnir fyrirlestrar í röntgenskoðun, en engir í röntgen- og geislalækningum, sbr. grg. yfirlæknis röntgendeildar landsspítalans til menntmrh., dags. 16. okt. s. l.

Þetta mál varðar mjög alla baráttu gegn krabbameininu og mun verða til þess að auka ekki aðeins þekkingu lækna í þessum málum, heldur og til þess að auka áhuga þeirra.

Kostnaðarauki ríkissjóðs við stofnun þessa embættis er sem stendur hverfandi lítill, rúmlega 10 þús. kr. árlega, svo að það atriði ætti ekki að þurfa að tefja þetta nauðsynjamál.“

Ég skal ekki tefja tíma hv. d. með því að fara lengra út í þetta, en ég vildi rökstyðja þetta með beztu rökum.

Í tilefni af brtt. vona ég, að hún mæti ekki mótspyrnu, og tel ég, að ég tali máli hæstv. heilbrmrh., sbr. bréf hans, sem er orðið ársgamalt. Ég veit, að orðalag þessarar brtt. er ekki í fyllsta samræmi við kröfur tímans hvað dagsetningu snertir, og vil ég því mælast til, að hv. n. ásamt mér tæki till. til athugunar milli umr., og þá mun ég taka till. aftur við 2. umr. og vona, að hún komi gallalaus til 3. umr. Verði hins vegar deilur um þörf á þessu embætti, hef ég svo að segja forðabúr af gögnum, sem sýna fram á nauðsyn þessa máls.

Það er kunnugt, að Krabbameinsfélagið hér telur, að ekki megi draga úr að veita læknum fræðslu í þessum efnum.

Til þess að málið nál frekar fram að ganga, vil ég ekki tefja það og vil stytta mál mitt með því að vísa til ummæla minna með till.