15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta mál eða till., sem hv. þm. Vestm. ber fram á þskj. 331, hefur verið lengi á döfinni. Ég hef orðið mjög mikið var við það þann stutta tíma, sem ég hef verið menntmrh. Ég verð að segja, að mér hefur fundizt vera rekinn nokkuð mikill áróður fyrir þessu máli, og furðar mig ekki, þó að hv. þm. Vestm. hafi forðabúr af gögnum, því að þau bréf, sem mitt rn. hefur fengið um þetta mál, eru þegar orðin mörg. Þetta mál hefur bæði verið athugað í rn. og ríkisstj., og hafa hvorki rn. né ríkisstj. talið sér fært að mæla með því, að þetta embætti verði stofnað.

Rn. er þeirrar skoðunar, að þetta embætti sé ekki það embætti, sem háskólinn hefur mesta þörf fyrir. Hann hefur þörf fyrir mörg embætti, þ. á m. þetta, auk þess embætti í lagadeild, sem ekki hefur fengið viðbót síðan háskólinn var stofnaður. Svona mætti lengi telja. Þó að háskólinn mæli með þessu embætti, er ekki vafi á því, að hann telur, að önnur embætti ættu að ganga fyrir. Það er vafalaust rétt og æskilegt, að meiri framfarir verði í sambandi við krabbameinslækningar.

Krabbameinsfélagið eða menn úr stjórn þess hittu mig að máli fyrir nokkru. Þeirra erindi var, að stofnað yrði embætti í þessum fræðum við háskólann. Það hefur vafalaust vakað fyrir þeim, að kennsla yrði aukin með þessu. Ég benti þeim á, að ríkisstj. gæti ekki tekið þetta upp að svo stöddu, en mundi athuga möguleika á því að auka kennslu í þessum fræðum við háskólann. Þetta er til athugunar, án þess þó að nýtt embætti verði stofnað.

Ég skal ekki fara út í einstök atriði, hvers vegna svo mjög er sótzt eftir því, að þetta embætti sé stofnað. Ég tel að svo komnu máli, að þetta sé ekki það embætti, sem háskólinn hefur mesta þörf fyrir, en tel að hægt sé að auka kennslu í þeim fræðum, sem að krabbameinslækningum lúta, án þess að nýtt embætti sé stofnað að svo stöddu.