17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég sé, að hér liggur fyrir till. um stofnun eins nýs embættis við læknadeild háskólans. Ég skal út af fyrir sig ekki ræða þörf þess, en vil benda á, að sjálf læknadeildin telur, að það sé meiri þörf á að stofna nýtt embætti í lyfjafræði en þetta embætti, sem um ræðir í till., svo að haldið sé einungis við læknadeild. En ástæðan fyrir því, að ég stend upp, er sú, að ég tel óviðunandi annað, ef veruleg fjölgun er gerð á prófessorum við háskólann frá því, sem verið hefur, en að kennslukraftar verði þá einnig auknir í lagadeild, en kennarar eru þar jafnmargir og þeir voru fyrst þegar háskólinn var stofnaður og þegar lagaskólinn var stofnaður nokkrum árum áður, þó að vitað sé, að nemendafjöldinn hefur aukizt þar ekki síður en í öðrum deildum. Kennarar við lagadeildina hér hafa fengið víðtækara verkefni en í öðrum löndum. Það er ef til vill ekki svo mikið við þetta að athuga með svipaðri kennsluskyldu hjá öllum kennurum við háskólann, en nú er búið að margfalda kennsluskylduna hjá prófessorum við lagadeildina miðað við kennslu annarra kennara. Þegar búið er að fjölga kennurum hjá öllum öðrum deildum, verða menn að gera sér ljóst, að það er ekki lengur hægt að standa á móti fjölgun kennara við lagadeild. Ég hef þegar haft til athugunar, hvort ekki væri rétt að samræma þessu frv. að bæta einum kennara við í lagadeild. Ég tel ekki ástæðu til að gera þetta, verði frv. samþ. óbreytt, en ef því verður breytt, þá mun ég ekki skoða hug minn um að bera fram kröfur fyrir lagadeildina á móti. Ég hef aðstöðu til að koma fram með brtt. í Nd. og áskil mér rétt til þess, verði frv. breytt.