17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Eins og ég talaði um síðast þegar þetta mál var hér í þessari hv. d., þá hef ég komið með brtt. við brtt. mína, sem var orðin ótímabær vegna þess, hve málið hefur verið lengi á döfinni. Þegar ég flutti brtt. mína, gerði ég ráð fyrir, að málinu lyki fyrir áramót, og miðaði mína till. við það. En nú er komið sem komið er, og þess vegna flyt ég brtt. á þskj. 628 við brtt. á þskj. 331. Ég hafði að vísu búizt við og gert ráð fyrir, að yfirlæknir röntgendeildar landsspítalans yrði fyrir valinu, ef um prófessorsembætti væri að ræða í þessari grein, en hins vegar er rétt, að ákveðinn prófessor hafi ákveðið verkefni innan síns starfssviðs, eins og ég geri ráð fyrir í brtt. á þskj. 628. Er þar fylgt þeirri hefð, sem á er komin í þeim efnum og snertir prófessorsembætti í læknisfræði við háskólann, eins og ég sýndi fram á við 2. umr. málsins. Yfirlæknir lyflækningadeildar landsspítalans, prófessor Jóhann Sæmundsson, er kennari við háskólann, og yfirlæknir handlækningadeildar landsspítalans, prófessor Guðmundur Thoroddsen, er kennari í sínum fræðum við háskólann. Með því að nýr prófessor verði settur, er það sjálfsögð krafa, að hann hafi á hendi tilsvarandi kennslu í sinni sérgrein eins og hinir prófessorarnir og verði yfirmaður röntgendeildar landsspítalans jafnframt. Málið liggur því ljóst fyrir. Það, sem er farið fram á hér, er, að yfirlæknir sá, sem á hverjum tíma gegnir yfirlæknisstörfum við röntgendeild landsspítalans, sé einnig prófessor og kenni sín fræði við háskólann. Ég hef mörg gögn, sem sýna, að yfirlæknirinn er vel séður og vel látinn maður. Ég kann ekki við að gert sé upp á milli yfirlækna landsspítalans í þessum efnum.

Ég veit, að rektor háskólans er fylgjandi því. að þetta embætti í röntgenfræðum verði stofnað, og ég veit enn fremur, að heilbrigðisyfirvöldin, hæstv. heilbrmrh. og hæstv. landlæknir, eru báðir meðmæltir þessari breyt. Það liggur ljóst fyrir í bréfi, sem heilbrmrh. hefur sent menntmrn., dags. 25. jan. 1951, og auk þess í bréfi frá rektor, dags. 7. maí 1951, sem er svar til hæstv. menntmrh., er virðist hafa sent honum fyrirspurn varðandi þetta. Bréf þetta er dagsett 7. maí, en bréf heilbrmrh. er dagsett 25. jan. 1951. Ég ætla því, að það verði naumast talið, að þetta sé neitt hégómamál, þar sem ég hef það innlegg í málið, sem ég hef þegar sýnt fram á. Vil ég ekki tefja tíma hv. d. með því að endurtaka öll þau gögn og rök, sem ég taldi fram við 2. umr. þessa máls. Ég vil þó benda á, að stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur kemst svo að orði í bréfi til hæstv. menntmrh., dagsettu 10. des. 1951:

„Vér teljum þörfina á aukinni kennslu í þessum efnum mjög brýna, þar sem nú eru aðeins haldnir fyrirlestrar í röntgenskoðun, en engir í röntgen- og geislalækningum, sbr. grg. yfirlæknis röntgendeildar landsspítalans til menntmrh., dags. 16. okt. s. l.

Þetta mál varðar mjög alla baráttu gegn krabbameininu og mun verða til þess að auka ekki aðeins þekkingu lækna í þessum málum, heldur og til þess að auka áhuga þeirra.“

Það má vel vera, að það sé á einhverju öðru sviði, sem þarf að athuga prófessorsembætti við háskólann, en á þessu eina. En ég hef tekið það, sem mér finnst liggja næst, og það, sem að dómi heilbrmrh. og fleiri góðra manna og að dómi Krabbameinsfélagsins er talið nauðsynlegt. Hitt er svo annað mál, hvort skortur er á lagaprófessorum. Ég þekki þar ekki til og leiði það hjá mér.

Ég vil ekki láta ómótmælt í sambandi við umr. um svona alvarlegar heilbrigðisráðstafanir, að það sé látið dragast úr hömlu, að hafður sé sá viðbúnaður, sem er skynsamlegur og réttur, til þess að reisa rönd gegn þeim vágesti, sem nú virðist herja svo mjög heilsufar íslenzku þjóðarinnar. Ég vil ekki heyra þær fullyrðingar, að ef þetta verði gert, þá þurfi aðrar kröfur að fylgja í kjölfar þess. Ég vil ekki láta þetta tefja fyrir þeim ráðstöfunum, sem hér hefur verið sýnt fram á að séu nauðsynlegar.

Ég skal svo ekki án sérstaks tilefnis tefja hv. d. með langri ræðu um þetta atriði. Ég hef tekið að mér að flytja þessa till., eftir að búið var að sannfæra mig um, að á þennan hátt mætti bæta og auka nauðsynlega kennslu í þessari grein við háskólann. Ég hef nú dregið fram þau beztu gögn og staðreyndir, sem ég hef kynnt mér í þessu máli, og leitazt við að leysa af hendi þá skyldu hvers þm. að leiða fram í hverju máli það, sem nauðsynlegt er, sannast og réttast.

Nú fyrir skömmu gat eitt af dagblöðum höfuðstaðarins þess, hve mjög þessi sjúkdómur, sem hér um ræðir, færi í vöxt í okkar þjóðfélagi. Enn hafa læknavísindin ekki fundið neitt öruggt meðal við krabbameini og ekki heldur fundið, hver er hin eiginlega orsök þess. En við þm. vitum, að hver skynsamleg ráðstöfun, sem gerð er til þess að fræða almenning og læknastéttina um greiningu á sjúkdómnum, hvernig skuli með hann farið og allar aðferðir, sem hægt er að nota til úrbóta. er til gagns á þessu sviði, og það er á okkar valdi að greiða fyrir þeim úrbótum. Mér er það ljóst, að vera kann, að þetta sé ekki stærsta sporið, sem hægt er að stíga í rétta átt, en með meiri kennslu, meiri fræðslu, meiri greiningu og ötulli vinnu á þessu sviði er áreiðanlega stigið spor í rétta átt.

Þessi brtt. stendur svo eða fellur eftir geðþótta síns herra, sem er hv. d. í þetta sinn. En ég vona, að svo mikill skilningur sé ríkjandi hjá hv. þm., að þeir ljái því lið, að kennsla í þessari grein læknavísindanna verði bætt svo sem hér er farið fram á.