17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í sjálfu sér er þýðingarlítið að þrátta um þetta. Ég geri ráð fyrir, að við getum haldið áfram að þrefa um það í dag. En ég hef orðið þess var, að hv. þm. Vestm. hefur misskilið mjög það, sem ég sagði eða vildi hafa sagt um lagadeildina. Ég sagði aldrei, að fækkað hefði þar kennurum. Þó að ég og annar þm. höfum áður verið kennarar við lagadeildina, þá létum við af því starfi, eins og altítt er, og hafa aðrir menn tekið þar við okkar starfi. En lagadeildin er eina deild háskólans, sem hefur enn þá jafnmarga kennara og lagaskólinn hafði, þegar hann var stofnaður 1908, en tveimur, þremur og allt að sex kennurum hefur verið bætt við hinar deildirnar á sama tíma. Er það augljóst, að þetta er mjög óheppilegt fyrir allar vísindalegar rannsóknir, en lagavísindin eru sízt ómerkari, þó að þau séu á öðru sviði en þær fræðigreinar, sem kennaraliði hefur verið fjölgað við vegna harðrar sóknar þeirra manna, sem þar eiga hlut að málum. Ég hef lýst því yfir áður, að ég hef ekkert við þessa aukningu að athuga, ef menn hafa efni á því og fé til þess. Mun ég ekki greiða atkv. gegn till., en ég bendi á, að þessi aukning hlýtur að leiða til aukningar annars staðar. Það þarf ekki að vera af því, að menn séu á móti málinu, þótt þeir bendi á, að samræmi verði að ríkja, það megi ekki auka eina deild stofnunarinnar en setja aðrar hjá. Á þessu hlýtur að verða breyt. varðandi lagadeild, ef enn verður haldið áfram með svo stórfellda aukningu á sumum háskóladeildum sem verið hefur. Hins vegar verð ég að segja það, að þó að það láti vel í eyrum að tala um mikla málsvara í þessu máli, heilbrmrh., landlækni o. s. frv., þá er mér kunnugt, að mál þetta er fyrst og fremst metnaðarmál og tekjumál þess aðila, sem þarna á hlut að máli. Ég segi ekki, að málið sé rangt fyrir það. En það er staðreynd og kom fram í gögnunum, og það sjá allir, sem eru vanir að lesa slík gögn. Landsspítalinn greinist í nokkrar deildir og er fyrir sumum prófessor. Fyrir röntgendeildinni er maður, sem hefur kennsluskyldu og annast kennslu, en ber ekki prófessorsnafn og hefur þess vegna eitthvað lægri laun. Hann telur, að sinni stöðu og sinni fræðimennsku sé með þessu sýnd lítilsvirðing og sækir ákaflega fast að fá það, sem hann kallar réttingu sinna mála. Mér finnst það vera mál, sem menn geta metið og athugað, sumir með og aðrir móti, eða látið afskiptalaust, eins og ég ætla að gera. En ef á að gera úr þessu mikla sókn á hendur krabbameininu í landinu ef ekki í heiminum öllum, þó að þessi maður fái nýjan titil og eitthvað fleiri þúsundir úr ríkissjóði en áður, finnst mér það að ætlast til meiri trúgirni af hálfu þm. en sanngjarnt er.