17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég skal ekki misnota þingmannsrétt minn til aths. Ég ætla ekki að innleiða karp í anda hæstv. dómsmrh., því að það hefur komið ljóslega fram við þessar umr., að til þeirra hluta er hann miklu hæfari en ég, enda lærður þar til, samanber lagaprófessorsgreininguna. En mér þykir hart, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að gera lítið úr þeim gögnum, sem ég hef lagt fram. Ég vona, að hann láti sér ekki detta í hug, að ég hafi búið til þetta bréf. Ég hef lesið upp afrit af bréfi eftir hvorki meira né minna en heilbrigðisstjórn landsins og stjórn eins ákveðins félags, sem hefur það hlutverk að berjast gegn ákveðnum sjúkdómi. Þegar þess vegna eru höfð lítilsvirðandi orð um mína till. og þau „mótív“, sem þar liggja á bak við, lenda þau ekki á mér, heldur á yfirlækni röntgendeildar landsspítalans, á stjórn Krabbameinsfélagsins og þeim öðrum, sem hafa rökstutt þetta mál. Rökföst gögn hlutaðeigandi yfirvalda eru komin fram og rökfæra þörf á aukinni kennslu í þessum efnum og þar af leiðandi þessum umbótum. En hæstv. ráðh. telur sig vita miklu meira og miklu betur, eftir því sem hann greinir frá. Og hann sér ekki nema eitt einasta „mótiv“, að það sé metnaðargirni eins manns og ég held græðgi eftir meiri launum. En hvað vill þá hæstv. ráðh. leggja upp úr orðum hæstv. forsrh., sem er einnig heilbrmrh.? Vill hann segja álit hans hégóma og aðeins til þess að láta undan metnaði eins manns og launagræðgi hans? Hvað vill hann leggja upp úr tillögum landlæknis? Hvað vill hann leggja upp úr tillögum og greinargerð Alfreðs Gíslasonar læknis og annarra í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur? Eru virkilega svo lítilsigldir allir þessir menn í hans augum, að þeir hafi aðeins þetta áhugamál, metnað eins læknis og launamál hans? Ég held hæstv. ráðh. þurfi að svara þessu. Það má gera mér upp hvaða hvatir, sem vera skal og jafnvel manni, sem er fjarverandi, eins og þessum lækni. En það er ekki svo auðvelt að afgr. málið aðeins á þann hátt, þegar í hlut á sjálf heilbrigðisstjórn landsins, og það þvert ofan í skrifuð skjöl frá henni, og það er hún, sem í bréfi sínu vitnar í landlækni.