06.11.1951
Neðri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að gera tvær aths. í sambandi við þetta mál. Önnur snertir afstöðu ríkisstj. til starfsmanna sinna. Að hæstv. ríkisstj. hefur orðið að veita starfsmönnum ríkisins sömu kjör og aðrir hafa fengið, stafar af því, að opinberir starfsmenn hafa ekki verkfallsrétt. Meðan svo er, er ekki hægt að segja við þá, að þeir verði einskis aðnjótandi, þegar aðrir hafa fengið kjör sín bætt. Ég vil spyrja hv. þm. A-Húnv. og þá, sem honum kunna að fylgja að málum, hvort þeir eru fúsir til að gefa opinberum starfsmönnum þennan rétt. Meðan þeir hafa hann ekki, býst ég við, að flestar ríkisstj. líti svo á, að þetta sé óhjákvæmilegt. — Hin aths., sem ég vildi koma með, snýr að starfsemi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Meðlimir þess verða aðnjótandi þeirra kjarabóta, sem verkalýðsfélögin knýja fram. En ég verð að segja, að ef það er svo, að þeir eru sviptir verkfallsrétti og verða því að treysta á kjarabaráttu verkalýðsfélaganna, þá hlýtur það að verða krafa, að þeir styðji kjarabaráttu verkalýðsfélaganna betur en nú. Hingað til hefur það verið svo, að forgöngumenn bandalagsins hafa lagzt á móti kröfum verkamanna og reynt að vega aftan að þeim. Sú minnsta krafa, sem hægt er að gera, er, að samtökin sýni aðra viðleitni í þessum málum og styðji samtök verkalýðsins.

Þessum aths. vildi ég skjóta fram, án þess að tefja umr.