06.11.1951
Neðri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það hafa nú talað fjórir hv. þm., tveir ráðh. og tveir aðrir, á móti brtt. minni. Þetta kemur mér ekki á óvart. Það er ekki nýtt, þegar um það er að ræða, hvort auka skuli eða skerða hagsmuni launastéttanna, að meiri hluti Alþ. sé fylgjandi því að skerða þá ekki. En með því að það er aðalmál þingsins að sporna við dýrtiðinni, og hefur verið það undanfarin 10–12 ár — og það er ekki flokksmál eða stéttarmál, heldur allsherjar þjóðmál — þá vil ég ekki sem þm. bera ábyrgð á vísitölukerfinu.

Það er nú svo ástatt, að fastlaunamenn hafa á sínu bandi einn flokkinn heilan og meiri hluta í öllum hinum flokkunum. Svo var einnig er vísitölulögin 1940 voru sett, en afleiðingar þeirra laga höfum við nú séð.

Hv. 3. landsk. taldi það fagnaðarefni, að forseta Sþ. skyldi detta í hug að lækka laun opinberra starfsmanna. Hér er ekki um lækkun að ræða, heldur hækkun. Á síðasta Alþ. var ákveðið að borga 23% viðbót við launin í ár og ekki meira. Nú er þetta orðið 50%, og ég fer ekki fram á neina skerðingu til ársloka. En ef hækkunin nemur t.d. 60% í desember, þá má samkv. till. borga á næsta ári aðeins 30%. Hún er borin fram vegna þess, að ég tel, að dýrtíðin verði ekki stöðvuð, ef ekki er spornað við henni hjá þeim, er ráða í þjóðfélaginu og eru þar valdastéttin.

Svo var hv. 2. þm. Reykv. Hann vill bæta gráu ofan á svart með því að heimta verkfallsrétt fyrir opinbera starfsmenn, svo að þeir geti barizt gegn þjóðfélaginu, sem þeim hefur verið veitt embætti til að vernda, því að frá mínu sjónarmiði eru opinberir embættismenn kostaðir til náms til þess að vernda hagsmuni þjóðfélagsins.

Þá sagði hv. 3. landsk., að launaskrúfan hefði verið sett í gang með samningum s.l. vor. Það er rétt, og því ræður Alþ. ekki. En ríkisstj. ræður yfir opinberum starfsmönnum og getur því hindrað, að þar verði sett í gang sams konar launaskrúfa og sett var í gang með samningum verkalýðsfélaganna á s.l. vori. Það þarf enginn að halda, að hægt sé að stöðva þessa skrúfu, ef Alþ. sýnir ekki viðleitni til að stöðva hana hjá sér.

Í gengisbreytingarlögunum nr. 22 frá 1950 var það eitt merkilegasta atriðið, að greiðslu verðlagsuppbótar skyldi lokið í júní 1951. Með því að halda þessu áfram, fæ ég ekki betur séð en verið sé að renna sér fótskriðu fram af fjárhagslegum glötunarbarmi.