23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

8. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. var að vitna í, að bændur hefðu stofnað kaupfélag og flutt út sauði sína. Hann spurði, hvernig væri nú með frelsi til slíks, og sagði, að það þyrfti leyfi fyrir öllu. Útflutningurinn er vissulega ekki svo frjáls sem vera skyldi, og þyrfti að létta af honum hömlum. En hvernig er með sauðaútflutninginn nú? Það er búið að selja farm af dilkakjöti til útlanda núna fyrir hagstætt verð, og í fyrra var selt dilkakjöt til Ameríku fyrir gott verð. Hvað sagði hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksmenn um þetta? Ég man ekki betur en að blað hans fordæmdi þennan útflutning. Ég efast því um, að bændur gætu haft þann hátt á að flytja út sauði sína, ef hv. 2. þm. Reykv. og sósíalistar hefðu meiri völd en þeir hafa nú.

Í fyrri ræðu sinni var hv. 2. þm. Reykv. (EOl) að dylgja um olíumálið, sem hann og flokksbræður hans nefna svo. Dylgjur þeirra eru um Olíufélagið h/f, en mál þetta er í rannsókn, sem hefur nú þegar dregizt óeðlilega lengi, og það er því miður ekki eina dæmið um seinagang í rannsóknum mála hjá yfirvöldunum. En hv. þm. ætti að spara svigurmæli sín um þetta fyrirtæki og málefni þess, þar til úrskurður um þau er kominn. Um þetta fyrirtæki, Olíufélagið h/f, er annars það að segja, að eigendur þess eru S. Í. S. og kaupfélög þess, olíusamlög útvegsmanna og togaraútgerðarfyrirtæki. Óhætt er að fullyrða, að með samtökum þessara aðila um olíuverzlunina hafa þeir gert þá verzlun langtum hagkvæmari öllum þeim fjölda manna, sem við þá skipta, heldur en hún áður var. Bátaútvegsmenn og sjómenn, sem meðal annarra hafa hagnazt á starfsemi Olíufélagsins, finna vel, hvaða þýðingu það hefur haft, hvað sem hv. 2. þm. Reykv. og flokksbræður hans segja.

Hv. 2. þm. Reykv. var að hafa eitthvað eftir hæstv. fjmrh. Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. fjmrh. hefur ekki tekið þátt í þessum umr. Sennilega hefur hv. þm. orðið mismæli. Hann mun hafa ætlað að beina ummælum sinum til hæstv. viðskmrh.

Sami hv. þm. (EOl) segir, að kaupfélögin geti ekki komið að tilætluðum notum vegna lánsfjárkreppu, sem hann talaði mikið um. Ég held, að t. d. hér í Reykjavík þurfi lánsfjárskortur ekki að standa starfsemi kaupfélags fyrir þrifum. Hér eru staðgreiðsluviðskipti, og hér þarf minna veltufé til verzlunar en annars staðar, því að hér þarf ekki að hafa eins mikið fé fast í vörubirgðum. Ég sá auglýsingu frá KRON í sumar, þar sem óskað var eftir fé í innlánsdeild félagsins, og mér er sagt, að þetta hafi borið góðan árangur þrátt fyrir andróður gegn því á vissum stöðum. Flokksbróðir hv. 2. þm. Reykv., Sigfús Sigurhjartarson, fyrrv. alþm., form. Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, virðist bjartsýnni á möguleika kaupfélagsins til aukinna viðskipta með auknu verzlunarfrelsi. Fyrr á þessu ári birtist viðtal við hann í Þjóðviljanum um málefni KRON. Mun það hafa verið um það leyti sem aðalfundur félagsins var haldinn. Þar segir Sigfús m. a., að hann sé þess „fullviss, að með frjálsum innflutningi og frjálsri álagningu mundu kaupfélögin vinna verk sitt fyrir meðlimi sína og þjóðarheildina enn betur en á tímum innflutningshaftanna og verðlagseftirlits. Frá mínu sjónarmiði er það því fagnaðarefni,“ segir Sigfús, „að nú virðist vera stefnt í þá átt, og mun það sýna sig, að kaupfélögin munu þá sækja á í samkeppninni við kaupmenn og tryggja sig betur fjárhagslega.“

Ég gerði að umtalsefni hér í kvöld m. a. það, hvað illa hefði verið búið að samvinnufélögunum við úthlutun innflutningsleyfa áður en losað var um höftin. Út af þessu sagði Emil Jónsson, hv. þm. Hafnf., að aukinn hefði verið hlutur kaupfélaganna í innflutningnum á stjórnarárum Alþfl. Ekki er nú ferill Alþfl. svo góður í viðskiptamálunum, að hann megi við því, að því, sem hann kann að hafa betur gert, sé skotið undan. Rétt er það, að Alþfl.-ráðh. gengu inn á að hækka lítið eitt innflutningsskammt kaupfélaganna í sumum vöruflokkum, en sú aukning var ekki nema lítið brot af því, sem kaupfélögin áttu rétt á, samanborið við fjölgun félagsmanna hjá þeim á þessum árum. — Hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, sagði, að kaupfélögin hefðu viljað fá hækkun verzlunarálagningar. Rétt mun það vera, að kaupfélagsstjórar stærstu félaganna hafi borið fram kvartanir um of lága álagningu vegna hækkandi verzlunarkostnaðar. En aðalkrafa samvinnumanna var afnám verðlagseftirlits, sbr. ályktun sambandsfundar, sem ég hef áður skýrt frá hér í umr. En þrátt fyrir lága álagningu síðustu árin endurgreiddu kaupfélögin innan S. Í. S. beint til félagsmannanna og í stofnsjóði, sem eru séreign félagsmanna, samtals á 4. millj. króna á árunum 1949 og 1950. Á þeim árum lögðu kaupfélögin auk þess í sameignarsjóði, sem eins og kunnugt er verða um alla framtíð í héruðunum til hagnaðar fyrir það fólk, sem þar er og starfar, samtals yfir 6 millj. króna.

Hvers vegna má ekki hafa verðlagseftirlit? spyr hv. þm. Hafnf. Ég hef áður sýnt fram á, að önnur úrræði í þessum málum séu margfalt hagkvæmari fyrir almenning en að varpa öllum sinum áhyggjum upp á fjárhagsráð og ríkisstjórn. Og er ekki kostnaðurinn við ríkisreksturinn nógu mikill, þó að ekki sé hafður á launum fjöldi manna við störf, sem hægt er fyrir það opinbera að komast hjá að taka að sér?

Það er mikið talað nú eins og áður um dýrtíðina í landinu og orsakir hennar. Margir vilja kenna gengislækkuninni um það, að vöruverð er nú miklu hærra en það áður var. Vitanlega hækkaði verð á aðfluttum vörum í íslenzkum peningum við gengislækkunina. Það var öllum ljóst fyrir fram. Verð á útfluttum íslenzkum framleiðsluvörum hækkaði líka að sama skapi. En meginorsök þeirrar vöruhækkunar, sem orðið hefur, er þó ekki gengislækkunin, heldur þær verðhækkanir, sem orðið hafa á heimsmarkaðinum og íslenzk stjórnarvöld og aðrir íslenzkir aðilar hafa á engan hátt getað við ráðið. Fram hjá þessari staðreynd ganga þeir margir, sem ræða um þessi mál. Sumir gera þeir það í blekkingaskyni og skrifa á reikning gengislækkunarinnar miklar verðhækkanir, sem eiga alls ekki þar heima. Ýmsar frásagnir um hækkun álagningar á vöruverð hafa verið þannig, að ekki verður séð annað en verið sé að blekkja menn og koma inn hjá þeim röngum hugmyndum um þessi efni. Til dæmis um þetta má nefna frásögn í Alþýðublaðinu 3. okt. s. l. Þar segir um S. Í. S., að álagning þess á haframjöl hafi hækkað um 18.5%, álagning á strausykur um 28%, álagning á kaffi um 9.4% og álagning á hrísgrjón um 25.5%. — Vafalaust hafa einhverjir, sem þetta lásu, fengið þá hugmynd, að álagning á þessar vörur hjá sambandinu hlyti að vera nokkuð mikil, fyrst þessi hækkun hefði orðið á henni. En þess var ekki getið í Alþýðublaðinu, hver heildarálagning á þessar vörur raunverulega er hjá sambandinu, en hún er nú aðeins 3% á kornvörur, fóðurvörur, kaffi og sykur, — aðeins 3 af hundraði, eins og ég hef áður skýrt frá í þessum umr.

Hv. 3. landsk. þm. (GÞG) talaði m. a. um það, að skattar til ríkisins hefðu verið framlengdir þrátt fyrir gengislækkunina. Hv. þm. sleppti að geta þess, að á ríkisstjórnarárum Alþfl. 1947–49 safnaði ríkissjóður skuldum, sem námu mörgum tugum millj. ár hvert. Þessar skuldir varð að borga, og m. a. vegna þeirra hefur ekki verið hægt að lækka skatta.

Sami hv. þm. endaði ræðu sína með því að minnast á kosningaloforð framsóknarmanna um baráttu gegn fjárplógsstarfsemi. Þeir hafa oftar talað um þetta, Alþfl.-menn. Mér hefur jafnan virzt þeir verða nokkuð úrillir, andstæðingar Framsfl., þegar þeir rifja upp minningar frá síðustu kosningum og úrslitum þeirra, ekki sízt frá kosningabaráttunni í Reykjavík. Framsfl. vann ný þingsæti í kosningunum, m. a. í Reykjavík. Fyrir kosningarnar fullyrtu allir hinir flokkarnir, að Framsfl. gæti ekki fengið þm. í höfuðstaðnum. Áður höfðu þingsæti Reykvíkinga skipzt á milli hinna flokkanna þriggja, og þeir töldu sjálfsagt, að þannig yrði þetta líka í framtíðinni. En margir kjósendur í Reykjavík voru á öðru máli, og Framsfl. fékk kosinn þm. í höfuðstaðnum, — konu, sem er vel menntuð og góðum hæfileikum búin. Spádómar hinna flokkanna reyndust falskir, og það gramdist þeim mjög, eins og skiljanlegt var. Útkoman í kosningunum mun þó hafa farið einna verst með foringja Alþfl., því að þeir voru svo miður sín á eftir, að þeir ákváðu að neita með öllu að fórna forustuhæfileikum sínum við ríkisstjórnarstörf fyrst um sinn um óákveðinn tíma.

Það er rétt, að frambjóðendur Framsfl. lýstu yfir í kosningunum, að þeir vildu vinna gegn fjárplógsstarfsemi. Framsfl. hefur alla tíð miðað störf sín og stefnu, t. d. í viðskiptamálum, fyrst og fremst við það að bæta hag fjöldans og vinna gegn fjárplógsstarfsemi einstakra manna. Fyrir síðustu kosningar var meira talað um ófremdarástandið í verzlunarmálunum en flest annað, ekki aðeins í Reykjavík, heldur einnig annars staðar á landinu.

Þetta var ofur eðlilegt, því að ástandið í verzlunarmálunum var þá þannig, mest fyrir óstjórn þeirra, sem málunum réðu, að þjóðin gat með engu móti við unað. En hvernig er þá ástandið í viðskiptamálunum nú, og hvaða breytingar hafa þar á orðið síðan haustið 1949, þegar rætt var um þau mál og fleira í kosningunum? Ríkið er hætt að gefa út falskar ávísanir í formi skömmtunarseðla, sem engar vörur fást út á. Sú mikla mylla hefur verið jöfnuð við jörðu. Og eins og bent hefur verið á í þessum umr. af mér og öðrum, eru biðraðirnar við búðardyrnar nú úr sögunni. Bakdyraverzlunin sömuleiðis. Fólk getur fengið flestar nauðsynjavörur án þess að kaupa þær á svörtum markaði. Verzlanir fólksins, samvinnufélögin, hafa fengið verulegt athafnafrelsi í stað ánauðar. Og nú geta heimilin fengið nauðsynlegustu vörur, svo sem vefnaðarvörur og efni í fatnað til að vinna úr, í stað þess að þurfa áður að kaupa rándýrar tilbúnar flíkur. Húsmæðurnar finna bezt, hvað þetta þýðir. Allar þessar breytingar eru almenningi í hag, og með þessum ráðstöfunum og ýmsum fleiri hefur vissulega verið unnið gegn fjárplógsstarfseminni í þjóðfélaginu — og það mun Framsfl. enn gera. En þegar rætt er um þessi mál, er ástæða til að vekja athygli á því, að þjóðin getur því aðeins vænzt þess að njóta áfram þessa frjálsræðis í viðskiptum, sem nú er fengið, og að hægt verði að leysa höftin af fleiri vörutegundum, að gjaldeyristekjur landsmanna nægi til að fullnægja eftirspurninni eftir útlendum vörum. Þess vegna þarf að auka framleiðsluna, eftir því sem mögulegt er, því að með því eina móti er hægt að tryggja auknar gjaldeyristekjur og um leið vaxandi velmegun. Fleira þarf vitanlega að gera, svo sem það að gæta þess. að ríkisbúskapurinn sé hallalaus, því að öðrum kosti má búast við því, að aftur skapist það jafnvægisleysi í fjármála- og viðskiptalífinu, sem verði þrándur í götu frjálsra viðskipta, svo að aftur verði óhjákvæmilegt að grípa til viðskiptahafta, skömmtunar og verðlagseftirlits Framsfl. mun eftir því sem í hans valdi stendur, vinna gegn því, að það ástand skapist í viðskiptamálunum, að aftur þurfi að grípa til slíkra neyðarráðstafana.