12.10.1951
Neðri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

9. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Á þeim helmingi þessarar aldar, sem liðinn er, og jafnvel síðari helmingi undanfarinnar aldar, hafa verið hörð átök um það, hvernig haga skuli vinnutíma verkamanna og sjómanna. Þetta á rætur sínar að rekja til þess, að um síðustu aldamót var það almennt í iðnaðarlöndunum, að vinnutíminn var óhóflega langur. Í því sambandi má t. d. minna á það, hve lengi óþroskaðir unglingar voru látnir vinna í verksmiðjunum í Bretlandi. Þegar verkalýðshreyfingin færðist í aukana, komu fram ákveðnar kröfur um það að reisa yrði skorður við þessari þrælkun, annað tveggja með samningum eða með löggjöf. Það er eftirtektarvert, að hátíðisdagur verkalýðsins, 1. maí, á rætur sínar að rekja til kröfunnar um 8 stunda vinnudag. Með vaxandi styrkleika verkalýðshreyfingarinnar varð ekki komizt hjá því að sinna þessari kröfu, enda sáu frjálslyndir borgarar, að þetta var ekki aðeins sanngirnismál, heldur líka hagkvæmt fyrir atvinnureksturinn og hafði í för með sér aukin vinnuafköst. Lengi var um það deilt og víðtækar athuganir fóru fram á því, hvaða vinnutími gæfi bezt afköst, og það kom á daginn, að hóflegur vinnutími, 8 eða jafnvel 6 stundir, gaf bezt afköst. Þessi rök, ásamt mannúðarhugsjóninni, eru orsök þess, að nú er svo komið víðast hvar í hinum frjálsa heimi, að vinnutíminn er ekki lengri en 8 stundir. Líka hér á landi hefur verið horfið frá hinum langa vinnutíma, þegar sýnt var, að hann gaf ekki betri afköst.

Eitt það fyrsta, sem íslenzk verkalýðshreyfing hafði að glíma við, var takmörkun á vinnutíma háseta á togurunum. Fyrsti sigurinn í því máli vannst 1921 gegn harðri andstöðu þeirra, sem áttu togarana, og gömlum hleypidómum, þegar sjómönnunum var með l. tryggð 6 stunda hvíld á sólarhring. Þetta var ekki aðeins til hagsbóta fyrir sjómenn. Skipstjórar og útgerðarmenn, sem haldið höfðu, að þetta mundi hafa aukinn kostnað í för með sér, sáu af reynslunni, að þetta var á misskilningi byggt. Ég hef átt tal við marga gamla togarasjómenn um vinnuskilyrðin á togurunum áður en þessi l. voru sett, þegar þrælkun togarasjómanna gekk svo úr hófi fram, að hraustbyggðustu menn urðu heilsulausir á unga aldri. Þeir minnast þessara tíma með hryllingi og kalla það Tyrkjatímabilið og telja, að lögin um 6 stunda hvíld á sólarhring séu eitt merkilegasta skrefið í sögu íslenzkrar verkalýðshreyfingar. Baráttunni fyrir því að skapa togarasjómönnum mannsæmandi vinnutíma var haldið áfram, og augu fleiri og fleiri opnuðust fyrir nauðsyn þess, að það yrði gert annaðhvort með samningum eða löggjöf. Krafan um aukinn hvíldartíma náði svo loks fram að ganga 1928, þegar hin upphaflega krafa um 8 stunda hvíld á sólarhring var lögfest. Krafan um 8 tíma hvíld fyrir togarasjómenn kom „spontant“ fram, án áróðurs af hálfu forustumanna sjómanna, en tíminn hefur leitt það í ljós betur og betur, að sjómönnum er þörf lengri hvíldar en þetta. Vinnutími við vinnu í landi er nú almennt 8 stundir, og sú krafa hlaut því að koma fram, að þriðja sporið yrði stigið í þessum efnum og hvíldartíminn lengdur upp í 12 stundir á sólarhring. Það er alllangt síðan þessi krafa kom fram. Árið 1947 var borið fram frv. um þetta, en því var þá vísað til ríkisstj. til þess að athuga, hvort ekki væri hægt að finna samkomulagsgrundvöll. Ég átti þá sæti í ríkisstj. og hafði með málið að gera, og þar sem ég taldi heillavænlegast fyrir alla, að samkomulag yrði um málið, skipaði ég 6 manna mþn. til þess að fjalla um það. N. starfaði í rúmt ár, en því miður varð ekki samkomulag um lausn málsins. N. klofnaði í þrennt. Fulltrúar sjómanna lögðu til, að lögboðin yrði 12 stunda hvíld togaraháseta, fulltrúar útvegsmanna lögðust á móti því, en hinir stjórnskipuðu embættismenn lögðu ekkert til málanna. Þetta leiddi til þess, að mikið kapp hljóp í deilur sjómanna og útgerðarmanna, og hafði það í för með sér mikið tjón fyrir atvinnulífið í landinu. Það eru því margar stoðir, sem renna undir það, að tryggja beri 12 stunda hvíldartíma á togurunum. Það skal að vísu játað, eins og sagt er í grg., að tekizt hefur að knýja ákvæði um 12 stunda hvíld á saltfisksveiðum inn í kjarasamninga, en það gildir ekki um aðrar veiðar. Ég tel, að nauðsynlegt sé að lögfesta 12 stunda hvíldartíma, og held, að það verði ekki síður hagkvæmt skipulag fyrir útgerðarmenn en sjómenn. Ég hygg, að reynslan muni sýna, eins og raun varð á 1921 og 1928, að þetta verði ekki bara hagnaður fyrir sjómenn, heldur líka útgerðarmenn og togaraútgerðina yfirleitt. Eins og bent er á í grg., getur svo farið nú, að gildandi samningum verði sagt upp, og stendur yfir atkvgr. um það, hvort það skuli gert. Ef til nýrra samninga kemur, verður hvíldartíminn mikilvægt atriði, og ég veit með vissu, að sjómenn munu halda til streitu kröfu sinni um 12 stunda hvíld á öllum veiðum. Ef löggjafarvaldið leysir ekki þetta mál, getur það haft í för með sér langa og harðvítuga vinnudeilu, en á því græða engir nema óþurftarmenn þjóðfélagsins. Hér er því ekki bara um réttlætismál að ræða hvað togarasjómennina snertir, heldur er lausn þessa máls hagsmunamál fyrir þjóðfélagið í heild og líka fyrir þá, sem standa að íslenzkri togaraútgerð. Ég vildi því mega vænta þess, að sá þráláti misskilningur, sem komið hefur fram í sambandi við þetta mál, hyrfi og að menn sæju, að hér er um hagsmunamál alls þjóðfélagsins að ræða.

Ég þarf ekki að skýra frv. nánar, ákvæði þess eru ljós, en mér þótti rétt að fylgja frv. úr hlaði með nokkrum orðum og vildi mega vænta þess, að 71. löggjafarþing Íslendinga bæri gæfu til þess að samþ. frv. og hrinda þar með úr vegi þessum ásteytingarsteini og bæta sjómönnum um leið það, sem áður hefur verið við þá misgert.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn. Þar mun þetta mál og önnur svipuð mál hafa verið til meðferðar undanfarið: