15.01.1952
Neðri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

15. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv., frsm. meiri hl. fjhn., færði það fram sem höfuðrök fyrir því að vísa þessu frv. til hæstv. ríkisstj.; að fyrir dyrum stæði endurskoðun skattalaganna. Ég tel, að hér sé um að ræða slíkt réttlætismál, að ekki megi bíða eftir þessu. Það er vitað, að endurskoðunin tekur minnst eitt ár og sennilega miklu lengri tíma. Ég álít því, að með þessu sé verið að skjóta málinu á frest algerlega að ástæðulausu. Frv., ef að lögum yrði, mundi hafa mikil áhrif til lækkunar skatta af lág- og miðlungstekjum. Hins vegar er varnagli við því sleginn, að hátekjufólk geti hagnazt óeðlilega á þessu. Tel ég því hiklaust, að frv. stefni í rétta átt, og er hér raunar um hið mesta réttlætis- og sanngirnismál að ræða. Það eru heldur engin rök, að ríkissjóður missi nokkrar millj. kr. í tekjum, ef frv. yrði samþykkt. Tekjumissirinn er ekki nema lítið brot af tekjuafgangi síðasta árs. Það er einnig hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. V-Húnv., að þetta frv., ef samþ. yrði, mundi ekki lækka skatta af lágtekjum.

Ég hygg, að til þessa þings hafi ekki borizt jafnmargar áskoranir um að samþykkja nokkurt mál og þetta. Ég hef hér fyrir framan mig fjöldann allan af áskorunum um þetta efni. Miðstjórn Alþýðusambands Norðurlands hefur skorað á Alþingi að samþykkja það, aðalfundur Bandalags kvenna í Reykjavík sendir áskorun um að samþykkja það. Á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja var samþykkt ályktun þess efnis að skora á þingið að samþykkja frv. Kvenréttindafélag Íslands hefur samþykkt áskorun um að samþykkja það og jafnframt sent áskorun frá 15 kvenfélögum sama efnis. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur sent áskorun þessa efnis, og nokkur önnur félög og félagasamtök hafa sent áskoranir sama efnis. Í þessu kemur fram, að meðal almennings er mikill áhugi fyrir þessu hagsmunamáli, sem snertir alla skattþegna, ekki aðeins giftar konur, sem vinna utan heimilis, heldur einnig giftar konur, sem vinna að sínu eigin heimili. Og það er sannarlega ekki undarlegt, að þetta mál hljóti fylgi almennings, þar sem sú regla, sem nú er fylgt í þessum efnum, er fráleit.

Ég vil nefna tvö dæmi þessu til sönnunar. Við skulum gera ráð fyrir, að maður hafi 32 þús. kr. í tekjur. Þá verður hann að greiða 4660 kr. í skatta. Maðurinn getur ekki fengið meiri vinnu eða hærri laun, en konunni býðst vinna, sem hún fær 18 þús. kr. fyrir, þ. e. a. s., maðurinn og konan hafa 50 þús. kr. samanlagt í laun. Af þessu verða þau að greiða í skatta 11259 kr. Sú skattahækkun nemur 6600 kr., sem kemur til af vinnu húsmóðurinnar, m. ö. o., það verður að greiða 6600 kr. í skatta af þessum 18 þús. kr., sem hún hefur í tekjur, eða rúmlega þriðjung þeirra. Ef þessi kona er ógift, verður hún að greiða 1960 kr. í opinber gjöld af þessum tekjum, en af jafnmiklum tekjum verður hún að greiða sem gift kona 6600 kr., eða meira en þrefalda þá upphæð. Ef þau eru ekki gift, verða þau að greiða samanlagt 7285 kr., en verða að greiða 11259 kr., af því að þau eru hjón, þ. e. a. s., hjónabandið kostar þau rúmlega 50% hækkun. Þetta er ósköp einfalt mál og ljóst. Hér er um að ræða ranglæti, sem úr verður að bæta. Það er ekki rétt að leggja hærra á giftar konur en ógiftar. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm., hvort hann treysti sér til að ljúka ræðu sinni fljótlega?) Já, ég er alveg að verða búinn.

Ég skal nefna annað dæmi, að vísu með öðrum tölum, en alveg hliðstætt.

Maður hefur sjálfstæðan atvinnurekstur, er t. d. einyrkjabóndi, og hefur 20 þús. kr. tekjur. Hann hefur ráðskonu, sem hann greiðir 20 þús. kr. í laun. Þá nema skattar þeirra beggja 4508 kr. Ef þau nú gifta sig, þá hækkar skattur þeirra samanlagður upp í 7189 kr., eða um 59%. Þó eru tekjur þeirra óbreyttar og vinnan sú sama. Einungis það, að þau hætta að greiða skatta sína sitt í hvoru lagi, gerir það að verkum, að þeir hækka um 59%.

Þetta er svo augljóst ranglæti, að við svo búið má ekki standa. Þarna eru ýmsar leiðir til bóta. en þessi, sem hér er bent á, er að mínum dómi sú heppilegasta, sem um er að ræða.

Ég er auðvitað reiðubúinn til viðræðna við fjhn. um þetta mál og vil vinna að því, að það fáist meiri hluti fyrir heppilegri lausn þess, en það virðist hins vegar vera stefna meiri hlutans að viðhalda ranglætinu og vilja ekki ræða um þetta, og þá er bezt að fá atkvæði um málið.