19.01.1952
Neðri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

22. mál, Akademía Íslands

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Meiri hl. n. hefur skilað séráliti í þessu máli. Ágreiningur var ekki um það í n., að full ástæða væri til að stuðla að því að varðveita íslenzka tungu, heldur liggja til þess aðrar ástæður. Það kemur fram í grg. með þessu frv., sem hér er til umræðu, að erlendar fyrirmyndir eru hafðar í huga við samningu þess, því að vitnað er til sams konar stofnana í Frakklandi og Svíþjóð, en þær hafa starfað um langan tíma. Hins vegar hefur n. ekki fengið í hendur nein skilríki, sem sanni henni nægilega ljóst, á hvern hátt slíkar stofnanir hafi starfað erlendis. Við í meiri hl. teljum æskilegt, að nánari upplýsingar liggi fyrir um þetta mál, áður en ráðizt er í að stofna akademíu á Íslandi. — Enn fremur liggur fyrir þessari hv. d. annað frv. líkt þessu. Er það frv. um listarráð ríkisins, en í því frv. er gert ráð fyrir, að til þeirrar stofnunar verði valið á annan hátt en til Akademíunnar. Menntmn. hefur einnig haft þetta frv. til athugunar, og sendi hún það Bandalagi íslenzkra listamanna til umsagnar. Leggur sá félagsskapur til, að ákvörðun um stofnun ráðsins verði frestað um sinn.

Nú má segja, að í nokkuð mikið sé ráðizt, ef stofna á í einu tvær stofnanir svipaðs eðlis. Við í meiri hl. leggjum því til, að þetta mál verði athugað nánar, og ef Alþ. vill samþ. að stofnsetja akademíu, þá verði það rannsakað, hvort ekki væri hægt að láta hana annast fleiri verkefni en frv. gerir ráð fyrir. Háskólinn hefur í umsögn sinni um málið getið þeirra verkefna, er hann telur æskilegt að Akademían sinni. Það er ljóst af þessari álitsgerð, að verið er að vinna að mörgum þessum verkefnum, og verður ekki annað séð en því starfi verði haldið áfram, enda þótt þetta mál verði ekki lögfest á þessu þingi. — Við í meiri hl. leggjum því til, að málið verði afgreitt með þeirri rökstuddu dagskrá, sem prentuð er á þskj. 644.