16.10.1951
Neðri deild: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

26. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Segja má, að á núverandi skattafyrirkomulagi séu þrír meginágallar. Í fyrsta lagi er hlutur óbeinu skattanna í tekjuöflun ríkisins of hár. Í öðru lagi er verulegur hluti óbeinu skattanna, þ. e. söluskatturinn, lagður jafnt á alla vöru og þjónustu, þannig að hann lendir jafnt á óhófsvöru sem neyzluvöru, sem almenningur getur ekki án verið, og kemur þannig mjög illa niður á efnaminni stéttunum. Í þriðja lagi hvíla beinu skattarnir mjög misþungt á einstökum stéttum og gjaldendum.

Í engu nálægu landi mun hlutdeild óbeinu skattanna í heildarsköttum til ríkisins vera jafnhá og hér. Samkvæmt fjárlögum þessa árs er allur tekju- og eignarskattur áætlaður aðeins 8% af öllum tekjum ríkisins, tollar, söluskattur og aðrir óbeinir skattar nema 5 sinnum hærri upphæð en beinu skattarnir, og gróði af sölu tóbaks og áfengis nemur tvöfalt hærri upphæð en beinu skattarnir. Í Noregi, Danmörk, Svíþjóð og Bretlandi munu beinu skattarnir nema rúmum helmingi allra tekna ríkis og sveitarfélaga. Hér afla sveitarfélögin sinna tekna fyrst og fremst með beinum sköttum, en óbeinu skattarnir eru stærsti tekjuliður ríkissjóðs, svo að þýðing þeirra fyrir alþýðu manna er mun meiri hér en í nágrannalöndunum. Um óbeina skattinn er það að segja hér, að hann er ekki einungis of hár almennt, heldur er í dreifingu hans ekki gerður nógu mikill munur á óhófsvöru og nauðsynjavöru. Ýmsir aðrir skattar, svo sem erfðafjárskattur o. fl., eru aftur á móti of lágir hér. Ófremdarástandið í þessum efnum verður augljóst, þegar þess er gætt, að almenningur stynur nú undir beinu sköttunum, enda þótt hlutdeild þeirra í skattabyrðinni sé mun minni hér en í nágrannalöndunum. Og skattarnir hvíla svo misþungt á einstökum stéttum þjóðfélagsins, að óviðunandi er. Hinir launalægstu verða að telja hvern eyri fram til skatts, en atvinnurekendur hafa skilyrði til að skjóta verulegum tekjum undan skatti, og þeir notfæra sér áreiðanlega þau skilyrði. Þetta vandamál er þó víðar fyrir hendi en hér. Ég skal geta þess, að fyrir nokkrum árum fór fram rannsókn í Danmörku á því, hve hinar einstöku stéttir skytu miklum hluta tekna sinna undan skattframtali. Niðurstaðan varð sú, að tæpum 30% teknanna væri skotið undan skattframtali við landbúnaðinn, tæpum 20% í iðnaðarstéttinni, en rúmlega 10% í öðrum atvinnugreinum. Nú skal ég ekki fullyrða neitt um það, hvort svipuð niðurstaða kæmi í ljós hér, ef rannsókn yrði gerð á þessum málum, og að sjálfsögðu ber þess að gæta, að slíkar tölur sem þessar eru aldrei óyggjandi. En það mun þó óhætt að fullyrða, að heildarupphæð þeirra tekna, sem skotið er undan skatti hérlendis, er sízt minni að tiltölu en í Danmörku. Ástandið í þessum málum er og hefur verið um langt skeið þannig, að brýna nauðsyn ber til endurskoðunar á skattalöggjöfinni.

Fyrir nokkru var skipuð milliþinganefnd til að fjalla um þessi mál og til að gera till. til úrbóta í þessu efni. Mér hefur verið tjáð, að nú séu liðin 1–2 ár síðan þessi nefnd skilaði sínum till. til ríkisstj. Mér þætti vænt um, ef einhver hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um það hér, hvað liði niðurstöðum þessarar nefndar, og í því sambandi væri fróðlegt að heyra um það, hvort ríkisstj. hefði í undirbúningi breyt. á skattalöggjöfinni. Það væri einnig fróðlegt að heyra, hvort hv. alþingismenn gætu fengið aðgang að niðurstöðum hv. nefndar.

Þetta frv., sem við Alþýðuflokksmenn í Nd. höfum lagt fram, fjallar um einn þátt þessa máls. Það er ekki einungis svo, að óbeinu skattarnir hvíli of þungt á almenningi, heldur er byrði beinu skattanna of þung líka, og þeir hvíla tiltölulega þyngra á mönnum nú en þeir gerðu fyrir 2–3 áratugum. Ég hef með aðstoð skattstofunnar gert nokkurn samanburð á sköttunum 1935 og nú. Meðaltekjur verkamanna 1935 munu hafa numið um 2500 kr. á ári, og hjón með 3 börn á framfæri þurftu þá engan skatt að greiða af þessum tekjum. Af 25 þús. kr. árstekjum á árinu 1950, en nærri lætur, að það séu sambærileg laun 2500 krónunum 1935, þurftu hjón með 3 börn á framfæri að greiða 265 kr. í skatt, eða rúmlega 1% af tekjum sínum. Fjölskyldufaðir, kvæntur, með 3 börn á framfæri, sem hafði 3500 kr. árstekjur, var á árinu 1935 svo til skattlaus, þurfti aðeins að greiða 3.50 kr., en nú verða hjón með sama barnafjölda og 35 þús. kr. tekjur að greiða tæpar 800 kr. í skatt, eða 2–3% af tekjum sínum. Af 4500 kr. árstekjum þurftu hjón með sömu ómegð að greiða 17 kr. í skatt 1935 og voru því raunverulega skattlaus, en nú verða sömu hjón að greiða 1740 kr. í skatt af 45 þús. kr. árstekjum, eða um 4% teknanna. Sé nú tekinn samanburður á enn hærri launum, kemur í ljós, að 1935 þurftu sömu aðilar að greiða 60 kr. í skatt af 6 þús. kr. árstekjum, eða 1%, en nú verða þeir að greiða 6056 kr. af sambærilegum tekjum, eða um 10% teknanna. — Af þessum dæmum er augljóst, að hjón með 3 börn þurfa nú að greiða tiltölulega mun hærri beina skatta en árið 1935, og enginn vafi leikur á því, að þau greiða enn þá hærri óbeina skatta nú en þá. Skattabyrði þessa fólks hefur því þyngzt verulega síðustu áratugina. Hins vegar hefur skattabyrði atvinnurekenda ekki þyngzt að sama skapi.

Eitt af því, sem gera má til þess að létta skattabyrði almennings, er að hækka persónufrádrátt þann, sem nú er heimilaður í lögum. Í þessu frv. er lagt til, að persónufrádráttur einstaklingsins verði hækkaður úr 3060 kr. í 6000 kr., persónufrádráttur hjóna úr 6120 kr. í 12000 kr. og frádráttur vegna hvers barns úr 2380 kr. í 5000 kr. í Reykjavík, en utan Reykjavíkur er barnafrádrátturinn 2040 kr. Orsök þess, að beinu skattarnir hvíla nú þyngra á almenningi en 1935, er sú, að persónufrádrátturinn hefur hækkað tiltölulega minna en tekjurnar þrátt fyrir þann umreikning, sem beitt er við skattálagninguna. 1935 nam persónufrádráttur einstaklings 32% af venjulegum verkamannslaunum og persónufrádráttur hjóna 60% af þessum tekjum. Á s. l. ári var persónufrádráttur einstaklings hins vegar aðeins 12% teknanna og persónufrádráttur hjóna um ¼ teknanna. Úr þessu ber nauðsyn til að bæta. Það ætti að vera skilyrðislaus krafa, að menn þyrftu ekki að greiða skatt af þurftartekjum. Þær eiga að vera skattlausar, enda var það sjónarmið viðurkennt 1935, er núgildandi skattalög voru sett. Síðan hefur löggjöfinni hrakað mjög á þessu sviði. Það, sem ætti raunar að gera í þessu máli, væri að ganga jafnlangt nú í að létta skatta á þurftartekjum og var gengið með l. frá 1935. Það er þó ekki gengið alveg svo langt í þessu frv., og verður því með engu móti sagt, að of langt sé hér gengið. Ef frv. hefði verið orðið að l., þegar skattur var lagður á á þessu ári, hefði fjölskyldufaðir með 25 þús. kr. árstekjur og 3 börn á framfæri aðeins orðið að greiða 19 kr. í tekjuskatt, en verður nú að greiða 265 kr. Raunverulega yrði verkamaður, kvæntur, með 3 börn, skattlaus, ef þetta frv. næði fram að ganga. Og verkamaður með 3 börn á framfæri sínu á engan tekjuskatt að þurfa að greiða í ríkissjóð. Af 35 þús. kr. tekjum heimilisföður með 3 börn hefði skatturinn lækkað úr 797 kr. í 312 kr., eða um tæp 40%, ef frv. hefði verið orðið að l. Af 45 þús. kr. tekjum hefði skatturinn lækkað úr 1740 kr. í 892 kr., eða um rúm 50%. Því veldur að sjálfsögðu gerð skattstigans, að prósentutala lækkunarinnar skuli fara hækkandi með hækkandi tekjum.

Hér er um að ræða bráðnauðsynlega breytingu. Það er hin mesta óhæfa, að þurftartekjur verkamanna skuli ekki vera skattlausar, og samþykkt þessa frv. er því brýnt hagsmunamál verkamanna. En það er ekki nóg að gera þessa leiðréttingu. Álagningu útsvara þyrfti jafnframt að breyta. Ef útsvarsstiginn í Reykjavík er athugaður, kemur í ljós, að einhleypur maður með 25 þús. kr. árstekjur hefur orðið að greiða tæpar 2300 kr. í útsvar í ár. Slíkar tekjur eru hreinar þurftartekjur fyrir hjón og duga naumast til brýnustu þarfa. Engu að síður er hjónunum gert að borga af þeim 2020 kr. í útsvar, og er það aðeins 280 kr. lægri upphæð en einhleypur maður verður að borga af sömu tekjum. Síðan lækkar útsvarið um 280 kr. fyrir eitt barn á framfæri, 260 fyrir annað barnið, 240 fyrir þriðja barnið o. s. frv. Jafnvel hjónum með sex börn á framfæri sínu og 25 þús. kr. árstekjur hefur verið ætlað að greiða 550 kr. í útsvar, og ættu allir að geta séð, hve slíkt er fráleitt. Af 35 þús. kr. árstekjum var útsvarið tæpar 4000 kr. og lækkun vegna barna 320 fyrir fyrsta barn, 640 fyrir annað, 960 fyrir þriðja o. s. frv. Og við þetta útsvar bætist svo oft hér í Reykjavík álag, sem nemur 5% af útsvarsupphæð, og þar á ofan nú síðast 10% aukaútsvar. Úr þessu ber brýna nauðsyn til að bæta, jafnframt því að l. eru sett um hækkun persónufrádráttar.

Þungi beinu skattanna á almenningi er sérstaklega tilfinnanlegur nú vegna þunga hinna óbeinu skatta og vegna þeirra skilyrða, sem atvinnurekendur hafa öðrum fremur til að skjóta tekjum undan skatti. Því er ekki að neita, að samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér nokkurn tekjumissi fyrir ríkissjóð. Afkoma hans er nú á hinn bóginn þannig, að hann þolir slíkan tekjumissi, auk þess sem beinast lægi við að bæta tekjumissinn upp með bættu skattaeftirliti og með því að draga úr tekjuþörfinni með ýmiss konar sparnaði í ríkisrekstrinum. En það er eins og aldrei megi nefna skattalækkun hjá láglaunafólki á nafn, svo að ekki sé hún talin ófær og ríkissjóði bráðhættuleg.

Að síðustu óska ég eftir því, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.