16.10.1951
Neðri deild: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

26. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. V-Húnv., að frv. þetta, ef að l. yrði, mundi ekki aðeins hafa áhrif á skatta láglauna fólks, heldur og á skatta þeirra, sem hærri tekjur hafa. En aðalatriði málsins er, og það veit ég, að hv. þm. hefur komið auga á, að hækkun persónufrádráttar eins og hér er gert ráð fyrir ylli hlutfallslega mestri lækkun á sköttum láglaunafólks, því að skattar þess mundu falla að mestu niður. Hitt er svo annað mál, að gerð skattstigans veldur því, að hlutfallsleg skattalækkun yrði meiri hjá tekjuháum mönnum en tekjulágum. Og ef mönnum þykir þessi hækkun persónufrádráttar valda of mikilli skattalækkun á hátekjumönnum, ætti að vera hægt að breyta skattstiganum og útiloka með því ávinning hátekjumanna, og vilji hv. þm. V-Húnv. bæta ástandið í skattamálunum án þess þó að bæta aðstöðu hátekjumanna, ætti hann að vinna að þessari breyt. á skattstiganum. Ég treysti því, að hv. þm. V-Húnv. beri þá fram till. um það, ef honum sýnist ástæða til, en láti ekki þessa staðreynd valda því, að hann fylgi ekki þessu réttlætismáli. En kjarna þessa máls tel ég, að ef þetta frv. verður samþ., verða þurftartekjur verkamanna skattlausar eins og þær voru t. d. 1935. Það er mergur málsins. Til þess að ná því marki er hækkun á persónufrádrættinum að sumu leyti einfaldasta leiðin, þó að aðrar leiðir séu til, m. a. að breyta skattstiganum.

Ég er ekki sammála hv. þm. V-Húnv. um það, að það muni ekki verkamann nokkuð miklu, að felldur sé niður 250–500 kr. skattur af hans lágu tekjum, þegar þess er gætt, að 25–30 þús. kr. tekjur verkamanns með meðalfjölskyldu eru beinar þurftartekjur. Þegar hann á fullt í fangi með að sjá sér og sínum farborða af þessum tekjum, þá munar mikið um það.

Sjúkrasamlagsiðgjöld finnst mér ekki rétt að taka til samanburðar í þessu sambandi. Fyrir það, sem verkamaður greiðir í sjúkrasamlag, fær hann hlunnindi, sem verða honum til sparnaðar á útgjöldum og fjölskyldu hans í sjúkdómstilfellum. Það kemur því mikið í aðra hönd vegna þeirra gjalda. En sama verður ekki sagt um skattana með beinum hætti.