15.10.1951
Neðri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

36. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga o. fl.

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér um ræðir, fer fram á að setja aftur í lög fyrirmæli, sem voru áður í lögum. Þau lög áttu að tryggja, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem vildu vinna að útrýmingu heilsuspillandi íbúða, gætu fengið aðstoð frá ríkinu. Ákvæði þessi voru í lögum, sem fjölluðu einnig um samvinnubyggingar og verkamannabústaði. Þetta átti að vinna bug á húsnæðisvandræðunum og beina í þá átt bæði samtökum verkamanna um verkamannabústaði og samtökum um samvinnubústaði. Hins vegar var árið 1948 raunverulega felldur úr lagabálkur, sem skyldaði að veita bæjar- og sveitarfélögum lán. Var það gert með því að segja, að engir peningar væru til og að ríkissjóður hefði ekki efni á að veita þessi lán. Var ákveðið með 1. gr. l. frá 1948, að skylduákvæðin kæmu ekki til framkvæmda nema að svo miklu leyti sem veitt væri til þess á fjárlögum. Hefur hvert frv., sem við sósíalistar höfum flutt á mörgum undanförnum þingum, verið svæft og allar till. um að veita þetta fé á fjárl. drepnar. Nú hefur frv. þetta verið flutt á ný. Er það nú flutt að því leyti undir ólíkum kringumstæðum og undanfarin ár, að nú er ekki hægt að bera því við, að ekki séu til peningar til að veita til bæjar- og sveitarfélaga. Þess vegna ættu nú, ef það hefur verið trú þm., að peningaleysið hafi valdið því, að frv. hefur ekki náð fram að ganga, allar aðstæður að vera fyrir hendi, svo að þeir geti greitt atkv. með frv. Að mínu áliti hefur hins vegar öll þessi 3 ár verið kleift að framkvæma þessi lög. Þegar lögin voru sett 1946, var áætlað, að það tæki 4 ár að útrýma þeim íbúðum, sem væru mest heilsuspillandi. En sú hefur verið stefnan s. 1. 4 ár, að af hálfu hins opinbera hefur verið reynt að hindra, að vinnuaflið væri notað til útrýmingar heilsuspillandi íbúða.

Hv. þm. muna eftir, að tekin var upp barátta af hagfræðingum gegn fjárfestingarstefnunni. Afleiðingar þess eru þær, að ríkisstj. hefur háð baráttu og reynt að draga úr byggingarframkvæmdum, svo að húsnæði fer versnandi og atvinnu- og húsnæðisvandræði hafa orðið sárari. Atvinnuleysið er ef til vill minnst hér í Reykjavík, en það er um allt land og er orðið landlægt böl. Á sama tíma og húsnæðisvandræðin eru hin verstu, eru byggð þau stærstu og íburðarmestu hús, sem nokkru sinni hafa verið byggð hér á okkar landi, en fólk, sem þarf þak yfir höfuðið og vill byggja, er hindrað í að gera það. Þjóðin er neydd til að flytja inn óþarfavörur og sólunda bátagjaldeyrinum í lúxusvörur, en hindruð í að flytja inn nauðsynlegar vörur, t. d. byggingarvörur. Bankarnir eru líka látnir kreppa að fólkinu með því að skapa lánsfjárkreppu, með þeim afleiðingum, að fjöldi fólks er að missa hús sín og öðrum gert fjárhagslega ókleift að leggja út í byggingar. Eru hér samræmdar aðgerðir bankaráðs og ríkisráðs um að torvelda mönnum að koma upp þaki yfir höfuðið. Það er ekki tilviljun og ekki að undra, þótt komið hafi fram margar till. hér á Alþ. um veitingu lánsfjár. Það, sem mér finnst á skorta, er skilningur á, hvar orsök meinsins liggur, að lánsfjárkreppan er heimatilbúið böl. Menn ganga með þá hugmynd, að orsökin sé peningavandræði, og gera sig seka um peningadýrkun, en skilja ekki, hvaða skapandi afl þarf. Það er vitanlegt, að þó að nóg væri til af peningum, væri ekki byggt fyrir þá. Menn verða að muna, að peningar eru ekki annað en ávísun á afl. Það er ekki nóg að hafa fullar hendur fjár, en engan mann til að byggja. Það mætti minnast á, að hér á árunum þegar mest var byggt, vildu bankarnir ekki taka við sparifé. Hvers vegna vildu bankarnir ekki taka við sparifé? Vegna þess, að allir voru að vinna. Peningarnir eru aðeins ávísun á afl, vinnuafl, efni og tæki. Nú höfum við nægilegt afl, þar sem verkamenn ganga atvinnulausir. Við höfum nægilegan gjaldeyri, en hann er notaður í óþarfa. Hæstv. ríkisstj. lætur flytja inn fyrir hann plastikdót. En ríkisstj. er ekki ráðandi hér, henni er fyrirskipað að hafa „kontrol“ með því, hve mikið sé byggt. Það eru Bandaríkin, sem ráða fjárfestingunni á Íslandi. Utan frá er reynt að hindra, að Íslendingar geti notað tæki sín, vinnuafl og gjaldeyri til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Það, sem þarf að gera, er, að við hefjumst handa og rísum í fullum krafti gegn þessari röngu utanaðkomandi stefnu um fjárfestingu. Ég vil minna á, að við megum ekki flytja inn til okkar lands stefnur, sem eiga heima í Englandi eða Bandaríkjunum, þar sem þjóðin erfir 4/5 hluta bygginganna, en við tökum við allslausu landi, landi, sem þarf að byggja upp, landi, sem var fyrir skömmu snautt af öllu nema þeim andlegu verðmætum, sem aldrei hefur tekizt að drepa í okkar þjóðarsögu. Við verðum því að hafa aðra stefnu í fjárfestingarmálum okkar og megum ekki láta lærða menn í öðrum löndum, sem ekki skilja okkar aðstæður, hafa hér áhrif. Ég held þess vegna, að þörf væri á að brjóta við blað í öllum málum, er snerta fjárfestinguna: Álít ég, að hæstv. ríkisstj. ætti nú að hjálpa þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem verst eru sett í þessum efnum. Í grg. frv. höfum við rakið, hvernig ástandið fer versnandi, — að fleiri börn búa nú í bröggum en fyrr. Ég skil ekki, hvernig ráða má bót á þessu, ef ríkisvaldið gengur eigi þar í broddi fylkingar. Ég vil minna á, að ríkisstj. ákvað á s. l. Alþ. að verja 50 millj. kr. úr mótvirðissjóði til Landsbanka Íslands. Með því fé hefði verið hægt að útrýma öllu heilsuspillandi húsnæði á Íslandi. Vinnuaflið bíður, tækin bíða. Væri og hægt fyrir þann gjaldeyri, sem þjóðin hefur, að flytja inn meira byggingarefni en gert er, og væri það gert, ef þjóðin væri frjáls að því og gjaldeyrinum væri ekki ráðstafað öðruvísi. Vona ég, að þeir þm., sem áður hafa drepið eða svæft þetta frv., sjái, að þörf er á að breyta um stefnu.

Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjárhagsnefndar.