13.12.1951
Neðri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

53. mál, framlag til veðdeildar Landsbanka Íslands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. Borgf. vil ég upplýsa, að sá dráttur, sem orðið hefur á afgreiðslu þessa máls, er ekki alls kostar sök n. Frv. var sent Búnaðarbankanum til umsagnar fljótlega eftir að það hafði borizt okkur í hendur. Hins vegar lá málið nokkuð lengi í bankanum, og stafaði það af því, að stjórn bankans vildi vega og meta þær till. aðrar, sem fram hefðu komið varðandi framlög til bankans. Af þeim sökum beið stjórn bankans með afgreiðslu málsins. Það er því ekki allt okkar sök sá dráttur, sem hefur orðið á afgreiðslu málsins. Aftur á móti skal ég fúslega játa, að málið hefði getað farið fyrr frá okkur en orðið hefur raunin á.