19.10.1951
Neðri deild: 15. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

65. mál, sjúkrahús

Flm. (Pétur Ottesen):

Eins og getið er í grg. þeirri, sem fylgir frv. þessu, þá hefur sá skilningur verið lagður í ákvæði gildandi laga um framlag ríkisins til sjúkrahúsbygginga, að þar komi ekki til greina annar kostnaður en falinn er í sjúkrahúsbyggingunni sjálfri. Af því leiðir, að ríkisframlagið nær ekki til styrktar til nauðsynlegra verkfæra- og áhaldakaupa eða til kaupa á nauðsynlegum húsbúnaði til slíkra stofnana. Nú er svo komið, að kostnaður við húsbúnað, nauðsynleg lækningaáhöld og annað þess háttar er verulegur hluti stofnkostnaðar sjúkrahúsbygginga. Stofnkostnaður nýtízku sjúkrahúss er nú orðinn það mikill, að þeim aðilum, sem standa að slíkum byggingum, er ókleift að geta hrundið slíku í framkvæmd með núverandi fjárhagslegum stuðningi ríkissjóðs. Nú sem stendur er verið að smíða a. m. k. 3 stór sjúkrahús, sem búið er að reisa, en fjármagn skortir til húsbúnaðar, svo að hægt sé að taka þau í notkun. Slík er afleiðing af fjárskorti þeirra aðila, sem standa að slíkum byggingum. Slíkt ástand er í þessum efnum mjög slæmt og er mikið vandamál, og ber hér til brýna nauðsyn, að ráðið sé fram úr. Í tilefni af þessu er þetta frv. flutt, að andvirði nauðsynlegs húsbúnaðar, áhalda og lækningatækja verði tekið með, er ákveðið er framlag ríkisins til slíkra stofnana.

Mér er kunnugt um, að kostnaður við kaup á nauðsynlegum lækningatækjum og húsbúnaði til sjúkrahússins á Akranesi mun nema um 700–800 þús. kr. Þetta er mikill kostnaður. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, hefur verið lagt til, að sú breyt. verði á gerð, að þessi kostnaðarliður sé tekinn með í stofnkostnaði sjúkrahúsa og sjúkraskýla. Í þessu sambandi vil ég benda á, að þetta fyrirkomulag er í fullu samræmi við yngri löggjöf varðandi þessi efni, t. d. skólabyggingar. Þar eru reiknuð bæði borð og bekkir og annað í sambandi við kennsluna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál á þessu stigi. Það er skoðun manna, að heilbrigðismálin hafi orðið útundan á undanförnum árum, er miðað er við það, hve ríkið hefur lagt af mörkum til annarra mála. Það hafa verið háværar raddir um þetta, og hefur verið viðurkennt hér á Alþ., að heilbrigðismálin hafi verið sett skör lægra en önnur mál.

Ég býst við, að þetta frv. eigi heima í heilbr.- og félmn. Nú að undanförnu hefur slíkum málum verið vísað þangað, og geri ég það að till. minni.