07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

65. mál, sjúkrahús

Pétur Ottesen:

Eins og rétt var að senda þetta mál til landlæknis til umsagnar, þá nær það ekki nokkurri átt að láta það, að á hans umsögn stendur, standa í vegi fyrir því, að málið fái afgreiðslu, en eins og þegar hefur verið upplýst, hefur orðið mikill dráttur á því, þar sem málið var sent til n. 19. okt. í haust.

Ég vænti þess fastlega, að nefndin geri þegar gangskör að því, að málið verði afgr., og gefi Alþingi tækifæri til að segja álit sitt um málið, en ef það verður látið liggja í salti miklu lengur, fæst ekki þingvilji um málið.