22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

67. mál, laun skálda, rithöfunda og annarra listamanna og listarráð

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Örfá orð nægja til að mæla með þessu frv., þar sem hv. dm. er þetta mál kunnugt frá þremur síðustu þingum. — Um alllangt skeið hafa verið mjög óheppileg og óeðlileg átök um úthlutun þess fjár, sem Alþ. veitir árlega á fjárlögum til skálda, rithöfunda og annarra listamanna. Meginorsök þessara átaka er sú, að aldrei hefur verið komið fastri skipan á þessi mál, það hafa aldrei verið settar fastar reglur, sem fylgja skyldi við skiptingu fjárins. Þetta frv. leggur til, að slíkar reglur verði settar. reglur, sem ættu að gera úthlutun fjárins bæði einfaldari og formfastari en nú er. Í því er lagt til, að þeim, sem verða aðnjótandi þessa fjár, verði skipt í fjóra flokka. Í fyrsta lagi skuli veita sérstök heiðurslaun til allt að 12 manna, 18000 kr. hverjum, en afgangi fjárins síðan skipt niður í þrjá flokka, og skuli upphæðir einstakra fjárveitinga í hverjum flokki vera 9000 kr. til viðurkenndra listamanna, 6000 kr. til kunnra listamanna og 3000 kr. til viðurkenningar efnilegum byrjendum fyrst og fremst. — Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að listamenn, sem notið hafa heiðurslauna í 5 ár, njóti þeirra ævilangt og skuli þeir skipa listarráð, sem eigi að verða menntamálaráðuneyti og menntamálaráði til ráðuneytis um mál, sem varða listir. Gert er ráð fyrir, að Alþ. úthluti heiðurslaununum. en menntamálaráð annist aftur á móti úthlutunina að öðru leyti. — Ég er sannfærður um það, að það yrði til mikilla bóta, ef þessu máli yrði komið í fastari skorður en verið hefur, og yrði það til að lægja þann hvimleiða ágreining og þær deilur, sem hafa staðið um úthlutun þessa fjár. Mér er ljóst, að um það má deila, í hve mörgum flokkum fénu skuli úthluta, en um hitt verður varla deilt, að rétt sé að ákveða tölu þeirra, svo sem gert er í þessu frv.

Ég óska þess svo, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.