25.10.1951
Neðri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

71. mál, ráðstöfun fjár úr mótvirðissjóði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frv. — Það má segja, að þegar athuguð eru þau mál, sem koma fram á Alþ., er eitt, sem setur svip sinn á þau öðru fremur, og er það frv. og till. um að hækka lánsfé til ýmissa hluta. Ég hygg, að þessar till. séu nú orðnar milli tíu og tuttugu. Þetta er ekki óeðlilegt, þegar litið er til þeirrar lánsfjárkreppu, sem er í landinu. Í sambandi við það má segja, að það sé síður en svo óeðlilegt að auka lánsféð til landbúnaðarins, því að þar mun fjárkreppan ekki vera minni en annars staðar. Þegar litið er til þessara mála, eins og þau hafa verið undanfarið, þá er þetta ekki nema eðlilegt, því að bæði hefur verðlag stöðugt farið hækkandi undanfarin ár, og þarf því að leggja miklu meira fé í framkvæmdir en áður, og svo hefur löggjöfin, sem tryggja átti fé til landbúnaðarins, ekki verið framkvæmd nema að nokkru leyti.

Það er orðið langt síðan Búnaðarbankinn var stofnaður, og stofnun hans var gott spor í rétta átt á sínum tíma, en þegar kom fram á stríðsárin, fór að bera á því, að það fé, sem Búnaðarbankinn hafði til umráða, var of lítið, miðað við verðlag á þeim tíma. Og þegar kom að lokum styrjaldarinnar, þá var í þessum þremur deildum bankans, byggingarsjóði, nýbýlasjóði og smábýladeild, árið 1945 samtals um 4 millj. kr. Þá var sýnt, að það þurfti að hækka þessi fjárframlög, ef ekki átti að verða alger stöðvun á lánveitingum. Ástæðan til þess, að lánsfjárkreppan kom ekki í ljós í stríðinu, var sú, að þá voru innstæður bankanna notaðar. Það var á Alþ. 1945, að þm. Sósfl. fluttu till. um að bæta úr þessu, en þær till. hlutu ekki þingfylgi. Málinu var vísað til nýbyggingarráðs, og milli þinga 1945 voru svo samin tvö frv., annað um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum og hitt um ræktunarsjóð, og var þar gert ráð fyrir að hækka fjárveitingar til þessara hluta. Sú breyt. var þó gerð, að stofnaður var einn byggingarsjóður, og var hann stofnaður upp úr hinum þrem fyrrnefndu sjóðum, sem þá höfðu ekki að geyma nema 3–4 millj. kr., en ríkissjóður skyldi þá strax leggja til 6–7 millj. kr., til þess að stofnfé sjóðsins yrði 10 millj. kr., eins og ákveðið var í l. Auk þess skyldi ríkissjóður leggja til byggingarsjóðs 2.5 millj. kr. á ári í næstu 10 ár. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hefur byggingarsjóði bætzt við nokkurt fé. Þó lá það í augum uppi mjög fljótlega, að þetta fjárframlag var of lítið, og þess vegna var ákveðið í þessum l. að heimila að gefa út bankavaxtabréf. Var þetta gert til þess að hægt væri að greiða vaxtamismun á innlánum og útlánum sjóðsins, þ. e. vöxtum, sem sjóðurinn þurfti að greiða af lánum, sem hann tók, og vöxtum, sem hann fékk af útlánum sínum, því að útborgaðir vextir voru hærri en þeir, sem sjóðurinn fékk innborgaða. Svo hefur farið, að þessi vaxtabréfaútgáfa hefur aldrei orðið að veruleika, en fé það, sem hefur runnið til landbúnaðarins síðan, hefur ekki orðið það mikið, að það hefur hrokkið skammt.

Ég vil í sambandi við þetta gefa þær upplýsingar, að nýbyggingarráð hefur gert áætlun um útlán sjóðsins á árunum 1947–57 og gerði þar ráð fyrir, að stofnfé byggingarsjóðs mundi vaxa svo mikið, að það væri 1951 um 18 millj. kr. og 1957 um 24 millj. kr. Var ætlunin sú að lána úr sjóðnum um 8 millj. kr. á ári næstu árin. Þetta var miðað við það verðlag, sem þá var, en ekki það verðlag, sem nú er orðið á hlutunum. Þá var ekki enn orðið vart þeirrar lánsfjárkreppu, sem nú er í landinu, þrátt fyrir það að verðlag hefði farið hækkandi.

Reyndin er nú sú, að það hefur aðeins tekizt að útvega litlu meira fé en stofnfé sjóðsins nemur, og er búið að lána úr sjóðnum um 27 millj. kr., en hefðu l. verið framkvæmd, hefði hann nú verið búinn að lána yfir 40 millj. kr., en auk þess hefur verðlag hækkað um helming síðan þessi áætlun var gerð.

Mjög svipað er að segja um ræktunarsjóð, sem átti að annast líkar lánveitingar. Lánveitingar hans nema nú um 20 millj. kr., sem er ekki nema lítið af því, sem honum var ætlað að lána.

Ég hef nú lýst nokkuð, hvernig ástandið er, og það þarf að bæta úr þessu. Ég vil benda á, að það hefur verið gerð áætlun um fjárfestingarþörf landbúnaðarins næstu 10 árin. Hún sýnir bezt, hve miklu fjármagni er þörf á að veita til landbúnaðarins næstu 10 árin. Áætlunin birtist í Árbók landbúnaðarins, 2. hefti fyrir þetta ár. Af því að ég veit, að margir þm. munu ekki hafa kynnt sér áætlun þessa, ætla ég að lesa nokkuð upp úr henni, með leyfi hæstv. forseta.

Samkv. áætlun þessari þarf um 120 millj. kr. til bústofnsaukningar, 130 millj. kr. til ræktunar, 230 millj. kr. til búvéla, 220 millj. kr. til íbúðarhúsa, 110 millj. kr. til heyvinnsluvéla, 135 millj. til fjósa og auk þessa nokkrir smærri liðir. Samtals eru þetta 1000 millj. kr., eða um 100 millj. kr. á ári. Nú er jafnframt gert ráð fyrir, að ekki þurfi að taka allt þetta fé að láni. Lánsfjárþörf er áætluð nálægt 15 millj. til bústofnsins, 30 millj. til ræktunar, 370 millj. til bygginga í þessi tíu ár og til véla 150 millj. kr., eða samtals til landbúnaðarins í þessi tíu ár 530 millj. kr., eða 53 millj. kr. á ári.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa áætlun. Hún sýnir, hvað þessir menn áætla að landbúnaðurinn þurfi mikið fjármagn til þess að geta þróazt á eðlilegan hátt. En samkvæmt áætlun þessa sérfræðings er um meira að ræða, því að það er gert ráð fyrir, að framleiðslan aukist stórkostlega vegna þessarar aðstoðar. Framleiðsluaukningin gæti numið 74.5 millj. kr. Það gæti sparað verulega innflutning á gjaldeyrisvörum og komið þjóðarbúskapnum að miklu gagni.

Ég vildi minnast á þessa áætlun, sem nú er mikið rædd, til þess að benda á, að þótt ekki verði gengið svo langt, að lagðar verði fram 53 millj. kr. á ári næstu 10 árin, sem þó er ekki nein fjarstæða, til þess að koma landbúnaðinum á verulega hærra þróunarstig, þá verður ekki hjá því komizt að leysa á verulegan hátt úr lánsfjárkreppunni, sem nú er orðin.

Í sambandi við þetta vildi ég einnig minnast á það, að svo sem allir þm. muna, var nú fyrir stuttu samþ. frv. um heimild til erlendrar lántöku hjá alþjóðagjaldeyrissjóðnum í þágu landbúnaðarins, að upphæð 15–18 millj. kr. Síðan hefur lítið heyrzt um það mál eða þá lántöku, enda mun enn ekki hafa verið gengið frá því máli. Hins vegar mun það lán ekki fást til þess að greiða neitt úr þeirri kreppu, sem þegar er farin að segja til sín, þannig að nú liggur fyrir mikið af framkvæmdum, sem skortir lánsfé, og ekki verður hægt að fá fé til bygginga. Það lán, sem um er að ræða úr þessari amerísku stofnun, verður ekki til þess að greiða úr þessum vandræðum, því að lánsfjárþörfin skiptir tugum millj. króna.

Við flm. frv. teljum sjálfsagt, að þessi upphæð úr mótvirðissjóði verði hækkuð í 30 millj. kr. til þess að leysa úr brýnustu þörfinni, og við væntum þess, að þetta mál fái góðar undirtektir og frv. verði samþ. Ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, en vænti þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að þessari umr. lokinni.