13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og ætla aðeins að segja fáein orð um málið. — Það varð enginn ágreiningur í n. um það, að nauðsynlegt væri að tryggja landbúnaðinum lán. Það liggja fyrir ekki færri en 4–5 frv. og þáltill. um það mál. Þrjú af þeim hefur landbn. afgr. í einu, frv. á þskj. 179, 77 og 155. Nú er það staðreynd, að raunverulega vantar ekki lagaákvæði um ráðstöfun á fé Búnaðarbankans, svo framarlega sem hægt er að fullnægja lánsfjárþörf bænda eftir ákveðnum till. Ég vil benda á, að um byggingar og verkfæri eru full ákvæði í l. um ræktunarsjóð, 4. gr. Þar segir:

„Ræktunarsjóður veitir stofnlán til jarðræktar, peningshúsa og geymsluhúsa og annarra mannvirkja við landbúnað, þar með talin jarðyrkja, vermirækt og loðdýrarækt, enn fremur til mannvirkja í þágu landbúnaðarins, svo sem mjólkurvinnslustöðva, kjötfrystihúsa, ullarverksmiðja, skinnaverksmiðja, þvottahúsa, viðgerðarstöðva, landbúnaðarverkfæra, íbúðarhúsa og verkstæða fyrir iðnaðarmenn í sveitum, rafstöðva fyrir sveitir og sveitahluta og einstaka sveitabæi, svo og til bústofnsauka og til kaupa á vélum, sem notaðar eru við landbúnað.

Upphæð lánanna má vera allt að 30% kostnaðarverðs til þeirra framkvæmda, sem styrkur er veittur til samkvæmt jarðræktarlögum, og allt að 60% kostnaðarverðs til annarra framkvæmda, enda sé það kostnaðarverð að dómi sjóðsstjórnarinnar ekki hærra en eðlilegt má teljast samkvæmt verðlagi á hverjum tíma. Skulu framkvæmdirnar metnar á kostnað lántakanda, svo sem nánar verður fyrir mælt í reglugerð.“

Það, sem helzt vantar, er ekki heimild til að lána til jarðakaupa í hinni almennu veðdeild Búnaðarbankans, en það er vitað, að það er í l. um veðdeild Búnaðarbankans, að hún á að anna þessu hlutverki. Ég vil benda á, að þetta fé er ekki ákveðið. Ég vil benda á, að ég flutti ásamt hv. 2. landsk. þm. frv. til 1. um ráðstöfun fjár úr mótvirðissjóði, þar sem gert var ráð fyrir, að Búnaðarbankanum væru tryggðar 30 millj. kr., sem skiptust milli hinna þriggja deilda bankans eftir till. bankastjórnarinnar. Ef þetta hefði verið samþ., hefði það leyst í bili úr þeim lánsfjárvandræðum, sem nú eru. Áður en þetta var afgr., voru þrjú frv. lögð fyrir, sem gripu hvert inn í annað, og svo var þetta frv. lagt fyrir landbn. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara, en ekki af því, að ég væri á móti þeim tilraunum, sem getið er í frv. og hv. frsm. hefur lýst, heldur tel ég, að þær séu óþarfar, ef bankinn getur séð landbúnaðinum fyrir nægilegu lánsfé. Og vegna þess að þetta frv. er um sama efni og frv. á þskj. 155 og raunar líka frv. á þskj. 77 frá hv. þm. Borgf., taldi ég rétt, að hv. landbn. hlutaðist til um að láta semja nýtt frv. Þetta er vænlegra til að koma þessu máli áfram en að afgreiða frv. hvert í sínu lagi og láta endirinn verða, að þau dagi öll uppi. Ég lét bóka aths. um þetta, og vorum við hv. 2. þm. Skagf. sammála um þetta atriði.

Ég vil taka það fram í sambandi við þetta mál, að ég mun greiða atkv. með því, þó að ég hins vegar telji, að það sé ófullkomið og óvíst, hvort það nái því hlutverki, sem því er ætlað. Ég tel, að þetta ætti að vera öðruvísi og að frv. mitt á þskj. 101 leysi betur þetta mál en nokkurt hinna frumvarpanna.