13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2727)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. vék að afstöðu minni og gerði þannig grein fyrir henni, að ég teldi tvö þessara frv. ómöguleg, frv. hv. þm. A-Húnv. og frv. hv. 1. þm. Árn., sem bæði fjalla aðallega um að afla fjár til þess að menn geti fengið lán hjá Búnaðarbankanum. Það er eðlilegt, að þessum frv. sé skellt saman í eitt frv., en aftur á móti er frv. hv. þm. Borgf. um sérstakt viðfangsefni, í raun og veru breyt. á l. um Búnaðarbankann, og taldi ég rétt, að það væri afgreitt út af fyrir sig, en hin á að athuga sérstaklega. Ég held, að þessum málum væri bezt borgið þannig, og mættu þá báðir una við sitt. — Ég vildi aðeins gera þessa grein fyrir afstöðu minni.