14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Í þessari brtt. frá hv. þm. V-Húnv. eru tvö atriði, sem bæði eru talsverð breyt. frá frv. Annað þessara atriða get ég fallizt á, það, sem er um, að fé, sem nýtur hlunninda, skuli vera skattfrjálst. Hitt atriðið get ég ekki fallizt á, að sparifjáreigendum sé skylt að gera grein fyrir eign sinni í stofnlánadeildinni, þegar þeir telja fram til skatts. Með því er kippt í burtu þeirri hvöt, sem á að vera fyrir hendi, til þess að menn leggi fé inn í deildina frekar en aðrar stofnanir, því að þá er það um leið orðið útsvarsskylt. Ég get því ekki fallizt á brtt. hv. þm. V-Húnv. Það væri þá eins rétt að fella frv. sjálft, því að aðalatriðið, sem hér er um að ræða, er það, að þeir aðilar, sem fé þetta eiga, þurfi ekki að borga skatt af því eins og öðru fé. Það skiptir ekki svo miklu máli, hvort helmingur fer til ríkisins og helmingur til sveitarfélaga eða allt til sveitarfélaga. Hitt er svo það, að fé þetta verði ekki fyrir verðfalli, ef verðbreyting verður á peningum.