18.12.1951
Neðri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls og sömuleiðis við 2. umr., þá var það hugmynd ýmissa með þessu frv., að hægt væri með því, eins og það var borið fram í upphafi, að ná töluvert miklu af sparifé inn í landbúnaðinn, og allir vita, hve mikil þörfin er þar fyrir lánsfé. Nú var þessu frv. allverulega spillt hér við 2. umr. og það í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi var það, að landbn. gekk inn á það eftir till. Búnaðarbankans að fella niður síðasta lið 5. gr., og í öðru lagi með till. frá hv. þm. V-Húnv. (SkG), sem álítur, að þótt þetta fé væri skattfrjálst til ríkisins, sé skylt að gefa það upp, til þess að leggja megi á það útsvar. Með tilliti til þessa hvors tveggja flyt ég brtt. á þskj. 479, um að sett verði nokkurs konar verðtrygging á þetta fé, þannig að ef verðbreyting verði á búpeningi frá því, sem nú er, þá skal það fé borgast út með verðlagsuppbót. Þannig verður þá líka að reikna þetta á lánin, ef þessi leið er farin, en út í það skal ég ekki fara nánar, því að hv. þm. skilja, hvað það er, sem hér væri verið að gera, því að ef þetta hefði verið ákveðið fyrir 10–12 árum, þá væri það mikil bót til aukningar á sparifé frá því, sem nú er um að ræða, eftir allar þær breytingar, sem orðið hafa, gengisbreytingar og aðrar, sem gert hafa sparifé lítils virði, og margir segja, að það sé til lítils að safna sparifé, því að það sé gert að engu.

Ég vil einnig leyfa mér að bera fram aðra till., sem ég flyt skriflega og komi í staðinn fyrir síðasta lið 5. gr., og verði þá liðurinn þannig: „Með tilliti til þessa skattfrelsis er stjórn bankans heimilt að taka 1% gjald af sparifénu, og rennur sú upphæð til bankans.“ — Ég vil sem sé heldur láta taka 1% í skatt af því fé, sem bankarnir fá, svo að vextirnir nemi ekki nema 2½%, heldur en fara að gefa það upp og leggja á það útsvar. Hv. þm. hljóta að skilja það, að til þess að þessi till. komi að fullu gagni, þá verður að vera rík hvöt fyrir allan almenning að leggja fé sitt inn í bankana, og ég vildi reyna þessa aðferð. Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till. minni.