26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2778)

120. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins frá 1936 er ákvæði um það, að hún ein skuli hafa rétt til þess að starfrækja ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn. Í þessu frv., sem lagt er fram á þskj. 237, er lagt til, að þessi einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins verði felldur niður. Að sjálfsögðu mun ferðaskrifstofan starfa eftir sem áður, þó að hún hafi ekki þennan einkarétt. Eftir því, sem mér er sagt, þekkist það ekki í nágrannalöndunum, að það opinbera hafi einkarétt á þessu sviði, og þykir mér eðlilegt, að hann sé numinn hér úr lögum.

Þetta er svo einfalt mál, sem hér er á ferðinni, að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það, en vil leyfa mér að óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.