26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2780)

120. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. flm. þessa máls sagði, að það mundi hvergi tíðkast á byggðu bóli, að ríkið hefði og ræki ferðaskrifstofu á sama hátt og hér er gert, nema austan járntjalds. Þessar upplýsingar lágu fyrir 1935, þegar málið var rætt þá, þ. e. a. s., þá var upp talið, í hvaða löndum ferðaskrifstofur væru reknar á þennan hátt, og það var víðar en austan járntjalds þá, svo að það er ekkert nýtt fyrir okkur. En þrátt fyrir það, þó að það hefðu ekki á mörgum stöðum verið reknar ferðaskrifstofur sem ríkisstofnanir, með svipuðu sniði og hér er gert, — og er það þó víðar en hv. þm. telur og víðar en austan járntjalds, — þá útilokar það ekki, eitt út af fyrir sig, að það geti verið heppilegur háttur hjá okkur, enda var horfið að því ráði 1935 að hafa þessa skipan á, og ég held það hafi gefizt vel. Ég held, að menn, sem skipt hafa við Ferðaskrifstofu ríkisins, hafi verið ánægðir með hana, og ég veit ekki til, að menn hafi hætt við ferðalög til Íslands vegna þess, að það hefur verið þessi háttur á fyrirgreiðslu þeirra hér á landi. En hitt er víst, og ég tel, að það megi út frá því ganga eins og vitnisburðurinn greindi, sem ég las áðan, að hitt skipulagið, sem var meðan einkaskrifstofurnar voru, var ekki gott í raun, eftir því sem form. Framsfl. lýsti þá. Og ef um það er að ræða annars vegar að hafa þessa skipan áfram, sem hefur gilt um nær 20 ár, og hins vegar að hverfa aftur að hinu skipulaginu, sem var þar áður og framkvæmt var á þann hátt, sem lýst hefur verið, þá held ég, að það ætti ekki að vera áhorfsmál að halda við það, sem nú hefur reynzt vel.

Ég vil að sjálfsögðu ekki andmæla því, að þessu máli verði vísað til n. og athugað þar, en ég vildi aðeins láta þessar aths. koma fram, vegna þess að ég tel, að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi unnið gagnmerkt starf á því tímabili, sem hún hefur starfað, og ég tel, að það mundi frekar hnekkja starfsemi hennar og draga úr henni, ef farið væri að skipta starfseminni á margar skrifstofur heldur en halda henni áfram á einni skrifstofu.