26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2781)

120. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er kunnugt mál, að á sínum tíma voru um það allmiklar deilur, hvort rétt væri fyrir ríkið að setja á fót ferðaskrifstofu, og hafa verið um það mjög skiptar skoðanir oft og einatt, hvort rétt væri að hafa þann hátt á, að ríkið ræki ferðaskrifstofu. En mér skilst, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé eiginlega hvorki fugl né fiskur, ef svo mætti segja, því að hér er um það að ræða, að annaðhvort verður að afnema Ferðaskrifstofu ríkisins eða láta hana hafa þann rétt, sem hún hefur, því að ef þetta frv. er samþ., mundi það þýða, að ríkið hefði enn meiri halla af þessari starfsemi en verið hefur. Vildi ég því beina því til þeirrar n., sem fær þetta frv. til athugunar, að hún taki þetta mál upp á þeim grundvelli, að annaðhvort sé afnumin þessi starfsemi á vegum ríkisins eða hún látin vera í þeirri mynd. sem hún er, og hún hafi þann rétt, sem hún hefur, til þess að líkur séu til þess, að hún geti borið uppi sína starfsemi. Ef á hinn bóginn einstaklingar eða félög vilja taka að sér þessa starfsemi, þá er einfaldara að leggja Ferðaskrifstofu ríkisins niður en að vera að taka af þeim réttindum, sem halda uppi kostnaðinum, en láta ríkið bera hallann.