07.12.1951
Neðri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

129. mál, útflutningur á saltfiski

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er upphaf þessa máls, að Samband íslenzkra samvinnufélaga sótti í fyrra um heimild til þess að mega flytja út þann saltfisk, sem það mundi fá umráðarétt yfir á árinu 1951. Atvmrn., sem eins og kunnugt er veitir slík leyfi eða hafnar beiðnum um þau, svaraði S. Í. S. þá á þá lund, að rn. væri kunnugt um, að fiskur sá, sem það hefði umráð yfir, væri bundinn innan félagssamtaka Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, og hafnaði þessari beiðni, eins og í bréfinu stendur. þegar af þeim ástæðum. Eftir þetta sagði S. Í. S. sig úr þessum samtökum, eins og hv. flm. skýrði frá, og var þess vegna að þessu leyti frjálst, hvað sölu fisksins snerti, og endurnýjaði S. Í. S. þá í haust beiðni sína til rn. um að mega flytja út fiskinn. Ráðuneytið tók þá ákvörðun að senda þetta mál til umsagnar þeim aðilum, sem mest eiga í húfi um, að sala á saltfiski fari farsællega úr hendi, þ. e. a. s. til Landssambands íslenzkra útvegsmanna og til Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda. Umsagnir þessara aðila hafa borizt. Þær eru alllangar, einkum varðandi sölusamlagið sjálft, og svo langar, að ég tel ekki ástæðu til að fara að tefja hér umræður með því að lesa þær upp, en mun hins vegar láta þessar umsagnir í té þeirri n., sem um málið fjallar. En báðar eru umsagnirnar mjög greinilegar og mjög ákveðnar um mótmæli gegn því, að þetta leyfi verði veitt, sem í frv. er farið fram á. Það var aðalfundur L. Í. Ú., sem fjallaði um málið og svaraði því. En síðan hefur komið saman aðalfundur S. Í. F. og fjallað um málið og mjög einróma staðfest umsögn stjórnar félagsins með mótmælum gegn því, að þessi heimild verði leyfð. Ég þykist muna það rétt, að sá fundur S. Í. F. samþykkti tvær till., sem önnur var um það efnislega, að fundurinn teldi það eitt af mikilsverðustu hagsmunamálum íslenzkra fiskframleiðenda, að ekki yrði rofin sú skjaldborg, sem þeir hefðu sjálfir veitt sér um samsölu á saltfiski, og teldi það því brýna og mjög stórvægilega nauðsyn, að salan yrði áfram á einni hendi, og skoraði loks á S. Í. S. að vera áfram innan vébanda S. Í. F. og láta S. Í. F. hér eftir sem hingað til annast sölu á sínum fiski. Hin till. var svo um það að skora á Alþ. að fella það frv., sem hér er til umr. Og ég hygg, að ég ofmæli ekki, þegar ég segi, að um þetta voru menn mjög á einu máli, aðrir en þeir, sem höfðu þar málsvörn fyrir S. Í. S., og flutti um það ræðu aðalforstjóri S. Í. S., Vilhjálmur Þór, og færði fram þau gagnrök í málinu, sem hann taldi sterkust. Ég skal ekki rekja þær umr., en aðeins skýra frá því, að sá af fundarmönnum auk mín, sem bar einnig fram mín rök í málinu gegn ræðu forstjóra S. Í. S., var framkvæmdastjóri bæjarútgerðar Siglfirðinga. Og ég get hans sérstaklega fyrir það, að hann hóf mál sitt, gagnstætt því, sem aðrir gerðu, með mjög persónulega lofsamlegum ummælum um aðalforstjóra S. Í. S., en sagði, að sér þætti undarlega við bregða um jafnskeleggan mann og mikinn málfærslumann, hversu veik væru hans rök fyrir þeim málstað, sem hann bæri hér fram. — Ég sé ekki ástæðu til að rekja hér þessar umr., að öðru leyti en þá að víkja e. t. v. eitthvað að ræðu aðalforstjóra S. Í. S., áður en ég lýk máli mínu.

Eftir að hafa fengið umsagnir í málinu frá L. Í. Ú. og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna tók rn. þá ákvörðun að veita S. Í. S. ekki útflutningsleyfi á saltfiski. Og þess vegna er þetta frv. komið fram, sem — eins og hv. flm. gat um — hnígur að því, að S. Í. S. skuli hafa sama rétt og S. Í. F. til þess að flytja út saltfisk, án þess að til komi sérstakt leyfi atvmrn., en aðrir aðilar eigi að sækja um slíkt leyfi.

Hvað felst í þessu frv., og hvað leiðir af því? Fyrst það, sem ég gat um. En það þýðir annað og miklu meira, því að óbreyttu frv. og að óbreyttri ríkisstj. a. m. k., ef þetta frv. verður að l., þá stendur eftir sem áður heimild atvmrn. til að veita öðrum aðilum sams konar réttindi. Og ég mun ekki undir neinum kringumstæðum, eftir að S. Í. S. með l. hefði öðlazt rétt til þess að flytja sérstaklega út sinn fisk, treysta mér til að neita ýmsum öðrum aðilum um samskonar réttindi, ef þeir færu fram á þau. S. Í. S. hefur á þessu ári umráðarétt yfir um 3% af saltfisksmagninu, en á árinu 1950 hafði það umráð yfir hlutfallslega miklu meira magni, eða um 16%, að ég held. En hvernig ætti mér að vera stætt á því að neita þeim félögum, sem hafa haft saltfisksverzlun löngu áður en stofnað var til þessara samtaka, um útflutningsleyfi, ef þau óskuðu eftir því, eftir að S. Í. S. hefði fengið þennan rétt? Og hvernig ætti mér t. d. að vera stætt á því að neita fiskframleiðendum við Faxaflóa eða t. d. fiskframleiðendum í Vestmannaeyjum um slíkan rétt, ef þeir kæmu og segðu: Við ráðum yfir miklu meira fiskmagni en S. Í. S., við teljum, að okkar réttur hafi að vissu leyti verið fyrir borð borinn með því að láta okkur ekki fá nein fríðindi umfram þá, sem búa úti í dreifbýlinu, þar sem þó er vitað, að farmgjöld fyrir okkar fisk eru miklu lægri en meðaltalsfarmgjöldin, þegar skip þurfa að sigla á dreifðar hafnir þessa stóra og vogskorna lands? — Ég spyr: Getur nokkur búizt við, að mér verði stætt á því, ef ég á að fara með þessi mál eftir að löggjöf hefur ákveðið, að S. Í. S. skuli njóta annars og meiri réttar í þessum efnum en aðrir aðilar, ef ekki er um heildarsamtök að ræða, getur nokkur búizt við, að ég neiti þessum félögum, sem ég hef nefnt, um þessi réttindi, jafnmikla hagsmuni og þeir gætu af því haft að selja einir fyrir sig, ef samtökin á annað borð eru leyst upp? Það er ekki hægt með neinni sanngirni að ætlast til þess af mér, að ég geti staðið á móti þeim kröfum. Afleiðing af samþykkt þessa frv. yrði því án efa upplausn þeirra samtaka eða þess samstarfs, sem útvegsmenn hafa haft um saltfiskssöluna, upplausn gegn þeirra eindregnu mótmælum.

Ég segi það án alls ofmetnaðar, að í þessu máli hef ég alllanga reynslu að baki mér og þetta er eitt af þeim sárafáu málum, sem mér finnst ég megi djarfar úr flokki tala um en heildin af þm. Og það er þess vegna út af fyrir sig spurning, hvort það sé ástæða fyrir Alþ. að taka af mér völdin í þessum efnum, — ef þeir þá trúa því, að ég hafi ekki annarleg sjónarmið og sé þar ekki varðhundur fyrir óheiðarlega sérhagsmuni. Og ég veit, að hv. þm. gera mér ekki þær getsakir. — Ég vil minna á, að fyrir um 20 árum var svo komið í fisksölumálum Íslendinga. að fullkominn glundroði og upplausn ríkti þar. Ég var þá starfsmaður við félag, sem um alllangt skeið hafði rekið stærstu fiskverzlun á Íslandi og um skeið — að ég held — stærstu fiskverzlun í heiminum. Og þegar það félag hafði mest umleikis, seldi það þrjá fiska af hverjum fimm, sem á land voru dregnir hér á landi. Samt sem áður er það ég og mínir samstarfsmenn og bankastjórarnir, sem áttum frumkvæðið að því, að þessi félagssamtök voru stofnuð í fyrstu. Það var ekki vegna þess, að við værum eitthvað óeigingjarnari en aðrir, heldur vegna hins, að enda þótt mig reki ekki minni til, að þetta félag, h/f Kveldúlfur, nokkru sinni skaðaðist á sinni fisksölu, þá var samt svo komið um sölu fisks frá landinu, að þetta félag og þeir eiginhagsmunamenn, sem að því stóðu, sáu, vegna þess að þeir voru með stærstu fiskframleiðendum á Íslandi, sinn hag í að fórna nokkru af sínum ágóða sem fiskútflytjendur til þess að tryggja hagsmuni sína sem fiskframleiðendur, auk þess sem þeim var að sjálfsögðu geðþekkt að geta í leiðinni þjónað heildarhagsmunum. Og þar var það ég persónulega, sem fór á fund Magnúsar Sigurðssonar bankastjóra, í samráði við starfsmann Kveldúlfs, Richard Thors, og bað hann um aðstoð í málinu. Og það var einnig ég, eftir að hafa ráðfært mig við Georg Ólafsson og Kaaber, sem aftur fór á fund forsrh., Ásgeirs Ásgeirssonar, sem þá var að fara til útlanda, og spurði, hvort ég mætti ekki láta þau boð berast eftir honum, að hann hefði samúð með, að til slíkra samtaka væri stofnað, og tók hann mjög jákvætt undir þá beiðni mína og fór svo af landi burt þá sama daginn.

Nú er það staðreynd, sem getur verið ljós öllum, að er þetta samstarf um fisksöluna var stofnað, raknaði mjög úr þeim erfiðleikum, sem ævinlega þjökuðu Íslendinga meðan skefjalaus samkeppni ríkti í þessum málum. Og ég veit ekki betur en ég megi staðhæfa, að síðan samtökin komust á, hafi ekkert það að höndum borið, sem þessum samtökum hafi ekki sæmilega farsællega tekizt að stýra hjá. Og gleggsta dæmið um mátt og ágæti þessara samtaka er e. t. v. einmitt nærtækast, en það er, hvernig þeim tókst á árinu 1950 að ráða fram úr því nýja og að mörgu leyti örðuga viðhorfi, sem skapaðist, þegar snögglega margfaldaðist saltfisksframleiðsla Íslendinga og jafnframt steðjuðu ýmis óhöpp að, eins og skemmdur fiskur o. fl. Ég held þess vegna, hvort sem litið er á þann dóm reynslunnar, sem var fallinn áður en til samtakanna var stofnað, eða þann dóm reynslunnar, sem kveðinn hefur verið upp eftir að samtökin komust á, þá sé ekkert þar að finna, sem mæli með því, að hætt sé á — svo að ég kveði ekki sterkar að — að leysa upp þessi samtök, en hins vegar álít ég, að það sé mjög margt að finna, sem varar alvarlega við því. Ég viðurkenni fúslega, að það þarf ekki að vera hagkvæmast í dag, sem skynsamlegast var fyrir 20 árum. En það, sem máli skiptir, er, hvort hægt er að færa rök fyrir því, að breyt. sé til bóta í þessu efni. Ég hef ekki fundið þessi rök. Og hvað hefur breytzt frá því þessi samtök voru stofnsett? Ég sé í raun og veru engar breyt. aðrar en þær, sem mæla gegn því, að við eigum að hætta við samtökin og leysa þau upp. Ég á þar sérstaklega við það, að varðandi þær vörur, sem um ræðir, stendur svo á, að í helztu viðskiptalöndum okkar með þær er bara einn kaupandi. Þannig er það á Spáni og í Portúgal, og þannig er það í raun og veru að verulegu leyti á Ítalíu, en einmitt til þessara landa fer langmestur hluti okkar saltfisks. Og trúa menn því, að það sé til bóta fyrir okkur, að margir aðilar komi og fari að bjóða fram sömu vöru sömu kaupendum? Ég bið menn að hafa jafnan hugfast í umr. um þetta mál, að það má ekki reikna með því, að það verði bara tveir aðilar, sem bjóða þessar vörur í þessum löndum fyrir okkar hönd Íslendinga, ef aðilinn verður ekki bara einn, samkvæmt því, sem ég hef áður tekið fram.

Ég vil vekja athygli á einum annmarka í því eina landi, sem ég hef nýlega sótt heim og kaupir fisk frá Íslandi. Ég á við Spán. Þar eru gerðir samningar þess eðlis, að við höfum leyfi til að selja Spánverjum 6 þús. tonn af saltfiski gegn því að kaupa vörur fyrir andvirðið. Ef t. d. væru komnir kannske fimm eða sex aðilar, sem flyttu út saltfisk, þá yrði það nokkur vandi, a. m. k. fyrst, að ákveða, hve mikið af þessu fiskmagni, sem eftirsótt væri að mega selja þar, hver aðili mætti selja til Spánar. Ég held, að hægt væri að finna aðferð sæmilega réttláta, áður en langt liði, á framkvæmd hins nýja fyrirkomulags, ef breytt yrði um í þessu efni gagnvart Spáni. En þá rekum við okkur á annan annmarka, sem einnig verður örðugt við að etja. Hver má þá flytja fyrsta magnið af þessum 6 þús. tonnum, og hver það síðasta? Því að það getur vel svo farið, að sá, sem ætlar að sækja rétt sinn með því að flytja út síðasta magnið, missi þeirra fríðinda, sem um er að ræða, af þeim ástæðum, að Íslendingar kaupi ekki svo mikið af vörum frá Spáni, að það samsvari andvirði þessara 6 þús. smálesta, sem við verðum að flytja inn, ef við eigum að fá að selja þetta fiskmagn, og missi þá þeir eða sá, sem síðast má selja, fríðindin, sem fólgin eru í sölunni til Spánar. — Ég endurtek því, að allar þær breyt., sem á hafa orðið í sambandi við saltfiskssöluna, hníga að því, að þær eru aukin rök fyrir nauðsyn samtakanna og gagnrök gegn því, að menn eigi að hætta á að leysa þau upp.

Menn hafa oft tæpt á því, að það mætti ráða bót á vandkvæðunum, sem fylgja skefjalausri samkeppni í þessu efni, með því að ríkisstj. ákvæði lágmarksverð á fiskinum. Ég er sannfærður um, að þeim, sem þannig tala, hefur ekki tekizt að gera sér fulla grein fyrir því, hvílík dæmalaus vandkvæði eru á þeirri skipan. Ég endurtek, að á því máli hef ég sérþekkingu, en ekki treysti ég mér til að fara með það vald réttlátlega. Ef t. d. sex aðilar ættu að sækja undir mig, fyrir hvaða verð mætti selja hinar mjög mismunandi fisktegundir í öllum hinum mjög svo mismunandi fiskkaupalöndum frá degi til dags, þá er það svo mikil ábyrgð og svo mikið verk að inna það af hendi, að ég vildi heldur verða einn framkvæmdastjóri fyrir allri saltfiskssölunni, ef þetta ætti ekki að vera handahóf. Nú er þetta að öllu leyti á hendi og á ábyrgð þess aðila, sem fer með þetta vald í umboði þeirra, sem fiskinn eiga. Ég held því, að sú skipan gæti aldrei orðið farsæl, að rn. ákvæði þannig lágmarksverð á fiskinum. Og mín spá er sú, að ef slíkt fyrirkomulag yrði upp tekið, mundi það leiða af sér glundroða og stór töp, en síðan yrði þessi skipan, sem nú er, sett á aftur. Ég vil ekki bera ábyrgð á þessu, og ég vil ekki taka á mig ábyrgðina á því, að landsmenn þurfi að tvíborga sömu mistökin. Við höfum þegar greitt fyrir mistökin á sviði saltfiskssölunnar svo marga milljónatugi nú þegar, að það er hörmulegt til að vita, ef við eigum eftir að greiða margfaldar þær upphæðir fyrir ný afglöp í þessum efnum, og ég vil ekki bera ábyrgð á því. Ég vil í þessu sambandi aðeins leiða athygli að því, að ýmsar aðrar þjóðir hafa tekið til fyrirmyndar skipan Íslendinga í þessum efnum og mjög stuðzt við okkur og farið mjög lofsamlegum ummælum um samtök okkar og ekki leynt því, að þau hafi einnig bætt fyrir þeim. Þau hafa því komið á mikilli nýbreytni og farsælli í fisksölunni, sem aðrar þjóðir hafa notið góðs af. Og mín skoðun er sú, að við ættum frekar að leita samstarfs við aðrar þjóðir um fisksölumál en að losa um samstarfið um þau hjá okkur.

Þegar ég athuga, að það eru samvinnumenn, sem bera fram þetta frv., þá finnst mér, að vonir standi til þess, að þegar þeir kynni sér gögn málsins, þá geti þeir fallizt á þessi sjónarmið og málsatriði. Aðalforstjóri S. Í. S. gerði sér vel ljóst, að samvinna var grundvallarnauðsyn á þessu sviði mikilvægustu atvinnumála Íslendinga. Og hann sagði berum orðum, að hann treysti því, að þótt S. Í. S. fengi sérréttindi þessi, þá byndust aðrir saman um fisksöluna. En mér finnst, að alveg eins og það er oftraust á mér að ætlast til, að ég geti staðið í gegn öðrum kröfum, eftir að hafa lögfest sérréttindi handa S. Í. S. í þessu efni, þá sé það oftraust hjá forstjóra S. Í. S. að telja alla aðra svo góða samvinnumenn, að þeir beri gæfu til að halda saman um söluna, eftir að S. Í. S. hefur riðið úr hlaði burt frá samvinnunni og yfir í samkeppnina. Og ég vil minna hv. flm. á eitt atriði, sem ég tel mjög veigamikið í þessu sambandi. Það er, að enda þótt S. Í. S. færi mjög vel með þessi mál hvað þetta snertir, eftir að það hefði tekið að sér að selja fyrir sína menn, þá má ekki gleyma því, að það eru aðrir, sem geta eyðilagt þá. Ég veit, að Kveldúlfur hafði fullkomið vit á að hagnýta sér möguleika til að selja fisk samkvæmt möguleikum, sem voru fyrir hendi. En það félag réð oft ekkert við málin, þegar aðrir, sem minna áttu í húfi, voru að undirbjóða fiskinn og eyðilögðu markaðinn með því. Eins og er á mörgum sviðum öðrum, eru í samkeppni um verzlunina margir að bjóða sömu vöruna og kannske margir að bjóða sömu þúsund skippundin, í trausti þess, að ef þeir geta selt þau, geti þeir fengið þá, sem eiga þau, til að fallast á söluna. Af þessu getur það leitt, að þar, sem varan er boðin, haldi menn, að miklu meira af vörunni sé í framboði en raunverulega er. Það er því ákaflega stórt atriði fyrir þá, sem treysta S. Í. S. vel til að fara með verzlunarmál, — og ég geri það, — að menn mega ekki treysta því, að örugg framkvæmd verzlunarinnar hvað fiskinn áhrærir nægi til að tryggja hagsmuni þeirra manna, sem þar á að sjá borgið. Og upplausn í þessum málum skaðar þess vegna alveg jafnt þá fiskkaupendur, sem falið hafa S. Í. S. trúnað, eins og aðra fiskkaupendur í landinu. Því vil ég biðja þá menn að taka eftir, sem bera hagsmuni fiskeigenda sérstaklega fyrir brjósti, að oft liggja málin þannig fyrir, að eigendur bæði hraðfrysts fisks og stundum saltfisks þurfa að sækja einhliða á stjórnarvöldin til þess að tryggja hagsmuni fiskeigenda. Það er því þeirra að krefjast margvíslegra réttinda um að mega selja sem mest af fiski til þeirra landa, sem hæst bjóða fyrir hann, án tillits til þess, hvað hægt er að kaupa frá þeim löndum. Og hvað saltfiskinn snertir, vil ég minna á Spán, þar sem verð á saltfiski er hagstætt, en aftur á móti óhagstætt innkaupsverð á vörum þaðan. Og þá mega fiskeigendur og þeir, sem þeirra hagsmuni bera fyrir brjósti, ekki gleyma því, að S. Í. S. stendur miklu verr að vígi til þess að halda einhliða á lofti þeirra hagsmunum. Það hefur sannazt m. a. í ræðuhöldum milli forstjóra S. Í. S. og umboðsmanna hraðfrystihúsanna. Þeir, sem þurfa að selja fisk á beztu mörkuðum, sem eru nú til fyrir saltfisk, og hinir, sem þurfa að fá innflutta vöru með hagsmuni neytenda fyrir augum, eru ekki kröfufélagar. Af því leiðir, að ef fyrir hv. flm. vakir að sjá borgið hagsmunum fiskeigenda, þá eru þeir á rangri braut.

Ég spyr nú þá, sem hér eru umboðsmenn útvegsbænda, hvort þeir treystu sér, ef þeir væru í mínum sporum, til þess að láta þá einstaklinga eða félag, sem fer með 3% af útflutningsmagninu af vöru þessari, en í fyrra um 16%, fá fullnægt kröfu til að verzla með saltfisk sinn utan við samtökin um söluna gegn mótmælum allra annarra saltfiskseigenda. Það vakti eftirtekt á þeim fundi, sem ég gat um áður, að þar töluðu menn yfirleitt á móti aðalforstjóra S. Í. S. í málinu, hvort sem þeir voru skoðanabræður hans í stjórnmálum eða ekki. Þarna tóku til máls tveir menn úr mínu kjördæmi, báðir framsóknarmenn, en báðir til þess að mótmæla eindregið því, að S. Í. S. fengi þessi réttindi, sem í frv. er farið fram á. Og það er að mínu áliti ekki skynsamlegt af hæstv. Alþ. og ekki sanngjarnt að ætla að þröngva fram slíkri lagabreyt. gegn svo ákveðnum mótmælum þeirra manna, sem mest eiga í húfi viðkomandi þessari lagabreyt. Og ég vil segja hv. þingheimi frá því, að ég hafði ekki hugboð um, að S. Í. F. væri svona geirneglt saman eins og mér virtist það vera nú, þegar ég kom á þennan fund. Ég hafði sjálfur enga tilraun gert til þess að hafa hin minnstu áhrif á skoðanir manna í þessum efnum. Ég hafði í mínum huga sagt: Getur verið, að mér yfirsjáist í þessu efni, og ef þeim, sem mest hafa með þetta að gera, lízt ekki á þetta, þá ráða þeir.

Ég skal svo benda á, að það er náttúrlega ekki alveg hægt að bera saman hraðfrysta fiskinn og saltfiskinn, einmitt vegna þess að um hraðfrysta fiskinn stendur svo á, að kaupendur að honum eru miklu fleiri, og ég hygg í fleiri löndum frjáls innflutningur á honum, t. d. í Bandaríkjunum og fleiri löndum. Ég hef samt verið ákaflega hræddur um upplausn í fisksölumálunum á því sviði og reynt að halda verndarhendi yfir þessu samstarfi S. Í. F. og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eins og ég hef mögulega getað. Það er náttúrlega von, að ég sé brýndur hér á verzlunarfrelsi. Og hverjum ætti að vera geðþekkara en mér að reyna að koma á verzlunarfrelsi? Og þegar ég þó ekki þori það í þessu efni og hef þó þennan kunnugleika, þá verða menn annaðhvort að ætla mér það, að einhverjar óhreinar hvatir liggi á bak við mína afstöðu í málinu eða að ég í raun og sannleika telji, að hér sé með stefnu frv. stefnt í ófæru. Við það get ég ekki ráðið, ef menn ætla mér lágar hvatir, en ég hef ekki til þess unnið í málinu, á þær ekki skilið og hef ekki orðið var við, að hv. þm. beri mér þær á brýn. En þá verða menn að taka tillit til þess, sem ég segi í þessu efni, því að ég á að hafa þekkingu á málinu. Og því fremur mega menn treysta þessu, að mér væri geðþekkara að koma á frjálsri verzlun í útflutningsverzluninni. En það er svo um frjálsu verzlunina, að það er engin regla án undantekningar. Og eins og ég tel engan vafa á því, að hagsmunum okkar sé bezt borgið með því, að íslenzkir kaupsýslumenn megi leita að góðum vörum til að flytja inn og keppa um að selja þær á hagkvæmu verði, þá er ég eins sannfærður um, að varðandi meginframleiðsluvöru okkar sé okkur farsælast að hafa sem allra víðtækust samtök um samsölu í þeim efnum. Og um þá hlið málsins vil ég segja það, og það er aðalatriði, að samkeppnin hefur kosti, sem í saltfisksverzluninni verða hverfandi, vegna þess að innflutningur á þessari framleiðsluvöru okkar er, þar sem mestu máli skiptir um markaðinn, á einni hendi. Og samkeppnin hefur líka ókosti, sem af sömu ástæðum aukast og margfaldast varðandi sölu á saltfiski.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja, að það er mín bjargfasta skoðun, að það, sem var nauðsynlegt fyrir 20 árum í þessum efnum, — það er óbifanleg sannfæring mín, að það sé lífsnauðsyn nú. Og ég minni að lokum á það, að ef þessi samtök verða rofin, þá er ekki mér — og ég held engum öðrum — stætt á því að neita um sömu réttindi t. d. framleiðendum í Vestmannaeyjum, sem geta afskipað fiski sínum á einni höfn, sem nú er talinn alveg eins góður, ef ekki betri en fiskur úti um landið. Og það væri ekki heldur hægt að neita um þessi réttindi ýmsum öðrum, sem mundu biðja um þetta, ef samtökin verða leyst upp á annað borð.