11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

143. mál, virkjun jarðgufu í Krísuvík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég tók eftir því, að hv. flm. gat þess í ræðu sinni, að það mundu ekki verða líkindi til þess, að haldið yrði áfram með Sogsvirkjunina á næstu árum. Benti hann á þau vandræði, sem í okkar rafmagnsmálum yrðu, ef rafmagnsframleiðslan yrði ekki mjög bráðlega aukin í stórum stíl, og er það rétt hjá honum. Ég vildi út af þessu láta í ljós þá skoðun mína, að svo framarlega sem ekki verður haldið áfram og byrjað nú næsta sumar, 1952, með þriðju virkjunina á Soginu, þannig að þær borvélar og aðrar vélar séu beinlínis fluttar þangað, sem þriðja virkjunin á að vera, og hafizt verði handa, þá er vitað, svo langt sem um raforkumálin verður séð, að hér á Suðurlandsundirlendinu næsta vetur verður þörfin mikil fyrir rafmagn, hvað þá 1954 eða 1955, þegar áburðarverksmiðjan er tekin til starfa, án þess að þriðju virkjun Sogsins sé lokið.

Þetta vildi ég láta í ljós út af því, sem hv. þm. Hafnf. sagði, sem í raun og veru er alveg rétt. En ef ráðizt yrði í Sogsvirkjunina strax, kynni það að draga úr því að auðvelda hagnýtingu orkunnar, sem hv. þm. Hafnf. vildi hagnýta í Krýsuvík, og hef ég engu við það að bæta. — Ég vildi beina fyrirspurn til hans og hv. iðnn., sem fær þetta mál til athugunar. Það er vafalaust rétt eins og sýnt er í útreikningum, sem hér liggja fyrir um raforku, að þessi gufuorka sé ódýrari en vatnsaflið, en það er ekki upplýst hagnýting á þessari vatnsgufu, sem gæti orðið okkur dýrmætari en raforkuframleiðslan, t. d. í sambandi við vöruframleiðslu, þar sem þarf að nota mikið af sjóðandi vatni. Ég held, að með því að hagnýta þá aðstöðu, að við höfum þarna gufu upp úr jörðinni og sjóðandi vatn, sem aðrir þurfa að kynda upp með kolaofnum, er lítill vafi á því, að við getum notfært okkur hana. Það væri heppilegt að láta iðnaðarmenn athuga þessa leið og leita álits sérfræðinga í þessari grein. Það væri hægt að leggja þarna grundvöllinn að vissri stóriðju, sem þyrfti á að halda heitri gufu og sjóðandi vatni. Það hefur áður verið rætt um möguleika á því að vinna salt úr vatnsgufu, og yrðu þá möguleikar til þess þarna syðra, en það væri heppilegra, að slíkt væri íhugað, ef það verður ekki til að tefja þetta mál.