11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2839)

146. mál, veitingaskattur

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Með 1. nr. 99 1933 er svo kveðið á, að greiða skuli 10% skatt í ríkissjóð af söluverði matfanga, drykkjarfanga og annarra neyzluvara, sem seldar eru í gistihúsum, kaffihúsum eða öðrum þeim veitingahúsum, sem leyfi þarf til að reka skv. l. nr. 21 15. júní 1926. Enn fremur eru skattskyldar veitingar í kökubúðum og tækifærisveitingar þær, sem leyfi þarf til þess að hafa um hönd samkv. áður nefndum lögum. Ódýrustu máltíðir, svo sem mjólk og skyr, eru undanþegnar þessum skatti, enda fari álagning þeirra ekki fram úr 25% frá söluverði á staðnum.

L. um veitingaskatt eru sniðin eftir danskri fyrirmynd, og er litið á hann sem lúxusskatt. Allt frá byrjun hefur ekki verið talinn gróðavænlegur atvinnurekstur hér að annast sölu veitinga. Stafar það af því, að veitingahúsin eru svipt möguleikum til að selja áfengan bjór og vín. Hærra verð vegna álagningar skattsins dregur úr afkomu fyrirtækjanna. 10% veitingaskattur veldur því, að starfsfólkið þarf að verja hluta af honum til skýrslugerðar og innheimtu. Með álagningu skattsins hlýtur að verða örðugra fyrir menn að framkvæma fullkomið bókhald þar, sem 10% veitingaskattur er, en hvorki gisting né sælgætissala. — Það er almennt viðurkennt, að góð gistihús og veitingahús séu mjög nauðsynleg, fyrst og fremst til þess að landsmenn geti ferðazt sjálfir um sitt eigið land og til þess að Ísland geti tekið á móti erlendum gestum, því að af komu erlendra gesta má hafa gjaldeyristekjur. Það má benda á það, að ástandið er oft þannig hér, að ómögulegt er að fá inni. Flm. frv. telja, að afnám veitingaskattsins mundi létta mjög á veitingastöðunum og gera þá færari um að gegna hlutverki sínu. Það má benda á, að sú fórn, sem ríkissjóður færir með niðurfellingu skattsins, er ekki eins mikil og virðast kann í fljótu bragði. Þá dregst frá innheimtukostnaður, og ríkissjóður fengi auknar tekjur af veitingahúsunum með betri afkomu þeirra.

Að lokinni þessari umr. vil ég óska þess, að frv. verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr.